Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 11:42:23 (8964)

2004-05-26 11:42:23# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[11:42]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Með lögum um fæðingar- og foreldraorlof frá árinu 2000 var tekið eitt stærsta framfaraskref sem hér hefur verið stigið í langan tíma. Sú ákvörðun að tryggja feðrum sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs var mjög mikilvæg enda hefur komið á daginn að lögin hafa stuðlað mjög að því að feður séu heima við með börnum sínum á fyrstu mánuðum æviskeiðs þeirra. Þegar á heildina er litið geta foreldrar samanlagt verið níu mánuði samvistum við barn sitt frá vinnu samkvæmt þessum lögum. En ég tel að stíga þurfi stærri skref, lengja þennan tíma og það skuli byggja á sömu grunnhugsun og þetta frv. byggir á, sjálfstæðum rétti mæðra og feðra.

Hugsunin á bak við þessi lög var sú að útgangspunkturinn skyldi vera barnið. Lögin áttu að tryggja barni rétt til þess að vera samvistum við foreldra sína. Þar með átti að búa svo um hnútana með lögunum að foreldrar, bæði mæður og feður, skyldu ekki verða fyrir kjara- og réttindaskerðingu í fæðingarorlofi. Alla vega skyldi stefnt að því að halda slíkri skerðingu í algeru lágmarki. Þetta var hugsunin að baki lögunum og átti tryggja foreldrum 80% af tekjum sínum í fæðingarorlofi. Jafnframt var hugsunin sú að foreldrar héldu réttindum sínum eins og kostur væri.

[11:45]

Þá kemur tvennt á daginn. Annars vegar fer um þjóðfélagið þegar í ljós kemur að hátekjufólk, fólk á ofurlaunum, nýtir sér þennan rétt og fær úr almannasjóðum peninga í fæðingarorlof. Það er ástæðan fyrir því að nú er sett þak á þessar greiðslur. Þakið miðast við 600 þús. kr. mánaðartekjur, þ.e. að einstaklingur getur að hámarki fengið 480 þús. kr. greiddar úr Fæðingarorlofssjóði. Að baki þeirri ákvörðun búa ekki fjárhagsleg rök heldur fyrst og fremst siðferðileg. Mönnum vex það í augum að fólk fái þetta háar greiðslur úr sjóðnum.

Athugun hefur sýnt að á árinu 2003 fóru aðeins 195 einstaklingar sem fengu greitt úr sjóðnum yfir þessi mörk, 178 karlar og 17 konur. Þegar litið er til tekjudreifingar þessa hóps voru 88 karlar og 10 konur með tekjur á bilinu 600--700 þús. kr. 40 karlar og 4 konur voru með tekjur á bilinu 700--800 þús. kr. og tvær konur voru með meira en 1 millj. kr. í mánaðartekjur og 13 karlar. Mönnum finnst þetta svo há laun, svo háar tekjur, að óþarfi sé að bæta einstaklingunum það úr almannasjóði. Það eru siðferðileg rök, segi ég, sem búa þarna að baki en ekki fjárhagsleg. Það er aðeins ert ráð fyrir sparnaði upp á 150 millj. kr. vegna breytingarinnar en fjárhagsvandi sjóðsins nemur margfalt hærri upphæð. Þarna búa því ekki fjárhagsleg rök að baki.

Ég hef að vissu leyti ákveðna samúð með því sjónarmiði að ekki eigi að setja þetta þak. Ég hef ákveðna samúð með því sjónarmiði vegna þess að það gengur þvert á grunnhugsunina sem ég lýsti áðan, grunnhugsunina sem sjóðurinn hvílir á. Þá má spyrja: Hvers vegna ósköpumst við ekki yfir þessum tekjumun í þjóðfélaginu í mánuði hverjum, á ári hverju áratugum saman, en einblínum bara á þessa þrjá mánuði sem einstaklingur er frá vinnu og er samvistum við barn sitt? Siðferðilega stenst þetta kjarabil ekki, sé það skoðað í því ljósi. Ef mönnum vex þetta í augum þá á okkur einnig að vaxa í augum kjarabilið sem er að staðaldri í samfélaginu. Það verður okkur hins vegar sýnilegt í fæðingarorlofinu og mönnum finnst það siðferðilega ekki standast að það sé greitt úr almannasjóðum.

Hins vegar ber að líta á, sem gætu verið rök gegn því að afnema þakið, að þetta byggir að hluta á sama prinsippi og lífeyrissjóðirnir ef svo má segja. Þar er greitt hlutfall af tekjum inn í sjóði og hlutfall af tekjum kemur út úr sjóðnum að sama skapi, það er sama hugsun. Eins er með þetta. Þetta er tekið af tryggingagjaldi sem er greitt sem hlutfall af tekjum einstaklinganna. Þá er það ekki siðferðilega rangt að taka sama hlutfall út úr sjóðnum.

Hins vegar er það niðurstaða fjölmennra samtaka launafólks ASÍ, BSRB og SÍB að leggjast ekki gegn þessum áformum. Ég get borið vitni um að þegar þetta mál hefur verið rætt á fjölmennum fundum innan þessara samtaka hefur sú krafa verið mjög sterk að þakið yrði sett. Það skýri ég í ljósi siðferðilegrar afstöðu manna og gagnrýni á þennan mikla kjaramun í samfélaginu. Þar eru uppi tvö sjónarmið en við í minni hluta félmn. tökum þá afstöðu í áliti okkar að leggjast ekki gegn þessu þaki. Við höfum að vísu ákveðnar efasemdir um það og vörum jafnframt við því að þakið verði notað sem skerðingartæki í framtíðinni. Sú hætta er fyrir hendi að þetta viðmiðunarmark verði ekki látið fylgja launaþróun og verði smám saman notað sem skerðing á almennum greiðslum. Það eru fordæmi fyrir slíku, við þekkjum það. Þess vegna teldum við æskilegt að láta þessa fjárhæð eins og aðrar viðmiðunarfjárhæðir í frv. fylgja launavísitölu, sem vörn gegn þessari hugsun. Í áliti okkar segir, með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn óttast frekar að þakið verði fyrsta skrefið til að skerða fæðingarorlofsgreiðslur meira, tilhneiging verði hjá stjórnvöldum að lækka þakið í sparnaðarskyni og láta fjárhæðir ekki breytast í takt við launavísitölu.``

Síðan er gerð grein fyrir brtt. sem við flytjum um þetta efni.

Varðandi fjármögnun á fæðingarorlofssjóðnum hefur minni hlutinn uppi miklar efasemdar og reyndar harða gagnrýni. Fæðingarorlofssjóður er styrktur með því að færa fjármagn í miklum mæli úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Það er samdóma álit flestra samtaka sem koma nærri honum að stöðu hans sé með þessu stefnt í mikla tvísýnu. Það byggir á mjög mismunandi áætlunum sem þar eru lagðar til grundvallar. Ég ætla að vísa í minnihlutaálitið hvað það snertir, með leyfi forseta:

,,Verulegur munur er á mati ASÍ og þeirri spá sem fulltrúar félagsmálaráðuneytisins kynntu í félagsmálanefnd um áhrifin af því að færa umtalsverðar fjárhæðir frá Atvinnuleysistryggingasjóði í Fæðingarorlofssjóð. Samkvæmt spá um afkomu Atvinnuleysistryggingasjóðs er gert ráð fyrir að hann verði rekinn með 300--700 millj. kr. halla á ári. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir að atvinnuleysi minnki og verði 2,5% árið 2007 og engar frekari breytingar verði gerðar á réttindum í sjóðnum. ASÍ spáir því að atvinnuleysi muni ekki minnka á næsta ári heldur verði það áfram 3,5%. Sömuleiðis leiðir ASÍ líkur að því að þegar árið 2005 verði halli sjóðsins ekki 677 millj. kr. heldur verði hann 1,5--1,8 milljarðar kr. og eigið fé komið niður fyrir 6 milljarða en í spá stjórnvalda er gert ráð fyrir að eigið fé sjóðsins verði 7,8 milljarðar árið 2005. Frávikin felast í því að ASÍ spáir meira atvinnuleysi á næstu árum en stjórnvöld og munar þar allt að 0,5% á ári. ASÍ spáir því að eiginfjárstaða sjóðsins fari niður í 3,8 milljarða kr. árið 2007 þegar allar líkur séu á að atvinnuleysi aukist verulega í kjölfar samdráttar í framkvæmdum við Kárahnjúka.

Í umsögn ASÍ er lagt til að í stað þess að rýra tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs eins og stjórnvöld áforma verði hlutur hans óbreyttur og tekjuþörf Fæðingarorlofssjóðs mætt með þeim hluta tryggingagjaldsins sem ekki er sérstaklega varið til trygginga er tengjast vinnumarkaðnum og starfsemi tengdri honum.``

Því næst er vitnað í umsögn frá Samtökum atvinnulífsins. Þar eru sömu efasemdir og reyndar einnig hjá Verslunarráði Íslands. Síðan er á hitt að líta, við víkjum að því í áliti okkar, að nú hefur verið skipuð nefnd á vegum hæstv. félmrh. sem á að kanna leiðir til kjarabóta fyrir atvinnulaust fólk. Kjarabætur þýða náttúrlega aukin útgjöld. Þau útgjöld verða væntanlega fjármögnuð úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Á það þarf að líta líka. Öll heildarsamtök í landinu, bæði samtök launafólks og atvinnurekenda, telja að fjárhagsgrundvelli Atvinnuleysistryggingasjóðs sé teflt í tvísýnu, að tilflutningur á fjármunum úr þeim sjóði yfir í Fæðingarorlofssjóð komi ekki til með að standast á næstu árum. Ef einhver raunverulegur vilji býr að baki yfirlýsingum um bætt kjör til atvinnulauss fólks mun það kosta peninga í ofanálag. Þar er því uppi mjög mótsagnakennd staða og verður fróðlegt að heyra skýringar hæstv. ráðherra á henni.

Bæði ASÍ og BSRB vara við því að færa Vinnueftirlit ríkisins undir fjárlög, en Vinnueftirlitið hefur fengið allt að 0,08% af tryggingagjaldi til að fjármagna starfsemi sína. Það hefur reyndar, eftir því sem ég best veit, ekki fengið þá upphæð nema að hluta. En bæði innan Alþýðusambandsins og innan BSRB telja menn að halda ætti þessum sjálfstæða tekjustofni fyrir Vinnueftirlitið. Það var upplýst í félmn. að hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. stæðu sameiginlega að samkomulagi um að tryggja fjárhagsgrundvöll Vinnueftirlitsins. Ég efast ekki um að svo verður á næstu árum en hér er horft til framtíðar.

Eitt af helstu gagnrýnisatriðum heildarsamtaka launafólks, ASÍ, BSRB, BHM og Sambands íslenskra bankamanna, var breytt viðmiðunartímabil tekna sem fæðingarorlofsgreiðslur miðast við. Í frv. er lagt til að viðmiðunartímabilið verði lengt, miðað verði við tekjuár í stað tiltekins fjölda mánaða og að viðmiðunartímabilið standi yfir í tvö tekjuár á undan fæðingarári í stað þess að miðað sé við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Þessu kunna að fylgja kostir en líka gallar. Kostirnir eru þeir að einstaklingi sem verður atvinnulaus á tímabilinu að hluta til getur verið það til hagsbóta að tíminn sé lengdur. Á hitt er líka að líta að þegar miðað er við tekjur lengra aftur í tímann, án þess að þær séu færðar upp samkvæmt launavísitölu og tekið sé tillit til launaskriðs, þá er þar um tekjuskerðingu að ræða í fæðingarorlofi. Við þessu hefur verið varað og í álitsgerð minni hlutans segir, með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn telur rétt að bregðast við þeim ágalla sem skert getur greiðslur með því að leggja til að tekjur á viðmiðunartímanum verði færðar upp til samræmis við launavísitölu þegar fæðingarorlof er tekið. Sömuleiðis leggur minni hlutinn til að ef einstaklingar í fæðingarorlofi hafa verið atvinnulausir á viðmiðunartímanum og því einungis haft atvinnuleysisbætur sér til framfærslu en aftur á móti haft tekjur á fæðingarári barnsins sé heimilt í útreikningum fæðingarorlofsgreiðslna að taka tillit til þess. Minni hlutinn freistaði þess mjög að ná samkomulagi við meiri hlutann um að flytja þessar breytingartillögur en án árangurs.``

[12:00]

Minni hluti nefndarinnar hefur jafnframt lagt fram breytingartillögur. Við lögðum áherslu á þá í umræðum í nefndinni að tryggja rétt lífeyrisþega og þeirra sem þurfa á umönnunarbótum að halda. Við erum með tillögur í þá átt. Síðan teljum við að taka beri á orlofsréttindum. Eins og fram hefur komið fyrr við þessa umræðu, og margoft við umræðu á þinginu og í félmn., hafa opinberir starfsmenn eða starfsmenn ríkis og sveitarfélaga samið um það við viðsemjendur sína að fæðingarorlofsrétturinn gangi ekki á orlofsréttinn. Um það hefur verið samið í samningum. Ég lagði fram frv. á sínum tíma og við í stjórnarandstöðunni leggjum fram brtt. sem byggir á því frv. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að einstaklingum á almennum markaði verði tryggður samsvarandi réttur með greiðslum úr sjóðnum. Það hefur verið bent á að þetta kosti mikla peninga, talað um 700 millj. í því samhengi. Það hefur verið svolítið á reiki hvað stjórnarmeirihlutinn leggur til grundvallar þegar hann andæfir þessu. Annars vegar eru það fjárhagsleg rök og hins vegar tæknileg rök, jafnvel siðferðileg rök hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Hann telur það réttlætisrök að koma í veg fyrir að fólk á almennum vinnumarkaði njóti þessara réttinda. Það er stórkostlegt réttlætismál að póstmaður á lágum launum sé í fæðingarorlofi á kostnað sumarleyfis síns. Hann telur það vera réttlæti í málinu, réttlætisrök. Þetta þýðir í reynd, fyrir fólk sem ekki nýtur þessara réttinda, að eins heiðarlegt væri að segja við það: Taktu þennan rétt í sumarfríinu þínu. Þannig virkar þetta í reynd. Fæðingarorlofsrétturinn étur upp orlofsréttinn. Það var aldrei hugsun löggjafans enda kom það fram í svari á sínum tíma við fyrirspurn frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það hefði ekki verið hugmyndin að baki fæðingarorlofslögunum. Ég hef reyndar ekki svarið fyrir framan mig og get get ekki vitnað beint í það en ég man ekki betur en það hafi verið staðhæft af hálfu félmrn. á sínum tíma, að hugsunin væri þessi.

Núna telur fulltrúi Sjálfstfl. í fæðingarorlofsnefnd mikið réttlætismál að standa gegn kröfum um að fólk á almennum vinnumarkaði njóti þessa réttar. Fæðingarorlofsrétturinn skal éta upp orlofsréttinn. Þetta hefur verið mjög bagalegt fyrir fólk, sérstaklega þá sem eru á mjög lágum launum. Ég hélt sannast sagna fyrst að þarna kæmu fram fjárhagsleg rök. Ég vísa þá í þessar 700 millj. kr. Það hefur hins vegar verið upplýst við umræðuna að þar er ekki fjárhagslegum rökum teflt fram. Þetta er réttlætiskennd Sjálfstfl. sem við er að glíma. Hún telur með öllu ófært að veita launafólki á almennum vinnumarkaði þann rétt sem samið hefur verið um fyrir hönd launafólks hjá ríki og sveitarfélögum í samningum vinnuveitenda við stéttarfélög þeirra.

Við erum með ýmsar aðrar ábendingar varðandi frv. og segjum í niðurlagi álitsgerðar okkar, með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn styður meginefni frumvarpsins að því gefnu að eftirfarandi breytingartillögur nái fram að ganga:

1. Þak og gólf viðmiðunarfjárhæða breytist á hverjum tíma í samræmi við launavísitölu.

2. Tekjur viðmiðunartímabils tekna vegna greiðslna í fæðingarorlofi taki breytingum í samræmi við breytingar á launavísitölu á tímabilinu.

3. Heimilt sé að taka tillit til tekna á fæðingarári barns ef einstaklingur í fæðingarorlofi hefur verið tekjulaus á viðmiðunartímabilinu, t.d. vegna atvinnuleysis.

4. Orlof greiðist að loknu fæðingarorlofstímabili.

5. Umönnunar- og lífeyrisgreiðslur verði samrýmanlegar fæðingarorlofsgreiðslum.``

Þetta eru þær brtt. sem við leggjum til. En ég ætla að ljúka ræðu minni á þeim nótum sem ég hóf hana. Við erum að ræða löggjöf sem mjög almenn sátt er um í þjóðfélaginu. Ég tel að með fæðingarorlofslögunum hafi á sínum tíma verið stigið framfaraskref. Við erum að mínu mati að fjalla um lítils háttar, ekki stórvægilegar, breytingar á lögunum. Við skulum ekki láta umræðuna villa okkur sýn. Það er grundvallarsátt um þessa löggjöf í þjóðfélaginu. Á þessum lögum eru hins vegar ágallar sem við viljum bæta úr. Við deilum um hversu langt eigi að ganga í því efni. Við vonum að sjálfsögðu að tekið verði tillit til sjónarmiða okkar.

Það er deilt um grundvallaratriði, þá helst varðandi þakið. Þar kljást menn um prinsipp og eru ekki á einu máli. Ég held að það sé þverpólitískt. Ég hef trú á því að í öllum flokkum, í mínum flokki líka, séu mismunandi áherslur hvað þetta snertir. Við höfum gert grein fyrir þeim í minnihlutaáliti okkar. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í félmn. erum samstiga hvað þetta snertir en hins vegar tölum við ekki fyrir hönd allra í flokkum okkar.