Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:48:54 (8956)

2004-05-26 10:48:54# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, Frsm. meiri hluta GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:48]

Frsm. meiri hluta félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði réttilega að ég hefði nákvæmlega engar áhyggjur af því að feður mundu ekki nýta sér feðraorlofið þótt þeir fengju ekki svokallað orlof á orlof. Svo það sé alveg upplýst hér hef ég engar áhyggjur af því.

Svo öllum sé það ljóst þýðir þetta bara það að á meðan viðkomandi er í fæðingarorlofi fær hann ekki reiknaða orlofsdaga. Einstaklingur sem er í sex mánaða fæðingarorlofi fær að auki miðað við tveggja daga regluna 12 daga í orlof í stað 24. Svo einfalt er það.

Nú vita menn líka að það er mikill sveigjanleiki í kerfinu. Ég þekki þetta ágætlega því það er ekkert langt síðan ég og konan mín eignuðumst börn. Sveigjanleikinn er mjög mikill. Menn þurfa ekki að taka það allt í einu og það er virkilega tekið mið af aðstæðum þeirra sem taka orlof. Þeir eru eðli málsins samkvæmt mismunandi. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við það sem menn hafa samið um í frjálsum samningum. Ég lít ekki svo á að það sé mitt hlutverk. Hins vegar segi ég það nákvæmlega eins og það er að mér sýnast engin réttlætisrök fyrir því að menn fái reiknað sérstakt orlof, orlofsdaga, ofan á þann tíma sem þeir eru með fjölskyldu sinni. Ég hef ekki heyrt neinn færa sannfærandi rök fyrir því. Það er fyrir mér afskaplega góður tími, hann verður ekki miklu betri og það er fyrir mér orlof, enda heitir þetta fæðingarorlof. Ég vona að þegar flestir fá frí nýti þeir þann tíma með fjölskyldu sinni og ég held að flestir geri það.