2004-05-26 14:02:09# 130. lþ. 127.95 fundur 598#B staðan fyrir botni Miðjarðarhafs og viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka þá málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram um stöðuna í þessum heimshluta.

Ég tel að staðan núna sé gjörbreytt. Á tímum Reagan-stjórnarinnar lýsti Arafat því í raun yfir að engin lausn væri í sjónmáli nema sú sem viðurkenndi tilvist Ísraelsríkis. Á móti kom í reynd viðurkenning Reagan-stjórnarinnar á Palestínu sem sérstöku ríki. Þá litu menn eðlilega, eins og hv. þm. Magnús Stefánsson benti hér á áðan, til Bandaríkjanna sem hins eina aðila sem gæti samið sátt.

Nú er sá möguleiki ekki lengur fyrir hendi vegna þess að Bandaríkin hafa tekið mjög einhliða og eindregna afstöðu með Ísraelsstjórn varðandi áætlun hennar um að innlima helming Vesturbakkans. Með öðrum orðum er í fyrsta skipti komin upp sú staða að Bandaríkjastjórn styður það að landamærin séu dregin upp á nýtt út frá niðurstöðum stríðsins 1967. Þetta þýðir að þjóðir heims verða með einhverjum hætti að finna nýjar leiðir.

Við Íslendingar, þó að við séum smáþjóð, getum ekki skorast undan ábyrgð. Við eigum efnahagslega samninga við Ísrael, við höfum stjórnmálasamband við Ísrael og við höfum rödd á alþjóðavettvangi. Ég tel að við þessar aðstæður beri okkur a.m.k. skylda til þess að ræða þann möguleika hvort það sé hugsanlegt að sú staða sé nú komin upp að við eigum að beita þeim fælingarmætti í samráði við önnur ríki Norðurlanda sem felst í því að hóta slitum á stjórnmálasambandi.

Sömuleiðis fagna ég þeirri yfirlýsingu hæstv. utanrrh. að hann útilokar í reynd ekki að beita einhvers konar efnahagslegum aðgerðum. Hæstv. ráðherra sagði að það væri skoðun hans og Norðurlandaþjóða að það dygði ekki vegna þess að það mundi hafa áhrif líka á stöðu Palestínumanna og velferð þeirra. Þetta þýðir að hæstv. utanrrh. útilokar ekki beitingu efnahagslegra refsiaðgerða ef það er hægt að koma þeim þannig fyrir að þær beinist einungis að Ísraelsmönnum en ekki Palestínumönnum sjálfum. Það er það sem við þurfum að kanna núna.