Réttarstaða íslenskrar tungu

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 20:48:17 (9039)

2004-05-26 20:48:17# 130. lþ. 127.30 fundur 387. mál: #A réttarstaða íslenskrar tungu# þál., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[20:48]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla að taka upp þann sið að þakka fyrir afgreiðslu málsins en verð að segja eins og fleiri að ég átta mig ekki alveg á því hvað það þýðir að vísa máli til ríkisstjórnarinnar. Ég spurðist fyrir um þetta á fundi um daginn í tengslum við rjúpnamálið og hvort það þýddi að leyfðar yrðu rjúpnaveiðar á næsta ári. Svo skemmtilega vill til að formaður umhvn. á eftir að sitja í stóli umhvrh. en það varð fátt um svör.

Eftir þessi fátæklegu svör formanns umhvn. átta ég mig enn síður á því hvað þessi afgreiðsla þýðir í rauninni þannig að það væri mjög ljúft ef einhver sem hefur lengri þingreynslu, eins og formaður umhvn., hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, greindi okkur sem höfum minni reynslu af þingstörfum frá því hvað þetta þýðir og færi yfir það hvað þetta þýðir fyrir þetta góða mál sem ég er meðflutningsmaður að.

Ég man eftir annarri þáltill. sem var vísað til ríkisstjórnarinnar. Það var ágæt tillaga hv. þm. Hjálmars Árnasonar um að kanna eða gera úttekt á því hvort færeyska fiskveiðistjórnarkerfið hentaði Íslendingum. (Gripið fram í.) Verðum við ekki að fá botn í þetta? Ég held að það sé tímabært að ræða þetta og það sé einmitt fagnaðarefni að klár niðurstaða fáist í það hvað vísunin þýðir. Sú tillaga gufaði upp og segja má að hv. þm. Hjálmar Árnason hafi snúið algerlega við blaðinu án þess að fengist hafi botn í málið eða gerð hafi verið ein einasta tilraun til að kanna þetta ágæta sóknarkerfi. Það væri líka fróðlegt að fá að heyra hvað varð um tillögur hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur. Hvernig stóð á því að þær fengu ekki svipaða afgreiðslu? Ég tel að það hefði verið mjög mikils virði fyrir hið háa Alþingi að afgreiða þau mál, það hefði verið ákveðin upphefð fyrir störf þingsins að fara vel og rækilega yfir táknmálið og textunina og þær þáltill.

En hvað varðar þetta mál sérstaklega vil ég nefna að það er rík þörf á að fara sérstaklega vel yfir réttarstöðu íslenskunnar. Ég fann kirfilega fyrir því sl. haust þegar ég óskaði eftir því að fá ræðu úr stjórnkerfinu þýdda yfir á íslensku, ræðu sem flutt var á erlendri grundu. Það var ótrúlega erfitt. Ég leitaði hvað eftir annað eftir því að fá ákveðna ræðu þýdda vegna þess að ég vildi skilja án þess að nokkuð færi á milli mála hvað væri sagt í nafni þjóðarinnar í útlöndum. Mér finnst gott að rifja upp þegar þessu máli er vísað til ríkisstjórnarinnar að það er virkileg þörf á þessu.

Eins væri mjög fróðlegt að fá að heyra það hér frá hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur hvað varð um tillögur hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur og hvernig afgreiðsla þeirra varð. Ég spyr vegna þess að ég sit ekki í menntmn. og þess vegna væri fróðlegt að fá að heyra af afgreiðslunni.