Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 12:14:44 (8968)

2004-05-26 12:14:44# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[12:14]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugsað það svo djúpt, hvern ætti að spyrja og hvenær í umræðu um mál. Það er verið að gera nokkrar breytingar á mikilvægri löggjöf. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn stendur að því. Hér var fulltrúi ríkisstjórnarinnar spurður um það efni, þá sérstaklega um stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem heyrir undir ráðuneyti hæstv. félmrh. Það er ekki óeðlilegt að spurningum sé til hans beint. Mér finnst þakkarvert að hér skuli viðstaddir umræðuna varaformaður félmn. og hæstv. félmrh. til að taka þátt í umræðu um þessa mikilvægu löggjöf. Mér finnst það mjög gott og mér finnst það til fyrirmyndar. Svona á þetta að vera, svona á þetta vissulega að vera.

Varðandi hátekjufólkið þá get ég trúað hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir því að ég mun sofa rótt þótt einstaklingur með hálfa aðra milljón á mánuði fái hana ekki greidda að fullu í fæðingarorlofi sínu. Það mun ekki raska minni ró. Það gerir það ekki heldur hjá almennu launafólki sem er með rúmar 100 þús. kr. á mánuði. Mönnum ofbýður siðferðilega þessi fjáraustur í hátekjufólkið. En ég tek undir með hv. þm. varðandi það að ef menn hafa áhyggjur af þessu í þrjá mánuði þá eiga menn að hafa áhyggjur af því öllum stundum. Þar er bara birtingarform veruleika sem til staðar er í þjóðfélaginu. Ég held að aldrei þessu vant geti verið að ekki sé ýkjalangt á milli afstöðu okkar í þessu efni. Mér finnst ástæða til að hafa áhyggjur af hinum geigvænlega kjaramun sem er við lýði í íslensku þjóðfélagi.