Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 12:46:55 (8974)

2004-05-26 12:46:55# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[12:46]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Við 1. umr. um málið lýsti ég almennt viðhorfum mínum til þess markmiðs að setja þak á greiðslur miðað við 600 þús. kr. tekjur, þ.e. 480 þús. kr. greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Ég lýsti jafnframt stuðningi við þau meginmarkmið sem kynnt voru af hæstv. félmrh. þegar mælt var fyrir málinu. Sú afstaða mín er óbreytt. Ég tel eðlilegt að setja viðmið við tekjur á þessar greiðslur og við höfum auðvitað tekið afstöðu til þess í Frjálslynda flokknum og föllumst á að setja takmörk á upphæðir greiðslna og viðmiðunartölur í því sambandi. Um það er ekki ágreiningur í okkar flokki að eðlilegt sé að setja þessum greiðslum einhver takmörk. Menn geta deilt um það hvaða sparnaður næst út úr þessu en þessi ráðstöfun er alla vega okkur að skapi. Við teljum óeðlilegt að miða við, í þessum réttindum sem tryggja á mönnum laun, verulega háar upphæðir sem hlaupið gætu jafnvel hlaupið á 2 millj. kr., þ.e. að greiða eigi 80% af því.

Ég hef ekki trú á því að þótt þessi takmörkun sé sett sjái fólk sér ekki hag í því, út frá ýmsum ástæðum og m.a. því meginsjónarmiði að fá að vera með barni sínu, að nýta sér þann möguleika sem lögin bjóða upp á þótt greiðslur til þess takmarkist við 480 þús. kr. á mánuði. Það hljóta að teljast þokkalegar greiðslur í þjóðfélagi okkar, að fólk geti átt þær greiðslur vísar og jafnframt notið samvista við fjölskyldu sína og börn.

Ég hef ekki trúa á því að sú aðgerð sem hér er boðuð verði til þess að karlar dragi almennt úr því að taka sér fæðingarorlof. Það er vissulega svo að körlum var færður nýr réttur sem kom til framkvæmda fyrir rúmu ári. Ég tel að það hafi verið gott skref. Ég hef ekki trú á að okkar þjóðfélag breytist þótt þessi takmörk verði sett, að feður færist á nýjan leik frá nýfæddum börnum sínum. Ég held að sá möguleiki sem hér stendur til boða verði fullnýttur. Þjóðfélag okkar hefur verið að breytast á undanförnum árum. Það þykir mikið sjálfsagðara að feður séu heima með nýfæddum börnum. Ég tel að það sé að mörgu leyti ágæt þróun og jákvæð þótt við sem eldri erum höfum aldrei fengið að nota þennan rétt og sá sem hér stendur hafi verið á síldarmiðum norður í höfum þegar börn hans voru að fæðast. Ég frétti kannski af þeim einum og hálfum sólarhring eftir að þau voru fædd. En það er auðvitað liðin tíð.

Ég vona sannarlega að þær breytingar sem hér er verið að gera verði ekki til þess að afturhvarf verði í því að feður nýti sér þennan rétt. Ég hef ekki trú á því. Þjóðfélag okkar er einfaldlega að breytast og þetta eru eðlileg og sjálfsögð viðhorf í nútímaþjóðfélagi að feður nýti sér þennan rétt. Sú niðurstaða að miða við þessar 600 þús. kr. í tekjur sem hámark fyrir greiðslu í fæðingarorlofi er fyllilega réttlætanleg. Hún mun ekki valda þeim straumhvörfum að hér verði veruleg breyting eða hnignun þannig að feður hætti að nýta sér rétt sinn. Svo verður heldur ekki með hálaunakonur. Ég hef heldur ekki trú á því að hálaunaðar konur hætti að nýta sér þennan rétt. Ég tel að fólki sé tryggður ágætiskostur í fæðingarorlofi og í raun betri kostur en fólki stendur almennt til boða, í því sambandi er kannski nærtækast að skoða stöðuna hjá atvinnulausu fólki.

Það er nærtækt að skoða í þessu sambandi stöðu atvinnulausra, í hverju fólk lendir þegar það verður atvinnulaust og fær greiðslur upp á 90 þús. kr., sem nú eru hámarksatvinnuleysisbætur. Það er mikið áhyggjumál og verður vonandi tekið til gaumgæfilegrar skoðunar á næstu missirum og árum hvernig auka má rétt atvinnulausra. Sem betur fer er verið að skoða þau mál. Félmrh. hefur sett á fót nefnd með aðilum vinnumarkaðarins til að skoða atvinnuleysisdagbótaútfærslur með það að markmiði að gera úrbætur í málefnum atvinnulausra. Ég leyfi mér að vonast til að þetta leiði til betri stöðu þeirra sem lenda í atvinnuleysi, einkum ef fólk lendir í því um langan tíma. Ég tek sérstaklega undir að huga þarf vel að því í framtíðinni.

Áhyggjuefnið í þessu er að við erum að taka fé úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að standa undir því sem hér er lagt til. ASÍ lýsir vel viðhorfum sínum til atvinnuleysis og telur að atvinnuleysi muni því miður ekki minnka eins og stjórnvöld hafa gert ráð fyrir. Þeir telja að fjármagn í Atvinnuleysistryggingasjóði geti rýrnað verulega og meira en gert er ráð fyrir í röksemdum með frv. ASÍ spáir því að eignarstaða sjóðsins fari jafnvel niður fyrir 3,8 milljarða kr. árið 2007. Það væri mikið áhyggjuefni ef það reyndist niðurstaðan.

Það er að ýmsu að hyggja þegar fjallað er um þessi mál en ég er sammála meginefni frv. og við í Frjálslynda flokknum styðjum auðvitað þær brtt. sem við flytjum ásamt öðrum í stjórnarandstöðunni. Við vonumst til að tekið verði fullt tillit til þeirra tillagna við afgreiðslu málsins. Ég tel eðlilegt að líta til launavísitölunnar og setja viðmið á þróun þessara bóta, fæðingarorlofsbótanna. Ég held einnig, varðandi orlofsgreinina, að það þurfi líka að taka tillit til þess. Orlofsrétturinn er misjafn í þjóðfélaginu eftir kjarasamningum stétta. Sumar stéttir fá orlofið sitt greitt sem prósentu á öll laun, fá alltaf orlofið sitt greitt miðað við það að hafa stundað atvinnu. Aðrir hópar eiga orlofsrétt í föstum launum miðað við orlofstökutímabil. Það þarf vitanlega að líta til þess að þetta er réttur sem samið hefur verið um og hann verið lögfestur. Við hljótum að líta til þess að þessi réttur sé öllum tryggður. Ég tel eðlilegt að launþegar allir, hvort sem þeir eru í fæðingarorlofi eða ekki, eigi rétt á orlofslaunum sínum og orlofsrétti óháð fæðingarorlofi.

Þetta er aðalefni málsins sem ég vildi víkja að varðandi viðhorf Frjálsl. Ég vona sannarlega að þær brtt. sem minni hlutinn leggur til og birtast á þskj. 1531 verði samþykktar. Þar af leiðandi gætum við í stjórnarandstöðunni stutt þetta mál. Afstaða okkar til málsins í heild sinni fer að nokkru eftir afgreiðslunni á brtt. sem minni hlutinn leggur til. Það kann að fara svo, ef öllum brtt. okkar er hafnað, að við þurfum að endurmeta afstöðu okkar til þessa máls í heild sinni. Ég er samt enn þeirrar skoðunar að meginefni málsins sé nokkuð sem við getum stutt.