Tónlistarsjóður

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 20:16:21 (9033)

2004-05-26 20:16:21# 130. lþ. 127.29 fundur 910. mál: #A tónlistarsjóður# frv. 76/2004, MÁ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[20:16]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég kem upp til að fagna því skrefi sem stigið er með þessu frv. og væntanlegri samþykkt þess og taka undir með félögum mínum í menntmn., hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Björgvini Guðna Sigurðssyni frá Skarði. Þess ber að minnast að þótt frv. sé lítið og ekki afar burðugt er það þó árangur margra ára baráttu tónlistarmanna og áhugamanna um tónlist. Það má kalla áfangasigur og ekki þarf að rekja vopnaviðskiptin í sjálfu sér þótt e.t.v. væri ástæða til.

Það er rétt hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að auk þess sem frv. er kannski ekki afar burðugt virðist það stangast svolítið á við sjálft sig. Við skulum vona að það séu barnasjúkdómar og hæstv. menntmrh. og þeim sem koma að málinu, einkum tónlistarmönnum, takist að koma barninu á legg. Það er ljóst að hetjuskapur hæstv. menntmrh. og þingmeirihlutans sem að baki honum stendur er því miður ekki meiri en svo að í fyrstu á aðeins að koma til það fé sem nú fer á safnliði. Í umsögn um frv. frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. er féð metið 20--30 millj. kr. sem er sérkennilega ónákvæm tala af þeirri skrifstofu að vera og hvort sem þetta eru 20 millj. kr. eða 30 eru þessir safnliðir, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir benti á, auðvitað ekki í þráðbeinu samræmi við ætlan flutningsmanns og ætlan frv. um skiptingu sjóðsins. Þar koma fram markmiðin sem honum eru í raun og veru sett.

Um þetta fer auðvitað eftir sjóðstjórninni og ráðherra og síðan þeim alþingismönnum sem véla um fjárlög. Það er auðvitað alveg ljóst, og það var rætt inni í nefndinni, að nefndin leggur áherslu á að fljótlega og helst strax verði fjármagn aukið til sjóðsins. Formaður nefndarinnar gleymdi að geta þess en ég bjóst við að hann mundi nefna þetta í máli sínu. Í raun og veru er lítið unnið við stofnun sjóðsins ef svo verður ekki.

Barátta tónlistarmanna hefur ekki síst beinst að markaðs- og kynningarþættinum sem á að vera önnur deildin í sjóðnum. Það er alveg ljóst að ef fara á í eitthvert markaðs- og kynningarstarf sem á að standa undir nafni hérlendis, svo ég tali ekki um erlendis, þá eru 20--30 millj. kr. eins og dropi í hafið. Þetta vil ég að komi fram auk þess sem sagt hefur verið áður hér í stólnum.

Ég vil líka segja að í frv. er sérstakt ákvæði um tónlistina sem til greina kemur að styrkt sé eða studd. Sem betur fer eru þar rúm ákvæði um að skilgreina skuli tiltölulega rúmt tónlistina sem studd er hvað þjóðerni varðar. Flutningur, framleiðsla eða samning, eitthvað af þessu skal vera íslenskt. Ég vil taka það fram í framhaldi af umræðum innan nefndarinnar að ég lít svo á, og ég held að það geri margir í menntmn., að hér komi í raun og veru enn rýmri skilningur til greina. Tónlistin er tungumál sem allur heimurinn talar og þjóðerni skiptir þar óvenju litlu máli miðað við aðrar menningargreinar. Á Íslandi hefur það verið svo að tónlistin hefur að óvenjumiklu leyti, bæði að fornu en þó einkum að nýju, verið borin uppi af útlendingum sem hingað hafa komið, fengið hér formlegan ríkisborgararétt eða kannski menningarlegan ríkisborgararétt. Enn starfar mjög margt útlendinga við tónlist á Íslandi og svo verður vonandi áfram. Ég lít þannig á að þegar kemur að úthlutunum úr sjóðnum jafngildi búseta á Íslandi og þátttaka í íslensku tónlistarlífi hinum formlega ríkisborgararétti sem á öðrum stöðum er skilyrði þess að menn fái slíka styrki eða stuðning.

Hér má auðvitað nefna mörg dæmi. Ég get nefnt eitt af handahófi, það væri ákaflega furðulegt ef svona sjóður væri settur upp og Eivør Pálsdóttir sækti um stuðning úr honum en fengi ekki vegna þess að hún er að forminu til með færeysk-danskan ríkisborgararétt. Hún er handhafi íslenskra tónlistarverðlauna og mikilvægur partur af íslensku tónlistarlífi eins og er, hvað sem síðar verður. Ég spái henni reyndar alþjóðlegum frama. Fleiri dæmi mætti nefna úr nútíð og fortíð. Þetta vil ég gjarnan að komi fram.

Í þriðja lagi tek ég undir orð fyrri ræðumanna um stjórn sjóðsins. Það er sérkennilegt að engin rök skuli hafa verið færð fyrir því hvers vegna haga á málum með þessum hætti, hvorki í máli menntmrh. við 1. umr., hjá meiri hlutanum í menntmn., né hjá þeim sem kvaddir voru til að tala fyrir málinu af hálfu flytjanda þess, þótt hin beina og augljósa hliðstæða sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir rakti áðan mæli gegn þessu fyrirkomulagi. Það er sérkennilegt að ráðherra skuli vilja hafa tvo menn af þremur við að stjórna úthlutun úr slíkum sjóði, sérstaklega vegna þess að tekið er fram í lögunum að hann eigi sjálfur lokaorðið sem er auðvitað eðlilegt. Þetta virðist vera einhver hneigð hjá núv. ríkisstjórn og núv. menntmrh. Nefna má það dæmi að dómnefndum í Háskóla Íslands var breytt á þessu þingi með þeim hætti að menntmrh. á ekki einungis áfram einn af þremur fulltrúum heldur getur sú staða komið upp að sami fulltrúi menntmrh. fjalli um stöðuveitingar á heilu fræðasviði og jafnvel um allan skólann. Út af fyrir sig hefur hæstv. menntmrh. heimild til þess, eftir að hann kom þessu frv. í gegnum þingið, að hafa mann á launum við að meta menn inn í stöður í háskólanum, væntanlega sjálfstæðismenn.

Fleiri dæmi mætti nefna um þetta. Í umhvrn. er um það sama að ræða. Þar er ýmist verið að afnema stjórnir sem ráðherra þykja að einhverju leyti óþægilegar eða hæstv. umhvrh. er að fleygja mönnum út úr stjórnum, t.d. formanni stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, og setur þar inn embættismann sem vænta má að geri ekki mikið annað en það sem ráðherra segir honum að gera.

Hvað er athugavert við þetta? Það er auðvitað að vissu leyti gott að ráðherrar hafi beina stjórn og beri þá líka beina ábyrgð á sínum málum en það verður að vera þannig að þegar faglegar ákvarðanir eru teknar, þá geri það fagmenn. Það er eðlilegt að stjórnmálamenn taki hinar pólitísku ákvarðanir. Ef menn fallast á þetta verða þeir líka að skýra það hvort það er pólitísk ákvörðun eða fagleg ákvörðun að veita tónlistarmönnum styrk úr tónlistarsjóðnum eða ekki. Ég álít að sú ákvörðun sé fagleg, það sé pólitísk ákvörðun hve mikið fé fer í sjóðinn, hvernig reglur eru settar um hann og hvort hann á að vera til eða ekki en það sé fagleg ákvörðun hverjir fá styrk úr slíkum sjóði. Til þeirra faglegu ákvarðana setjum við fagmenn en ekki pólitíska fulltrúa, hvorki tvo sjálfstæðismenn, vini hæstv. menntmrh., né fulltrúa annars vegar Sjálfstfl. og hins vegar Framsfl. Ég vil gjarnan fá rökstuðning fyrir þessu frá formanni menntmn., hv. þm. Gunnari Birgissyni, eða varaformanninum, fulltrúa Framsfl. í nefndinni, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur. Er það pólitísk ákvörðun að veita styrk úr þessum sjóði eða er það fagleg ákvörðun? Ég tel að mikilvægt sé að greina þarna á milli og harma það að engin rök skuli hafa komið fram um skipan sjóðstjórnarinnar nema þau sem reynt er að færa fram um að þetta sé vilji menntmrh. og eftir honum hljóti að vera farið.

Ég vil að lokum ítreka það sem ég sagði í upphafi. Ég held að ef vel er á haldið geti sjóðurinn vaxið og dafnað og orðið okkur Íslendingum og menningu okkar ákaflega mikilvægur en þá verðum við að standa saman um hann. Við verðum að búa svo um hnútana að ákvarðanir sjóðstjórnarinnar séu hafnar yfir allan vafa, að fé komi inn í sjóðinn til þeirra hluta sem honum eru ætlaðir og að víðsýni sé ráðandi og framfarahugur við úthlutanir úr sjóðnum.