Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 15:14:22 (9003)

2004-05-26 15:14:22# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, KJúl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Katrín Júlíusdóttir (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aðeins nefna að þegar lögin voru sett fyrir einungis fjórum árum var það gert vegna þess að samkomulag var um það í samfélaginu að í eitt skipti fyrir öll ætti að grípa til alvörustjórnvaldsaðgerða til að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Þá á ég við í launalegu tilliti og að teknu tilliti til stöðuveitinga o.s.frv. Um þetta var samkomulag. Fæðingarorlofslögin endurspegla þetta mjög vel, þetta hugmyndafræðilega samkomulag samfélagsins um að snúa við áratuga- og aldagamalli hefð um karlinn á vinnumarkaði og nú ætti að opna þetta fyrir alvöru fyrir konur. Þess vegna varð ég í rauninni dálítið leið þegar ég sat undir fyrri hluta ræðu hæstv. félmrh. þar sem hann talaði um að þessi breyting mundi snerta konur með sama hætti og karla. Það kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvað hann hafi fyrir sér í því að þetta muni snerta karla og konur með sama hætti vegna þess að eins og þetta blasir við mér er það staðreynd að konur eru með lægri laun en karlar í sömu stöðu og það er líka staðreynd að konur eru ekki í hálaunastörfum, ég las það upp áðan þegar ég vitnaði í minnihlutaálit hv. félmn. Þess vegna vil ég spyrja hvernig í ósköpunum hæstv. félmrh. kemst að þeirri niðurstöðu að þetta snerti konur með sama hætti og karla.