Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 15:18:15 (9005)

2004-05-26 15:18:15# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, KJúl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Katrín Júlíusdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að við séum ósammála um þetta atriði Ég verð að segja eins og er að ég er ekki tilbúin ári eftir gildistöku laga, sem átti að vera og menn flögguðu í kosningabaráttunni sem einni merkilegustu stjórnvaldsaðgerð sem hér hefði nokkurn tíma sést hvað varðar jafnréttismál, þ.e. fæðingarorlofslögin, að ári seinna séu menn tilbúnir að henda þeim fyrir róða fyrir einhverjar 50--60 milljónir. Ég verð að segja eins og er að ég er ekki tilbúin að taka þátt í því vegna þess að ég tel að mismunandi staða karla og kvenna á vinnumarkaði og leiðrétting á því eigi að vera eitt af forgangsverkefnunum. Um það var samkomulag í samfélaginu. Nú á að taka þessi lög og búa til um þau ósætti eingöngu ári eftir gildistökuna. Ég spyr: Hvenær og á hvaða forsendum skipti félmrn. svo um skoðun að á milli ráðherra er þessi mikla breyting gerð þegar, eins og ég sagði í ræðu minni, hæstv. fyrrv. félmrh., Páll Pétursson, komst að þeirri niðurstöðu að líklega mundi svona þak valda því að þeir hærra launuðu mundu síður taka fæðingarorlof og jafnréttismarkmiðum milli kynja yrði síður náð? Ég vil fá að heyra það frá hæstv. félmrh. hvað hafi breyst. Hvaða rannsóknir og félagslegar úttektir hafa verið gerðar á þessu? Vegna þess að í ræðu sinni sagði hann að því miður væri eitthvað annað sem réði því að konur fengju síður stöður heldur en karlar og fengju síður hærri laun.