Réttarstaða íslenskrar tungu

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 20:34:50 (9036)

2004-05-26 20:34:50# 130. lþ. 127.30 fundur 387. mál: #A réttarstaða íslenskrar tungu# þál., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[20:34]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég fagna mjög úrslitum þessa máls og tel að þótt auðvitað hafi tillagan verið borin fram til samþykktar sé mikilvægur sigur að henni skuli verða vísað til ríkisstjórnarinnar og tel það eins konar jafngildi samþykktar eins og hagað er þinghaldi okkar og mál eru í pottinn búin.

Sem manni sem er að skoða hefðir á þinginu og gang mála, jafnframt því að taka þátt í starfinu, eins og er um nokkuð marga nýliða, sýnist mér að vísun til ríkisstjórnarinnar geti verið tvenns konar. Annars vegar sé hún einhvers konar redding, eins og það mundi heita á venjulegri íslensku, á máli sem er í vandræðum. Þá sé einkum um að ræða mál sem hafa verið margrædd og þvæld og menn koma sér kannski ekki saman um en vilja þó afgreiða. Þá er vísun til ríkisstjórnar kannski ekki endilega jákvæð afgreiðsla. En í málum sem eru ný af nálinni og þar sem vakin er athygli á framfaramáli eða þörfu viðfangsefni, þegar komið er fram með nýja hugmynd, þá sé það jákvæð afgreiðsla að því sé vísað til ríkisstjórnarinnar og gert ráð fyrir því að viðkomandi ráðherra eða ráðherrar leggist yfir málið og komi því nokkuð á veg. Ég hygg að þetta mál sé í síðari flokknum og fagna mjög nefndarálitinu sem hv. þm. og frsm. menntmn. í þessu máli, Dagný Jónsdóttir, flutti áðan skörulega.

Ég held að þetta mál, sem ég skal ekki hafa mörg orð um í viðbót, sé til eflingar og styrktar íslenskri tungu. Ég held að það sé gott fyrir okkur á þessum tímum í upphafi aldarinnar að gera okkur grein fyrir stöðu alþjóðatungumála í samfélagi okkar og löggjöf. Ég tel að tungumál nýbúa og málefni þeirra geti komið nokkuð við sögu, þau eru sífellt brýnna mál á borðum okkar stjórnmálamanna og í stjórnsýslunni og ég tel að þó í litlu sé komi þessi afgreiðsla til móts við kröfur sem við höfum heyrt fluttar með áhrifamiklum hætti á þinginu í vetur af hálfu heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra um viðurkenningu á táknmáli sínu sem móðurmáli. Það er á sinn hátt jafnstætt móðurmáli okkar hinna sem heyrum og tölum, þ.e. íslenskunni.

Ég vil þakka nefndarmönnum í menntmn., sérstaklega formanni hennar, hv. þm. Gunnari Birgissyni, og varaformanni, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, fyrir starfið að þessu máli og ég þakka líka öllum sem að því komu, umsegjendum og hvatningarmönnum, og ekki síst meðflutningsmönnum mínum úr öllum flokkum, hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, Hjálmari Árnasyni, Kolbrúnu Halldórsdóttur og Sigurjóni Þórðarsyni. Ég vænti þess að ráðherrarnir sem við sögu koma, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og síðar væntanlega Halldór Ásgrímsson og hæstv. menntmrh. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir taki þetta mál til athugunar og geti helst skýrt okkur frá því á næsta þingi hvernig þeir hyggjast koma því enn lengra á veg.