Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 15:16:16 (9004)

2004-05-26 15:16:16# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þakið á greiðslurnar sem talsvert hefur verið til umræðu er þess eðlis að ég reikna ekki með og hef ekki reiknað með að um það gæti náðst full samstaða á Alþingi. Málið er þess eðlis að það gengur þvert á línur flokka hvort við styðjum það eður ei. Eins og fram hefur komið í umræðunni var þetta m.a. til umræðu þegar lögin voru sett á sínum tíma hvort rétt væri og skynsamlegt að hafa eitthvert þak á þessum greiðslum.

Ég hef hins vegar metið það þannig og sá starfshópur sem vann að þessu verkefni fyrir mig og fjmrh. komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að setja þak á og það mundi að öllum líkindum ekki hafa úrslitaáhrif hvað varðar jafnréttið í landinu.

Þegar ég segi, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, að þetta ákvæði hafi sömu áhrif á karla og konur þá liggur það í hlutarins eðli. Ákvæðið tekur til kynjanna jafnt. Hins vegar er það allt satt og rétt sem fram hefur komið í máli hv. þm. að við glímum því miður við kynbundinn launamun. Við glímum því miður við mikið ójafnrétti á vinnumarkaði og það er hlutur sem við þurfum að takast á við og ég vil í því sambandi vekja athygli á og raunar lýsa ánægju minni með að í félmn. hefur tekist samstaða með meiri hluta og minni hluta um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum sem mun koma til síðari umræðu á Alþingi á næstu dögum þar sem m.a. er gert ráð fyrir að gangast eigi fyrir rannsókn á þeim áhrifum sem okkar nýja fæðingar- og foreldraorlofskerfi hefur haft á samfélagið og sömuleiðis verkefni sem varða launamun kynjanna og reyndar önnur verkefni á vinnumarkaði.