Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 15:31:28 (9011)

2004-05-26 15:31:28# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Frsm. minni hluta félmn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem fram kom í máli hv. 6. þm. Reykv. n. Hann tekur undir það sem fram kom í máli hæstv. félmrh. um að bæði þak og gólf viðmiðunarfjárhæða eigi að halda raungildi sínu og miðast við að fólk í fæðingarorlofi fái 80% af tekjum sínum þannig að þær rýrni ekki eins og við óttuðumst. Hæstv. félmrh. hefur því stuðning hv. 6. þm. Reykv. n. í því efni og ég fagna því. Að vísu sé ég ekki hvernig hægt er að gera það nema með því að beita launavísitölunni og hækka fjárhæðirnar í samræmi við það en við sjáum til við fjárlagagerðina í lok þessa árs eða í desembermánuði hvernig hæstv. ráðherra ætlar að halda á því máli.

Ég vil líka nota þetta andsvar til að árétta, af því að ég gleymdi því í andsvari við hæstv. félmrh. og hann er hér til að hlýða á þetta mál og það er þá líka hvatning til hv. 6. þm. Reykv. n., að í þeirri endurskoðun sem fram á að fara á ákvæðum sem snúa að umönnunar- og lífeyrisgreiðslum, að þær verði samrýmanlegar fæðingarorlofsgreiðslum, og eins þegar skoðuð er sérstaklega staða einstæðra foreldra, þá verði haft samráð bæði við samtök einstæðra foreldra og samtök öryrkja um þá endurskoðun. Ég held að það sé afar mikilvægt að þau sjónarmið komi inn í þá skoðun sem hæstv. félmrh. hefur lofað að fram fari í sumar.