Tónlistarsjóður

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 18:48:41 (9027)

2004-05-26 18:48:41# 130. lþ. 127.29 fundur 910. mál: #A tónlistarsjóður# frv. 76/2004, BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[18:48]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Líkt og kom fram við 1. umr., svo og inni í nefndinni, þá teljum við fulltrúar stjórnarandstöðu þetta hið ágætasta mál og ekkert nema gott um það að segja í sjálfu sér að stofnaður sé tónlistarsjóður utan um framlög sem hingað til hafa verið á ýmsum safnliðum. Fram kemur að markmiðið sé að styðja tónlistarsköpun og stuðla að kynningu og markaðssetningu íslenskrar tónlistar.

Um markmið sjóðsins voru að sjálfsögðu engar deilur. Allir vilja standa við bakið á íslenskri menningu, íslenskri músík í þessu tilfelli, og stuðla að því með öllum tiltækum ráðum að vegur tónlistarinnar megi vera sem mestur. Á næstu árum fáum við að sjá útrás íslenskrar tónlistar bæði innan landsteina og utan. Við 1. umr. vísuðu menn til margra nokkuð stórbrotinna dæma um árangurinn sem íslenskir tónlistarmenn hafa náð á erlendum vettvangi á síðustu árum. Þar nægir að nefna listamenn eins og Björk, Sigurrós, Sykurmolana o.fl. og eins fólk úr hinum klassíska geira. Það sem hér er lagt til er í sjálfu sér ágætt. Í umsögn um frv. frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. er innihaldi þess lýst svona, með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðuneytið hefur um árabil veitt styrki til tónlistarstarfsemi af ýmsum safnliðum sem undir ráðuneytið heyra. Samtals eru um 20--30 millj. kr. til ráðstöfunar til slíkra verkefna í fjárlögum fyrir árið 2004. Gert er ráð fyrir að það fé renni til hins nýja sjóðs og menntamálaráðherra veiti framvegis úr sjóðnum að fengnum tillögum tónlistarráðs. Þar sem framlög til tónlistarsjóðs ráðast af framlögum í fjárlögum hverju sinni verður ekki séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs nema Alþingi ákveði annað.``

Auðvitað bindum við vonir við að miklu myndarlegar verði staðið að framlögum til sjóðsins en framlögum til tónlistarinnar nú. Það sem við gerðum ágreining um strax við 1. umr. var skipan tónlistarráðsins. Eins og fram kom í máli flutningsmanns, hv. þm. Gunnars Birgissonar, gerðum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar fyrirvara sem lýtur að skipan tónlistarráðs og áskildum okkur rétt til að flytja brtt. um málið sem við höfum nú lagt fram. Hún er við 2. gr. frv. en í frv. hljóðar greinin svo, með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðherra skipar tónlistarráð til þriggja ára í senn. Í ráðinu skulu eiga sæti þrír fulltrúar. Samtónn tilnefnir einn, en tveir eru skipaðir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður ráðsins. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalfulltrúa í tónlistarráð meira en tvö starfstímabil í röð.``

Við gerðum mikinn ágreining um þetta bæði við 1. umr. og í nefndinni þar sem við bentum á að mjög óeðlilegt væri að ráðherra menntamála skipaði tvo fulltrúa af þessum þremur, þar á meðal formanninn, og lögðum til að leitað yrði leiða til að aðrir skipuðu tvo fulltrúa, t.d. Samtónn. Ráðherra skipaði þá einn á móti, sem yrði formaður, en ekki tvo af þremur fulltrúum. Við töldum slíkt óþolandi afskipti af hálfu ráðuneytisins og málinu miklu betur fyrir komið hjá stéttinni sjálfri.

Margir sem fyrir nefndina komu tóku undir það að miklu heppilegra væri að fleiri en færri fulltrúar í tónlistarráði kæmu beint frá tónlistarmönnum sjálfum. Við ræddum þetta margoft í nefndinni og fram komu aðrar tillögur eins og að fjölga fulltrúum í ráðinu úr þremur í fimm en þá var gert ráð fyrir að ráðherra skipaði þrjá. Okkur þótti það engu breyta og töldum alveg eins gott að hafa þrjá í ráðinu ef ætlunin væri að ráðherra skipaði meiri hlutann. Það þykir okkur sem rituðum undir nál. með fyrirvara mjög óeðlilegt og flytjum því brtt. um að Samtónn skuli skipa tvo fulltrúa í tónlistarráðið og menntmrh. einn. Það teljum við miklu eðlilegri og heppilegri tilhögun mála en að ráðherra skipi pólitíska pótintáta sína í meiri hluta slíkrar sjóðstjórnar. Hún á að vera sem óháðust pólitísku yfirvaldi hverju sinni. Allir hagsmunir tónlistarsjóðs og tónlistarmanna lúta að því að sett sé fé í mikilvægustu verkefnin hverju sinni og pólitískir gæðingar Sjálfstfl. eru örugglega ekki best til þess fallnir að vita hvernig vindarnir blása hverju sinni á tónlistarmarkaðnum. Þorsti Sjálfstfl. að troða gæðingum sínum í allar stjórnir og ráð er óslökkvandi eins og frægt er. Í svari við nýlegri fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkisins kemur fram með hvílíkum ólíkindum er staðið að hlutunum. Við vildum aflétta þessu og lögðum því að sjálfsögðu til að Samtónn skipaði tvo fulltrúa en menntmrh. aðeins einn. En það er svo inngróið í sálu og karakter Sjálfstfl. að skipa gæðingum sínum á sem flesta stallana og þá feitustu að það mátti alls ekki hreyfa við þessu. Það var sama með hvaða rökum við ræddum málið við ráðuneytismanninn eða fulltrúa meiri hlutans í menntmn. Þessu varð ekki haggað. Því ritum við undir nál. með fyrirvara.

Við styðjum að sjálfsögðu heils hugar stofnun tónlistarsjóðsins sem er hið besta mál en það er mjög óeðlilegt að ráðherra skuli ganga þannig fram að hann verði að eiga meiri hlutann í tónlistarráðinu. Við lögðum okkar af mörkum til að slökkva þorsta Sjálfstfl. til að troða liði sínu alls staðar þar sem því verður við komið og lögðum því til að Samtónn skipaði tvo fulltrúa en ekki þrjá. En þorstinn verður ekki slökktur á þessu þingi, það er ljóst, þannig að við stöndum að brtt. okkar og vonum að sjálfsögðu að nefndarmenn og aðrir hv. alþingismenn sjái að sér og þessu verði breytt þannig að Samtónn eigi tvo fulltrúa á móti einum frá ráðherranum.