Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 23:02:20 (9074)

2004-05-26 23:02:20# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[23:02]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst þetta eins og hverjir aðrir útúrsnúningar. Það er býsna mikill munur á því að þessi floti hafi 11--12 þús. tonn til skiptanna frekar en 2.100 tonn eins og var. Ég held að hv. þm. þurfi að leita sér að skárri rökum ef hann ætlar að verja sig. Hann greiddi atkvæði gegn tillögu um 23 daga fyrir áramótin og nú erum við að leggja til að dagarnir verði 22 en að þeim geti fjölgað og fækkað, að stýrt verði eftir þeim potti sem þar er til staðar. Þetta er veiðireynsla bátanna frá árinu 2002--2003. Það var eitt besta veiðiár þessara báta í sögunni.

Ég er sammála því að það er ekki pólitískur möguleiki á því eins og er að ná botni í dagakerfið nema með gólfi í veiðina. Hvernig ætla menn að stýra í sóknarkerfi öðruvísi en láta dagana breytast eftir veiðinni? Við höfum tekið þann kost að láta dagana breytast miðað við fimm ára meðaltal þannig að sveiflurnar verði jafnaðar út, sem er miklu skynsamlegra en gera það sem hæstv. ráðherra lagði til í sínu frumvarpi. Þar áttu dagarnir að gufa upp á einu ári, enda var gert ráð fyrir því að öll veiðireynsla sem einhverju máli skipti færi út. Kerfið hefði auðvitað gersamlega þurrkast út á auga lifandi bragði, það hefði enginn þolað við í því.

Ég verð að segja eins og er að það verður gaman að hlusta á hv. þm. útskýra hringsnúninga sína í þessu máli. Hvernig ætlar hann að útskýra það fyrir þeim sem sóttu fundina, hlustuðu á hann og trúðu því að hann ætlaði sér að sjá til þess að dagakerfið yrði áfram til heilla fyrir byggðarlögin á Vestfjörðum?