Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 22:25:27 (9060)

2004-05-26 22:25:27# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[22:25]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Frú forseti. Þetta er að sjálfsögðu firra sem kemur fram í máli hv. þm. Það vill svo til að sá sem hér stendur hefur stundað útgerð sjálfur og það eru ekki mörg ár síðan hann fór á fund bankastjóra og óskaði eftir því að fá lán til kaupa á aflaheimildum í kvótakerfi litla kerfisins. Honum var neitað, þeim sem hér stendur, um lán til að komast inn í kerfið þannig að ég þekki það af eigin reynslu að hér fer hv. þm. með fleipur.

Það er annað sem ég vil spyrja hv. þm. um. Er það vilji hans til frambúðar, eftir að þessi ólög komast á, að stefna þessum tveimur kerfum sem eftir verða í sjávarútvegi inn í eitt? Er það vilji hv. þm. að sameina þau tvö kerfi sem eftir verða? Nú bið ég hann um að víkjast ekki undan spurningu minni heldur svara henni af einlægni og trúfestu. Hann hefur áður vikið sér undan spurningum mínum þegar ég hef komið til andsvara um þessi sömu mál. Nú bið ég hv. þm. um að sýna mér þá virðingu að svara spurningu minni. Er það vilji hans til frambúðar að stefna þessum tveimur kerfum inn í eitt?