Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 15:26:39 (9010)

2004-05-26 15:26:39# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, Frsm. meiri hluta GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Frsm. meiri hluta félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Umræðan í dag hefur að mínu áliti verið mjög góð og ég held að við höfum farið ágætlega yfir málið og skipst á skoðunum sem er nauðsynlegt og eðlilegt að við gerum. Ég held hins vegar að það sé rétt mat hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að í rauninni er um lítils háttar breytingar á málinu að ræða og þegar við tökum þetta allt saman held ég að það sé góð sátt um þetta stóra mál. Ég ætla þess vegna ekki að fara neitt ítarlega yfir það aftur. Ég gerði það í framsögu minni og hef tekið þátt í andsvörum en ég vil þó vegna þess að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir beindi til mín spurningum er varða þrjú atriði rétt tæpa á þeim.

Fyrst nefndi hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir viðhorf mitt til þaksins og hvort ég hefði áhyggjur af því að það mundi ekki fylgja þeirri þróun sem á sér stað á öðrum sviðum í efnahagslífinu. Ég fór yfir það í framsögu minni að ég hef ákveðnar áhyggjur af þessu þaki út frá forsendum laganna, út frá þeim tilgangi sem umrædd lög hafa og ég vildi sjá í það minnsta að það mundi halda því verðgildi sem það hefur. Og ég var ánægður að heyra yfirlýsingar hæstv. félmrh. sem eru í takt við það sem hann hefur sagt áður. Ég segi hins vegar hreint út að mér finnst þetta vera pólitísk ákvörðun sem við eigum að ræða. Það virðist vera breiður vilji innan þings og í flestum stjórnmálaflokkum. Ég vitna t.d. til minnihlutaálits nefndarinnar og svo einnig í það sem komið hefur fram hjá stórum launþegasamtökum að það virðist vera ríkur pólitískur vilji fyrir að hafa þak. Ekki er hægt að túlka það öðruvísi út frá þeim forsendum sem við höfum en ég þarf ekki endilega að vera sammála því og hef í rauninni lýst þeim skoðunum mínum að ég sé það ekki. Vegna þess að mér finnst stærsta málið í þessu öllu saman vera að sýna ábyrgð og ráðdeild á þessu sviði sem öðrum og við þurfum að skjóta styrkum stoðum undir þennan mikilvæga sjóð til að hann geti sinnt hlutverki sínu og þá eðli málsins samkvæmt þarf að gera meira en gott þykir.

Hvað varðar lífeyris- og umönnunargreiðslurnar og það sem snýr að einstæðum foreldrum þá minntist ég á það í framsögu minni áðan að það er mjög margt sem þarf að líta til. Margt kom fram í umfjöllun í nefndinni, m.a. þetta tvennt sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi, þ.e. lífeyris- og umönnunargreiðslurnar annars vegar og hins vegar þátt einstæðra foreldra sem við hljótum að skoða og fara yfir. Sumt getur kannski litið út fyrir að vera einfalt við fyrstu sýn en er það kannski ekki og vitna ég sérstaklega til þess sem varðar einstæðu foreldrana. Ef ég man rétt fór hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir yfir það, og ef það var ekki sá ágæti þingmaður þá var það annar þingmaður í umræðunni, að sú hætta er fyrir hendi að ef menn stíga það skref til fulls sé það í rauninni gegn jafnréttisanda laganna. Þetta er eitthvað sem þarf að skoða. Sama er með lífeyris- og umönnunargreiðslurnar. Það sem er alveg pottþétt hvað þau mál varðar er að þau eru flókin. Hæstv. félmrh. fór ágætlega yfir það að í gangi er vinna sem fer fram í sumar, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, og við munum þá sjá á næsta vetri niðurstöðu úr þeirri vinnu því ekki má hlaupa til í máli sem slíku og það þarf að vanda vel til þeirra verka.

Að lokum vil ég, virðulegi forseti, þakka fyrir þessa góðu umræðu og þeim sem tóku þátt í henni. Ég held að hún hafi verið góð og ég efast ekki um að við munum ræða þetta og sambærileg mál á næstunni.