Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 12:26:02 (8973)

2004-05-26 12:26:02# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, KJúl
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[12:26]

Katrín Júlíusdóttir:

Frú forseti. Ég vil koma inn á nokkur atriði í tengslum við þetta mál, þessa breytingu á lögum um fæðingarorlof. Ég vil byrja á að segja að þegar lögin voru samþykkt árið 2000, lög um fæðingarorlof og foreldraorlof, tel ég að stigið hafi verið eitt merkilegasta skrefið í jafnréttismálum á Íslandi og jafnvel þótt víðar væri leitað, kannski í heiminum öllum. Í umræðunni megum við ekki gleyma því hvaða markmið var farið af stað með og hvers vegna þessi lög voru sett. Segja má að meginmarkmiðið með lögunum hafi verið tvíþætt. Í fyrsta lagi var lögunum ætlað að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði, þ.e. gera þau jafnverðmæt fyrir vinnuveitandann, karlinn og konuna, og veita þeim jöfn tækifæri til starfa og launa. Annað markmiðið var auðvitað að tryggja rétt barnanna til samveru við báða foreldra sína á fyrstu mánuðum æviskeiðsins.

Núna, árið 2004, er ekki nema ár síðan þessi lög tóku gildi að fullu. Öll þessi skref höfðu verið stigin og lögin tóku fullt gildi og svo hafði verið í eitt ár, virðulegi forseti. Það hryggir mig að sjá ýmsa þætti í þessu frv. án þess að að baki liggi félagslegar rannsóknir á afleiðingum lagasetningarinnar árið 2000, áhrifum af okkar ágætu fæðingarorlofslögum. Það eina sem við höfum fyrir framan okkur er greinargerð um að of háar greiðslur renni til nokkurra einstaklinga í samfélaginu en mér finnst það ekki nóg. Ég vil fá að vita, áður en við samþykkjum ákveðna þætti í þessu frv., t.d. þakið, hversu nálægt við höfum færst þessum tveimur markmiðum sem við lögðum af stað með. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á því og hér liggur fyrir frv. sem á að spara ríkisvaldinu 150 millj., um 2% af útgjöldum sjóðsins.

Virðulegi forseti. Ég ætla að nefna þrjú atriði sem ég hef sérstakar áhyggjur af í þessu svokallaða sparnaðarfrumvarpi. Það var hárrétt, sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á, að um þessi lög ríkir víðtæk sátt. Ég er því hissa á að nú, ári eftir að lögin tóku gildi, eigi að kljúfa upp hópa í prinsippafstöðu gagnvart þakinu án þess að neins konar félagslegar úttektir á afleiðingum liggi til grundvallar. Við lögðum upp með að við ætluðum að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaðnum. Hefur það gerst? Höfum við færst nær því markmiði? Við vitum ekkert um það. Hvaða áhrif hafa þessi lög haft á það?

Það er komið inn á þessi þrjú atriði sem ég tel vert að huga að í nefndaráliti minni hlutans. Í fyrsta lagi vil ég gera fjármögnun sjóðsins að umtalsefni. Eins og fram kemur í nefndaráliti minni hlutans er ljóst að stjórnvöld vanmátu sérstaklega stóraukna þátttöku karla í fæðingarorlofi við þessa lagabreytingu. Þau vanmátu þannig útgjöld sjóðsins til þess að reyna að mæta því en í frv. er lagt til að styrkja stöðu sjóðsins með auknu fjármagni úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þetta finnst mér, virðulegi forseti, mjög undarlegt bix, að blanda saman Atvinnuleysistryggingasjóði og svo fæðingarorlofi. Þetta eru gerólíkir hlutir byggðir á sinni forsendunni hvor, hvor með sitt markmið að leiðarljósi. Ef menn sjá sameiginleg markmið með þessum tveimur félagslegu þáttum, atvinnuleysistryggingum og fæðingarorlofi, þá væri ágætt að fá að heyra þær röksemdir.

[12:30]

Þær umsagnir sem félmn. hafa borist vegna frv. gagnrýna allar fjármögnunina. Þar má nefna ASÍ, Samtök atvinnulífsins og Verslunarráð. Allir þessir aðilar hafa gagnrýnt fjármögnun sjóðsins. Ég tel mikilvægt, eigum við að tryggja bæði Atvinnuleysistryggingasjóð og Fæðingarorlofssjóð til framtíðar, að við skoðum þetta nánar.

Ég hef einnig áhyggjur af hinu svokallaða viðmiðunarákvæði. Í frv. er gert ráð fyrir að viðmiðunartímabilið verði lengt og tengt skattári. Þetta hefur með réttu verið gagnrýnt af ASÍ, BSRB og BHM sem benda á að í mörgum tilfellum geti hlutfall fæðingarorlofs af tekjum á fæðingartímabilinu farið úr 80% af tekjum niður í 70%. Þar erum við enn komin í leiðangur frá upphaflegum markmiðum, þ.e. það átti að vera fjárhagslegur hvati til að vera með börnum sínum í fæðingarorlofi.

Þær tekjur sem miðað er við, sem eins og fram kemur í minnihlutaálitinu, geta verið hátt í þriggja ára gamlar, eignist viðkomandi barnið seint á árinu. Þar er farið í allt að því þriggja ára gamlar tekjur og ekki gert ráð fyrir að þær verði uppfærðar miðað við launavísitölu og verðlagsbreytingar á viðmiðunartímabilinu og tel ég það áhyggjuefni.

Frú forseti. Það sem ég vildi aðallega fá að gera að umtalsefni er hið svokallaða þak á fæðingarorlofsgreiðslur. Ég kom inn á það áðan að ég get á þessum tímapunkti ekki samþykkt slíkt þak. Ég tel að við megum ekki missa sjónar á upphaflegu markmiði með þessum lögum. Ég tel það ekki 150 millj. kr. virði eða 50 millj. kr. virði, eins og hv. þm. Pétur Blöndal nefndi, að ganga svo gegn markmiðum laganna. Ég tel það ekki þess virði en væri til í að ræða það ef fyrir lægju félagslegar rannsóknir sem sýndu að leiðin sem við ákváðum að fara til að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði hefði ekki gengið upp. Þá gætum við hugsanlega sest niður og rætt um slík atriði, um svo mikla grundvallarbreytingu og beygju út frá upphaflegum markmiðum. En ekkert slíkt liggur fyrir, frú forseti, og það veldur mér áhyggjum.

Ég tel mikilvægt að lögin verði látin standa óbreytt og ekkert þak sett á. Ég vil jafnan rétt kynjanna til allra starfa í þjóðfélaginu, líka jafnan rétt kynja til hálaunastarfa. Við megum ekki gleyma því að háu launin liggja yfirleitt hjá forstjórum stórra fyrirtækja. Það er ekki eins og þetta sé almennt. Ég tel að ef við höfum ekki fjárhagslegan hvata til þess að þeir aðilar, sem yfirleitt eru karlmenn, fari í fæðingarorlof þá geti það haft ákveðin dómínóáhrif niður eftir stóru fyrirtækjunum, að menn taki ekki almennt fæðingarorlof. Það finnst mér áhyggjuefni vegna þess að þeir sem eru í valdastöðum í þjóðfélaginu eru líka fyrirmyndir. Þeir eru ekki bara fyrirmyndir starfsmanna sinna heldur eru þeir líka fyrirmyndir barnanna. Ég vil ekki að sonur minn alist upp við það, eins og það er núna, að eingöngu karlmenn séu í öllum valdastöðum og skynjun barnanna á valdi sé ávallt tengd körlum. Mér finnst þetta einn punktur í umræðunni sem ég tel að við þurfum að hafa til hliðsjónar. Það verður að vera fjárhagslegur hvati fyrir fyrirmyndir í samfélaginu til að taka fæðingarorlof.

Ég vil, með leyfi forseta, grípa niður í ræðu Páls Péturssonar, þáv. hæstv. félmrh., sem mælti fyrir frv. upphaflega. Hann fjallaði einmitt um þetta þak og hjá honum kom fram að til álita hafi komið að hafa eitthvert hámark. Hann segir orðrétt í ræðu sinni þegar hann mælti fyrir frv.:

,,Mjög kom til álita að hafa hámark á mánaðargreiðslum en það varð þó ekki að ráði. Það þótti líklegt að hærra launaðir mundu þá ekki taka fæðingarorlof og jafnréttismarkmiðum milli kynja yrði síður náð.``

Ég spyr, virðulegi forseti, núv. hæstv. félmrh., hvað hefur breyst? Vissu menn ekki af þeim launum sem greidd eru í samfélaginu? Við vissum þegar lögin voru sett að það er launamunur. Ég vil spyrja, hvað hefur breyst í þessu sambandi.

Ég ætla aðeins, með leyfi forseta, að fá að hlaupa á fjölda þeirra sem eru yfir því viðmiði sem hér er lagt til að hafa. Athyglisvert er að skoða hver kynjaskiptingin í þessum stöðum er. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í minnihlutaálitið en þar segir orðrétt:

,,Á árinu 2003 fóru 195 manns yfir það þak sem frumvarpið gerir ráð fyrir að sett verði á hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, þar af 178 karlar og 17 konur.``

Frú forseti. Ég tel að hlutföllin endurspegli einna helst að við erum alls ekki komin nógu langt í að ná þeim markmiðum sem upphaflega var stefnt að til að hægt sé að setja þak á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Ég held áfram að vitna í minnihlutaálitið:

,,Þegar litið er til tekjudreifingar þessa hóps voru 88 karlar og tíu konur með tekjur á bilinu 600--700 þús. kr. árið 2003. Fjörutíu karlar og fjórar konur voru með tekjur á bilinu 700--800 þús. kr. Tvær konur voru með meira en 1 millj. kr. í mánaðartekjur og þrettán karlar.``

Virðulegi forseti. Það er augljóst að sparnaður Fæðingarorlofssjóðs af þessu verður ekki mikill. Hann verður um 150 millj. í heild verði frv. að lögum. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi eru það aðeins 50--60 millj. kr. sem þetta þak mun spara. Ég vil líka taka undir áhyggjur þeirra sem talað hafa um að verði slíkt þak sett á sé hætta á að það færist neðar. Við höfum séð annað eins gerast, að miðað sé við hvernig menn ætla að spara nú í Fæðingarorlofssjóði. Menn fara beint í að setja þak og hvað gera menn næst þegar á að spara? Þá er mjög líklegt að ætla að menn fari út í að lækka þakið. Ég vil fá a.m.k. einhverja tryggingu fyrir því að svo verði ekki.

Frú forseti. Það er staðreynd að kynbundinn launamunur er til staðar. Ég tel, þó að það sé eingöngu persónulegt mat út frá þeim upplýsingum sem maður hefur í höndunum, að við höfum ekki færst nær þeim markmiðum að minnka þennan launamun frá því að lögin voru sett. Við erum ekki komin nándar nógu langt. Að auki vil ég nefna að konur eru mun færri í stjórnunarstöðum í samfélaginu en karlar. Þær sitja síður í stjórnum fyrirtækja, eru ekki forstjórar í fyrirtækjum og eru ekki í þeim hálaunastörfum sem um ræðir. Þetta tel ég, virðulegi forseti, að verði að laga. Ég vil sjá konur hafa jafnan rétt á þessum störfum og karla. Svo verður ekki ef við setjum þetta þak og okkur fer aftur um þessi fjögur ár hvað möguleika ungra kvenna til hálaunastarfa varðar. Þær standa þá ekki að fullu jafnfætis körlum á vinnumarkaði.

Frú forseti. Eins og ég kom inn á tel ég mikla hættu á að hálaunamenn taki síður fæðingarorlof ef frv. verður að lögum. Þannig munu börn hálaunamanna ekki njóta samvista við báða foreldra sína á fyrstu mánuðum æviskeiðsins. Síðast en ekki síst verða konur enn síður ráðnar í þessar stöður og möguleikar þeirra minnka enn. Mér finnst við stíga stórt skref aftur á bak, fyrir hvað? Fyrir 50--60 millj.? Má ég nefna í því sambandi að fyrir örfáum dögum var lagt fram á þingi frv., svokallaður mjólkursamningur, sem hæstv. landbrh. lét gera. Hann var keyrður í gegn á tveimur vikum. Hvað á hann að kosta? 27 milljarða á næstu átta árum. Ég tel það ekki 50--60 millj. kr. virði að höggva í þau markmið sem við settum okkur. Við höfum ekki kannað hvaða áhrif þau hafa og höfum ekki gefið okkur nægan tíma til þess að ná markmiðum laganna og höfum ekki séð um hvaða stærðir er að ræða í þessu samhengi.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan tel ég 2% sparnað af heildarútgjöldum sjóðsins ekki þess virði, að setja á þak án nokkurra félagslegra rannsókna á afleiðingum fæðingarorlofslaganna réttara sagt. Ég er ekki tilbúin að samþykkja að setja á þak án nokkurra rannsókna á félagslegum afleiðingum þess.

Ég vil benda á að fyrir þinginu liggur jafnréttisáætlun til fjögurra ára. Í þeirri jafnréttisáætlun er talað um að fara út í rannsóknir. En það sem mér þykir undarlegast er að sú rannsókn á að fara fram eftir að samþykkt hafa verið góð fæðingarorlofslög en síðan strax dregið úr áhrifum þeirra ári eftir að þau tóku gildi. Í þessari félagslegu rannsókn um áhrif laga á fæðingar- og foreldraorlof þyrfti að vera sérstök breyta til að skoða hvaða áhrif þetta þak mun þá hafa. Við munum ekki sjá þessa rannsókn verða að veruleika fyrr en eftir 2--3 ár.

Virðulegi forseti. Ég hef það prinsipp í svona málum að við eigum að rannsaka fyrst og gera svo. Það hefur ekki verið gert í þessu tilfelli. Ég er ekki að segja nei við þaki á fæðingarorlof um alla eilífð en ég er ekki tilbúin til að samþykkja þetta þak á fæðingarorlofið án þess að fyrir liggi nægilegar kannanir. Þessi aðferð hefur ekki fengið að njóta vafans, ekki fengið þann tíma og það svigrúm sem við ætluðum henni upphaflega til þess að ná markmiðum sínum. Við erum komin allt of stutt í áttina að markmiðum laganna.

Ég segi enn, sem á við um fleiri mál, að við þurfum að laga margt í vinnubrögðunum á hinu ágæta Alþingi. Það er allt of mikið um að við fáum stjórnarfrumvörp þar sem lagt er persónulegt mat á tiltekna stöðu og engar rannsóknir því til grundvallar. Óbreyttir þingmenn fá þar ekkert í hendurnar nema persónulegt mat til grundvallar lagasetningu. Mér finnst málin ekki nægjanlega skoðuð, ekki síst jafnréttismálin. Ég gagnrýndi það í félmn. í umfjöllun um jafnréttisáætlun hve lítið er um heildstæða yfirsýn yfir stöðu jafnréttismála í landinu. Við getum gert fína jafnréttisáætlun og sagt við ráðuneytin: Þetta er flott verkefni sem þú ert í, en menn vita ekki einu sinni hvað þeir eru að gera innbyrðis. Það vantar heildaryfirsýn, rannsóknir og úttekt á sviði jafnréttismála (Gripið fram í.) og fjölskyldumála --- vissulega, þetta snýr að því. Ég vil, í tengslum við umræðuna um jafnréttisáætlun sem mér finnst þetta mál tengjast mjög, að það komi fram að heilmargar rannsóknir hafa verið gerðar. Margar af tillögunum frá ráðuneytunum til jafnréttislaga áttu að vera aðgerðir eða úttektir sem áttu þegar að hafa verið gerðar. Nefndin fékk heilmikla gagnrýni í umsögnum sökum þessa.

Ég ætla að ljúka umfjöllun minni um þetta mál, frú forseti. Ég vona sannarlega að menn skoði hug sinn og spyrji sig að því þegar þeir greiða atkvæði um málið hvort það sé 50--60 millj. kr. virði að stefna markmiðum laganna um fæðingarorlof í hættu.