2004-05-26 13:42:55# 130. lþ. 127.95 fundur 598#B staðan fyrir botni Miðjarðarhafs og viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þó að stuttur tími sé gefur hún færi á því að drepa aðeins á stöðu mála sem er auðvitað skelfilegri en nokkru sinni fyrr. Er þá langt til jafnað.

Það má líka minna á að það er að verða lítið úr þeirri röksemd og réttlætingu Bandaríkjamanna fyrir Íraksstríðinu að í tengslum við þá aðgerð yrði komið á friði og Bandaríkjamenn mundu beita afli sínu til að stilla til friðar fyrir botni Miðjarðarhafsins. Var okkur ekki m.a. lofað þessu, herra forseti, þegar verið var að réttlæta innrásina í Írak? Jú, ég man ekki betur.

En við sjáum hvernig það er, akkúrat hið gagnstæða er að gerast, Bandaríkjamenn ganga lengra en nokkru sinni í stuðningi við og að veita skjól ofbeldisfullri framgöngu öfgamanna í Ísrael eins og framferði þeirra nú um stundir í flóttamannabúðunum í Rafa og víðar á Gaza-ströndinni m.a. ber með sér. Húsbrot, árásir, dráp, limlestingar á óbreyttum borgurum og þar fram eftir götunum.

Ég tel miklu meira en tímabært að taka til íhugunar sértækar viðskiptaþrýstiaðgerðir. Þær geta verið af mörgum toga og mundu án efa koma við Ísrael og hafa áhrif pólitískt þótt ekki væri nema að sett yrði fjárfestingarbann og bann við sölu vopna og hátæknibúnaðar inn í landið og láta þann þrýsting standa á Bandaríkjamenn sem auðvitað fóðra Ísraela að þessu leyti, bæði peningalega og hvað varðar vopn og búnað til styrjaldarrekstursins.

Ég minni svo á að ég hef ítrekað óskað eftir fundi í utanrmn. Þar liggur óafgreidd tillaga mín og hv. þm. Ögmundar Jónassonar um að mótmæla byggingu aðskilnaðarmúrsins og ég tel tímabært að Alþingi fylgi þeirri hefð sem skapast hefur, að gefa tóninn í þessum efnum. Ég minni á samþykktir Alþingis bæði frá 1989 og 2002. Ég tel rétt að áður en Alþingi lýkur störfum geri það hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum og afgreiði ályktun þar sem framferði Ísraelsmanna er mótmælt.