Lokafjárlög 2000

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 18:30:37 (9021)

2004-05-26 18:30:37# 130. lþ. 127.25 fundur 326. mál: #A lokafjárlög 2000# frv. 100/2004, Frsm. 1. minni hluta EMS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[18:30]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson):

Frú forseti. Ég fagna tillögunni frá meiri hluta fjárln. um breytingu á frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2000 en eins og fram kom í máli hv. þm. Magnúsar Stefánssonar var meginuppistaðan í umfjöllun okkar við 2. umr. að 3. gr. frv. væri í rauninni ekki þingtæk. En ég tel að með brtt. sé í raun fundin lausn á þeim vanda að ríkisreikningur og lokafjárlög fyrir árið 2000 stemmi ekki algerlega. Með því að vísa í athugasemdir Ríkisendurskoðunar við ríkisreikning fyrir árið 2000 ná menn að brúa þetta bil.

Það er hins vegar nauðsynlegt, frú forseti, að fram komi að vinnubrögðin sem viðhöfð hafa verið undanfarin ár hafa verið rædd nokkuð í fjárln., þ.e. að ríkisreikningur sé lagður fram fyrst og lokafjárlög mörgum mánuðum síðar. Þetta er óviðunandi vinnulag og á nefndarfundi með ríkisendurskoðanda kom fram að einbeittur vilji allra aðila er að í haust verði samhliða lagður fram ríkisreikningur fyrir árið 2003 og lokafjárlög fyrir sama ár. Þá er gert ráð fyrir því að fjallað verði á ný um lokafjárlög fyrir árið 2002 og þá náist raunverulega að loka skekkjunni sem því miður hefur komið fram í ríkisreikningi. Við náum þá endum saman og getum í haust fjallað um lokafjárlög í samræmi við ætlun fjárreiðulaga, þ.e. samhliða ríkisreikningi. Þá er fjallað um hluti sem eru ekki fjarri í tíma og þá hefur einhvern tilgang að fjalla um þá.

Frú forseti. Ég kom fyrst og fremst upp til að taka undir með hv. þm. Magnúsi Stefánssyni og staðfesta að hér er komið til móts við gagnrýni okkar við 2. umr. Ég tel að með breytingunni verði 3. gr. þingtæk og sé raunar ekkert því fyrir fyrirstöðu að þeir sem samþykkja ætla lokafjárlög fyrir árið 2000 samþykki frv.