Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 23:00:23 (9073)

2004-05-26 23:00:23# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[23:00]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Kjarni málsins í þessu sambandi er sá að stjórnarandstaðan treystir sér ekki til að koma fram með tillögu um sóknardagakerfi með gólfi í 23 dögum. Ég hef sannfærst um að það væri enginn þingmeirihluti fyrir því takmarki sem við höfum margir stefnt að. Þessi tillaga stjórnarandstöðunnar staðfestir það mat mitt að það er ekki þingmeirihluti fyrir því að ná fram sóknardagakerfi með gólfi í 23 dögum. Þessi tillaga er með þaki í 22 dögum vegna þess að dögunum mun aldrei fjölga. Sóknarmáttur þessa dagaflota er í dag það miklu meiri en fyrir tveimur árum að flotinn mun óhjákvæmilega veiða töluvert meira en þessi 11 þús. tonn. Það verður aldrei öðruvísi en svo að dögum fækki. Það vita hv. þm. Þeir verða að meðaltali á bilinu 15--16 þegar fram í sækir, a.m.k. spái ég því miðað við þessa útfærslu.

Þetta staðfestir þá stöðu sem menn eru í og þeir leggja fram tillögur sem eiga að hafa það að markmiði að tryggja að heildarafli fari ekki yfir tilgreind markmið. Ég tek eftir því að stjórnarandstaðan er sammála því að hafa eigi stjórnina með þeim hætti að árlegur afli fari ekki yfir tilgreind mörk. Það er ekki nema 10% munur á þeim tölum sem stjórnarandstaðan og stjórnarliðið leggur til. Munurinn á þeim hugmyndum sem uppi eru um heildarveiði er því ótrúlega lítill.