Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:55:27 (8959)

2004-05-26 10:55:27# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:55]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hvetur okkur til að hugsa málin. Það höfum við gert, bæði ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Það hefur Alþýðusamband Íslands gert, BSRB líka og allir eru á einu máli. Hugsunin að baki fæðingarorlofslögunum er sú að fólk geti verið fjarri vinnu sinni með börnum sínum án þess að verða fyrir tekju- og réttindatapi, a.m.k. skuli stefnt að því að halda mismuninum þarna á milli í algeru lágmarki. Sú er hugsunin að baki þessum lögum. Hugsunin er sú að einn réttur gangi ekki á annan rétt þannig að fæðingarorlofsrétturinn gangi ekki á orlofsréttinn. Sú er hugsunin að baki þessum lögum þar sem auglýst var eftir röksemdum í málinu.

Þetta þýðir þess vegna í reynd að þeir sem ekki njóta þessara kjara eins og opinberir starfsmenn gera, og þá vísa ég í almenna vinnumarkaðinn, eru í reynd að nýta réttinn til að vera með börnum sínum í sumarleyfi sínu. Sá er raunveruleikinn. Ég vil upplýsa hv. þingmann sem segist ekki hafa heyrt einn einasta mann ræða um þetta að það hefur verið rætt á fjölmennum þingum þeirra heildarsamtaka sem hér var vísað til og þau hafa samþykkt stefnuyfirlýsingu í þessu efni. Mér finnst að hana beri að taka alvarlega. En þetta er hugsunin að baki því frv. sem ég lagði fram og málflutningi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem einnig sendi inn fyrirspurnir um þetta efni á síðasta þingi. Þá kom reyndar í ljós að það var skilningur félmrn. líka á þeim tíma að það ætti að reyna að tryggja þessi markmið sem ég hef hér lýst.