Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 21:47:12 (9050)

2004-05-26 21:47:12# 130. lþ. 127.34 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv. 97/2004, DJ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[21:47]

Dagný Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég lýsi yfir sérstakri ánægju með niðurstöðu málsins. Við erum að rýmka verndunarákvæði og gera sveitarfélaginu kleift að sitja við sama borð varðandi skipulagsmál og önnur sveitarfélög í landinu. Á nefndarfundi kom fram hjá fulltrúum sveitarstjórna á svæðinu að gert sé ráð fyrir að svæðin sem á að friða fari í friðlýsingarferli lögum samkvæmt og einnig kom fram að ef fara á í framkvæmdir á svæðinu sem ekki liggja fyrir upplýsingar um í skipulagi fari um þær samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og eftir atvikum lögum um mat á umhverfisáhrifum. Umhvn. leggur áherslu á að ekki verði farið í framkvæmdir á svæðum sem listinn í bráðabirgðaákvæðinu nær til nema í fullu samráði við umhvrn.

Ég vil einnig fagna lendingunni varðandi bráðabirgðaákvæði III en fram kom sameiginleg ósk frá Landsvirkjun og Landeigendafélagi Laxár og Mývatns um að fella það brott. Nefndin varð að sjálfsögðu við því enda ljóst að mikið hafði gengið á til að ná þessari sameiginlegu kröfu. Við erum mjög meðvituð um umræðuna sem varð þegar frv. var fyrst lagt fram. Ég sagði einmitt við 1. umr. að sagan væri sterk og held að það hafi einmitt sannast í umræðunni og í niðurstöðunni sem náðist.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri en vil að lokum þakka einstaklega góð störf í umhvn. Það er gott að finna þann einhug sem hefur ríkt um málið og ég ítreka ósk nefndarinnar um að farsæl niðurstaða fáist í málinu varðandi hækkun stíflunnar við Laxárvirkjun.