Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 21:49:27 (9051)

2004-05-26 21:49:27# 130. lþ. 127.34 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv. 97/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[21:49]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég kem hér sömuleiðis til að fagna brtt. umhvn. um að hið margumrædda og vægast sagt umdeilda ákvæði til bráðabirgða III falli brott. Ég gerði það nokkuð að umtalsefni við 1. umr., andmælti því mjög harðlega og varaði sterklega við því að lögtekin yrði heimild af þessu tagi, opinn víxill til 10 ára eða svo, til að viðhalda þrýstingi á heimamenn, landeigendur, um að láta undan og fallast á umtalsverða stífluhækkun neðst í Laxárgljúfrum við Brúar. Það hefði að þó nokkrum hluta endurvakið hin gömlu deilumál um Laxárvirkjun, Laxárdeiluna margnefndu. Ég spáði því að þetta mundi kveikja mikla elda og rífa Laxárdeiluna í raun upp á nýjan leik.

Það er allt í lagi að rifja það upp, frú forseti, að ég fékk á mig nokkuð harðar ákúrur fyrir þennan málflutning, bæði frá hv. 2. þm. Norðaust., Halldóri Blöndal, og eins bar hæstv. umhvrh. mig þungum sökum og sakaði mig um að efna til ófriðar, æsa menn upp í þessum efnum. Ýmislegt fleira var sagt sem kannski þarf ekki að tíunda.

En ætli það sé ekki þannig, frú forseti, að ég hafi reynst hafa rétt fyrir mér? Ætli niðurstaðan sé ekki sú að þetta hafi farið á nákvæmlega þá leið sem ég vissi að það færi, að það mundu kvikna miklir ófriðareldar ef menn ætluðu að halda áfram af þessari óbilgirni sem heimamönnum var sýnd? Með þessu hefði sannanlega verið raskað jafnvægi hinna fornu deiluaðila sem búið var til og var lausnargrundvöllur Laxárdeilunnar á sínum tíma. Það fól í sér að lögin tækju af skarið um réttarstöðu málsins, sem sagt að vatnsborðshækkun neðst í Laxárdal væri með beinum hætti óheimil nema breytingarnar væru í þágu verndar árinnar og fiskræktar. Hafandi sagt þetta hlýt ég að fagna því að náðst hafi farsæl lausn að þessu leyti, ég leyfi mér hiklaust að orða það þannig að skynsemin hafi sigrað í málinu. Það má þó segja um Landsvirkjun að meira að segja hún er ekki ónæm fyrir skynsemisrökum. Það er gott að vita. Auðvitað eru menn þar menn að meiri að hafa séð að sér og bjargað sér í land, klórað sig upp á bakkann og endurheimt vonandi að einhverju leyti með því trúnaðartraust heimamanna. Það var óðum að glatast og sjálfsagt er eitthvað óunnið enn í að ná því til baka en víst er að núna er þó miklu frekar opið fyrir skynsamlegar samræður manna, dyrum hefur ekki verið harðlokað og læst á eitthvert samkomulag, um einhvern frið um hlutina, úr því að mönnum tókst að sjá að sér. Ég vil leyfa mér að þakka og hrósa þeim mönnum sem lögðu það á sig á bak við tjöldin að ná þessu saman og ég tel landeigendur og forustumenn þeirra hafa sýnt mikla yfirvegun og skynsemi að láta ógæfulegt upphaf málsins ekki aftra sér frá því að leita lausna og ná samkomulagi. Þetta vil ég segja um þann þátt málsins og að sjálfsögðu bind ég við það vonir eins og aðrir að í framhaldinu geti menn í rólegheitum skoðað hvaða möguleikar eru, tæknilegir og pólitískir, til að tryggja framhald rekstrarins að svo miklu leyti sem sú verður niðurstaðan og á þann hátt að grundvöllur sé fyrir því.

Ég vil svo taka undir fyrirvarana sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði grein fyrir og eru ástæða þess að hún ritar undir nál. með fyrirvara. Það eru að sjálfsögðu vonbrigði að verndaráætlun skuli ekki vera tilbúin og helst gengin í gildi þegar svæðinu sem verndarlögin um Laxá og Mývatn taka til er breytt, það þrengt niður í vatnið og Laxá og næsta nágrenni nema hvað vatnsverndarþáttinn snertir. Á málinu er sá galli að friðun afléttist af mörgum verðmætum svæðum. Auðvitað treystir maður því að engin slys verði áður en nýjar verndarreglur taka gildi en það er líka eins gott að menn vandi sig í þeim efnum og engin mistök verði gerð.

Nú er það svo, frú forseti, að ótal sinnum á undanförnum árum, a.m.k. 15--20 síðustu árum eða frá því fljótlega eftir að lögin um verndun Laxár og Mývatns gengu í gildi, þá hefur verið hreyft hugmyndum um að þeim þyrfti að breyta eða jafnvel að þau þyrfti að afnema. Oft hefur borið að ræðumanni óskir um slíkt, t.d. frá meiri hluta sveitarstjórnar í Skútustaðahreppi. Ég hef allan tímann svarað á sama veg, að ég taki ekki þátt í því að fella lögin úr gildi eða veikja stöðu þeirra fyrr en í hendi sé það sem við taki hvað varðar áframhaldandi verndun Laxár og Mývatns og næsta nágrennis og auðvitað svæðanna sem lögin tóku til.

Nú má auðvitað segja að það hafi verið af þæginda\-ástæðum sem menn völdu þá leið á sínum tíma að láta lögin taka til Skútustaðahrepps í heild, einfaldlega vegna þess að lagasetninguna bar brátt að og mönnum fannst einfaldast að láta lögsögumörk sveitarfélagsins falla saman við verndunarsvæðið. Seinna komu fram sjónarmið um að kannski væri það ástæðulaust og setti jafnvel uppbyggingu og athafnalífi í sveitarfélaginu skorður umfram það sem ástæða væri til og þótti mönnum jafnvel hart við að búa. Það hafði sannarlega umtalsverð áhrif fyrstu árin eftir að lögin tóku gildi því að þá var verndunin mun strangari en almennt í landinu. Síðan hefur dregið mjög úr þeim mun með tilkomu strangari lagaákvæða um skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum og annað í þeim dúr sem smám saman hefur þýtt að sérákvæði laganna um verndun Laxár og Mývatns hafa farið að skipta minna máli að þessu leyti. Þó hefur alltaf staðið eftir það sem snýr að áhrifavaldi eða myndugleik þess sem í upphafi var Náttúruverndarráð og síðan Náttúruvernd ríkisins og nú loks Umhverfisstofnun. Að því leyti hafa vissulega verið nokkuð sérstakar aðstæður á svæðinu.

Það hafa svo sem lengi verið efnisleg rök fyrir því að ástæða gæti verið til að taka fyrirkomulagið til endurskoðunar en það hefur allan tímann verið jafnljóst að miklu máli skipti að menn vönduðu þá breytingu. Í sjálfu sér er málið hér nokkuð vel úr garði gert í aðalatriðum, nokkuð vel um það búið að lagaskilunum slepptum eða þeim skavanka að verndaráætlanir skuli ekki liggja fyrir og gildistaka þeirra haldist ekki í hönd við breytingu á verndarlögunum sjálfum.

Ég vil svo nefna í lokin að í lögunum er auðvitað merk stofnun undir, þ.e. Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn. Hún hefur gegnt geysilega mikilvægu hlutverki og gerir enn og í mínum huga er enginn vafi á að full þörf er á að efla hana verulega, þótt fyrr hefði verið. Það hefur auðvitað verið bágt hvað hún hefur búið við nauman kost allan tímann. Miðað við upphafið hefði verið eðlilegra að hún hefði eflst með árunum og orðið öflug rannsóknarstofnun með nokkrum starfsmönnum undir fullum seglum. Áhuginn á Mývatni er mikill. Erlendir vísindamenn streyma þangað og væru ugglaust fleiri ef betur hefði verið að því staðið af okkar hálfu að bjóða þeim aðstöðu og laða þá til samstarfs. Mývatnssveit er einhver helsta gersemi íslenskrar náttúru og íslensks lífríkis og einn frægasti staður á Íslandi, sá sem lengst af hefur haft vinninginn, og hefur enn að ég held, hvað varðar það að laða að gesti, ferðamenn, er oftast nefndur af öllum íslenskum stöðum, ef ég veit rétt, sem tilefni Íslandsheimsóknar eða sá staður sem menn vilja ná að heimsækja komi þeir til Íslands á annað borð. Þótt ekkert af þessu væri til staðar heldur bara þær skyldur okkar að rannsaka og skilja náttúruna á þessum slóðum og vera í stakk búin að vernda hana, þá hefðum við auðvitað þurft að standa myndarlegar að verki.

Með þessum lagabreytingum er auðvitað komin viðbótarástæða til þess að gera betur og stórefla stofnunina, jafnvel færa nokkuð út verksvið hennar. Það er auðvitað alveg rakið að Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn fái víðtækara verksvið. Í því sambandi vil ég nefna nýframkomnar tillögur um stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis norðan Vatnajökuls sem hæstv. umhvrh. kynnti á blaðamannafundi á mánudaginn og fela í sér metnaðarfullar hugmyndir um að stofna stærsta og ugglaust merkasta þjóðgarð Evrópu með Vatnajökul innan borðs og jafnvel frá strönd til strandar, frá Skeiðarársandi og Lóni og norður um Vatnajökul, niður með Jökulsá á Fjöllum að meðtöldu vatnasviði hennar til sjávar í Öxarfirði.

Stærsta spildan í þessum mikla þjóðgarði á að vera Ódáðahraun, nánast í heild sinni, með öllum þeim stórmerkilegu náttúrufyrirbærum sem þar er að finna og sérstaklega eldfjöllum og ýmsum eldfjallatengdum fyrirbærum sem eru einstök á jörðinni. Ekkert annað svæði í heiminum skartar svo vitað sé öllum þeim fjölbreytileik og öllum þeim gersemum sem þetta svæði hefur upp á að bjóða, Vatnajökull frá Gríms\-vötnum með Kverkfjöllum, Bárðarbungu og Dyngjujökli, og síðan Jökulsá á Fjöllum til sjávar og Ódáðahraun með öllum sínum tröllvöxnu dyngjum, móbergsstöpum, gígaröðum og öðru. Bæði hvað varðar jarðfræði, landmótun og jarðsögu er svæðið einstakt í sinni röð í heiminum að fjölbreytileik og tilvalin verkefni væru fyrir öfluga náttúruverndar- og náttúrurannsóknastöð í Mývatnssveit að sinna upplandinu, eldfjallasvæðinu, auðnunum og hinum ósnortnu víðernum upp af Mývatnssveit og allt suður fyrir vatnaskil. Þar er komin gild viðbótarástæða til að auka verulega fjárveitingar og uppbyggingu á þessu sviði, enda gert ráð fyrir að Mývatnssveit verði ein af lykilmiðstöðvum þjónustu og upplýsinga fyrir tilvonandi þjóðgarð eða verndarsvæði norðan Vatnajökuls sem ég trúi að verði stofnað þótt það komi auðvitað til með að taka einhver ár.

Það ber svo vel í veiði að þarna liggja fyrir tillögur. Þarna eru möguleikarnir, þarna er strax hægt að hefjast handa og öll sú uppbygging mun síðan gagnast og nýtast þegar að stofnun þjóðgarðsins kemur, t.d. þegar hafinn verður undirbúningur að því að svæðismiðstöð rísi í Mývatnssveit og náttúrurannsóknir efldar. Sama má segja um uppbygginguna niðri í Jökulsárgljúfrum og auðvitað víðar á svæðinu.

Ég leyfi mér að taka þetta inn í myndina og fagna um leið þessari skýrslu og nefndarniðurstöðu sem hæstv. umhvrh. var að kynna. Þótt mér sé málið skylt sem einum af nefndarmönnum leyfi ég mér að nota tækifærið í þessari umræðu enda ekki víst að það gefist önnur betri áður en þingið lýkur störfum í vor. Það hefði auðvitað verið gaman að fá að heyra eitthvað frá hæstv. umhvrh. um málið í framhjáhlaupi en kannski gefast tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um þetta einhvern tíma á næstu klukkutímum eða sólarhringum áður en við ljúkum störfum.