2004-05-26 13:47:14# 130. lþ. 127.95 fundur 598#B staðan fyrir botni Miðjarðarhafs og viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ísraelsmenn reisa múra, þeir stunda aftökur á leiðtogum Palestínumanna, hversu umdeildir sem þeir nú annars eru, og hin svokallaða regnbogaaðgerð Ísraelshers í síðustu viku þar sem skriðdrekar og brynvarðar jarðýtur voru send inn í Rafa-flóttamannabúðirnar á Gaza-svæðinu til að skjóta á Palestínufólk, hræða það og drepa, til þess að leggja heimili þess í rúst lýsti ótrúlegri grimmd og mannfyrirlitningu öfgasinnaðra ísraelskra stjórnvalda. Eldflaugum var m.a. skotið á mannfjölda sem hafði ekkert annað til saka unnið en að mótmæla þessum árásum á fjölskyldur sínar og heimili. Tíu manns féllu í valinn fyrir hermönnum Ísraels sem kunnu engin önnur ráð gegn vopnlausum mannfjölda en að skjóta á hann eldflaugum úr öruggri fjarlægð. Talið er að Ísraelsmenn hafi myrt 50 óbreytta borgara á örfáum dögum. Þessi aðgerð var og er af mörgum talin hreinn og klár stríðsglæpur.

Hvers vegna frömdu ísraelsk stjórnvöld þessi voðaverk? Jú, sú ástæða var gefin að ísraelsk stjórnvöld grunaði að verið væri að smygla vopnum frá Egyptalandi til skæruliða á Gaza-svæðinu.

Þegar fréttir berast af svona hryllilegum illvirkjum þar sem menn þykjast vera að bregðast við gegn hryðjuverkum hlýtur maður að staldra við. Það er nefnilega þannig að tvennt þarf til að hindra hryðjuverk, það þarf að hindra það að hryðjuverkamenn geti framið voðaverk sín en það verður líka að forðast að skapa umhverfi sem býr til hryðjuverkamenn. Það er mikil þversögn í því að íslensk stjórnvöld skuli ekki gera neitt þegar Ísraelsmenn fremja hryðjuverk og skapa umhverfi sem býr til hryðjuverkamenn á sama tíma og þessi sömu íslensku stjórnvöld gangast undir það að styðja innrás í heilt ríki einmitt undir því yfirskini að verið sé að berjast gegn hryðjuverkum.

Í þessu er falin mikil þversögn.

Það er svo sem ekkert nýtt að maður heyri þversagnakenndan málflutning hjá framsóknarmönnum á þessum síðustu og verstu tímum. Lengi getur vont versnað.