Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 22:23:41 (9058)

2004-05-26 22:23:41# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[22:23]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Frú forseti. Í umræðum um sjávarútvegsmál hefur komið fram hjá hv. stjórnarliðum að þeir hafi áhyggjur af nýliðun í sjávarútvegi. Það vill svo til að ef ungur maður ætlar að fara inn í sjávarútveginn, þá hefur sóknardagakerfið verið einna vænlegast. Það hefur kostað ungan sjómann um það bil 30--35 millj. kr. að komast yfir dagabát og markmiðið er þá að veiða um 70--80 tonn af þorski til þess að hafa tekjur á móti þeirri fjárfestingu.

Nú vill svo til að eftir þessar breytingar munu 70--80 tonn kosta viðkomandi 60--70 millj. kr. en þau kosta 30--35 millj. kr. nú. Telur hv. þm. þetta vera vænlega leið til að efla nýliðun í íslenskum sjávarútvegi?