Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 12:21:38 (8971)

2004-05-26 12:21:38# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, Frsm. meiri hluta GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[12:21]

Frsm. meiri hluta félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir hreinskilin svör varðandi skoðanir hans sem gera það að verkum að hér yrði ekkert svigrúm til skattalækkana. Þetta vekur athygli vegna þess að það er ekki einungis hv. þm. Ögmundur Jónasson sem hefur þessar áherslur. Fulltrúar Samf. og Frjálsl. eru sama sinnis. Ég get að vísu ekki annað séð en þetta útheimti skattahækkanir. Ég get ekki séð annað miðað við þær forsendur sem fyrir liggja. Það liggur fyrir að þessir flokkar leggja í það minnsta enga áherslu á skattalækkanir, ef þeir ætla að vera sjálfum sér samkvæmir hvað þetta nefndarálit varðar. Ég get í raun ekki séð annað en að þeirra hugmyndir hefðu í för með sér skattahækkanir. Ég þakka hins vegar hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir hreinskilni hvað þetta varðar. Það er ágætt að fá þetta innlegg í umræðuna.

Hv. þm. sagði hins vegar að þeir sem hefðu minni tekjur hefðu ekki efni á að fara í sumarfrí. Ég held að við verðum að setja þetta í samhengi og minnast þess að þessi réttur var ekki til staðar. Ég vek athygli á því að foreldrar geta skipt á milli sín fæðingarorlofinu og hægt er að taka það á 18 mánaða tímabili. Þessi réttur var ekki til staðar, honum var bætt við. Menn hafa sveigjanleika upp á 18 mánuði. Ég hef alltaf litið svo á að orlof þýði að sá sem það nýtir geti verið með fjölskyldu sinni. Þannig hef ég litið á það og ég held að flestir líti á það þannig. En miðað við málflutning hv. þm. Ögmunds Jónassonar þá lítur hann svo á að það þurfi sérstakan rétt til orlofs þegar fólk er með fjölskyldu sinni. Ég spyr: Til hvers þarf fólk slíkan rétt? Er það til þess að fá sér frí frá fjölskyldunni?