Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 23:08:24 (9078)

2004-05-26 23:08:24# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[23:08]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Við stjórnarandstöðuþingmenn höfum lagt fram tillögu varðandi þetta mál. Sú tillaga gengur út á að búa til eðlilegan valkost til að viðhalda sóknarkerfi smábátanna sem verið hefur við lýði á undanförnum árum. Við leggjum til í brtt. að hér verði viðhaldið sóknarkerfi. Sú tillaga sem meiri hluti nefndarinnar hefur flutt er hins vegar um að taka eingöngu upp kvótakerfi og leggja algjörlega af sóknarkerfi. Við leggjum til að því verði hafnað. Frammi fyrir þessum tveimur tillögum mun þingheimur standa og þurfa að taka afstöðu. Það kemur að því að þeir sem hér hafa lýst því yfir að þeir vildu viðhalda sóknarkerfinu og tryggja það þurfi að taka afstöðu til þess hvora tillöguna þeir styðji. Þá reynir á það hvaða meining hefur fylgt yfirlýsingum margra stjórnarþingmanna sem hafa á undanförnum vikum, missirum, mánuðum og árum, haldið því fram að akkur væri í því að viðhalda sóknarkerfi smábátanna og talið það skipta miklu máli fyrir byggðir landsins.

Málið snýst ekki eingöngu um að velja á milli sóknarkerfis og kvótakerfis. Margir hv. þm. hafa fjallað um að málið snúist líka að miklu leyti um hvaða áhrif fiskveiðistjórnin hefur, útfærsla hennar, annars vegar á nýtingu auðlindarinnar og hins vegar á lífið í landinu.

Það er ekki svo, þótt hv. þm. Hjálmar Árnason hafi látið í það skína í sjónvarpinu, að það sé bara verið að tala um hagsmuni 300 manna og þar af hóps manna sem taldi sig hafa þokkalega góða veiðireynslu og vildi fá aflamark, kvótaúthlutun og losna út úr dagakerfinu með fleiri milljónir í vasanum. Þeir fá meira út úr því að selja frá sér en þeir hafa möguleika á að afla, með því verðlagi sem verið hefur á dögum og sóknardagabátum.

Ég hygg, hæstv. forseti, að sóknardagabáturinn, eins og hann hefur verið verðlagður á undanförnum árum með þá daga sem hann hefur haft, hafi verið á bilinu 25--35 millj. kr., svolítið eftir stærð bátanna og afkastagetu. Hins vegar má vafalaust leiða líkur að því að það breytist þegar búið er að úthluta þeim kvótum sem ráð er fyrir gert í tillögum meiri hlutans, sem er bara nánari útfærsla á tillögu hæstv. sjútvrh. Tillaga hæstv. ráðherra var í raun sú að val yrði um raunhæfan möguleika á að velja kvótakerfið, kvótaúthlutunina. Valkostur sóknardaganna var eingöngu þannig útfærður að áfram var talið niður, úr 18 dögum niður í 17 og koll af kolli.

Ég tók fram í upphafi, þegar við vorum að ræða tillögur sjútvrh. og þakkaði honum fyrir, að hæstv. ráðherra tók þó á sig rögg og viðurkenndi að viðmiðun þessa flota hefði í áranna rás verið alröng, þ.e. að nota hina gömlu viðmiðun upp á 2 þús. tonn. Hann lagði til að hér yrði tekin inn ný viðmiðun og fiskveiðiárið 2002/2003 yrði þar notað sem viðmiðunargrunnur. Eins og menn vita þá gefur það 11 þús. tonna viðmiðun. Ef valkosturinn í sóknardagakerfinu hefði verið jafngildur að öðru leyti varðandi dagafjöldann hefðu menn mátt eiga von á fleiri dögum. Margir gerður sér vonir um 23 daga og Landssamband smábátaeigenda var búið að bjóða niður fyrir þá tölu. Ég hygg að þeir hafi verið komnir niður í 21 dag í hugmyndum sínum. En þá hefðu menn kannski verið að tala um svipaða eða sambærilega kosti. Viðmiðunargrunnurinn í því hefði þá verið yfir 11 þús. tonn. Það hefði verið betri niðurstaða í málinu. Ef allir hefðu valið sóknardagakerfi, í takt við ósk Landssambands smábátaeigenda til margra ára og samþykktir stjórnarfélaga þess sambands vítt og breitt í kringum landið til margra ára, hefði niðurstaðan verið sú að viðmiðun dagabátanna hefði verið rúm 11 þús. tonn. Það væri ekki lakur kostur í sóknardagakerfi að hafa þá viðmiðun.

Hvers vegna erum við þá svona mikið á móti því að fara yfir í aflamark með þetta kerfi? Hvers vegna teljum við að betra væri að viðhalda sóknardagakerfinu? Fyrir því eru mörg rök.

[23:15]

Í fyrsta lagi hefur það sýnt sig að endurnýjun hefur verið nokkur innan dagabátakerfisins á undanförnum árum. Þar hafa ungir og duglegir menn komist inn og reynt að takast á við að gera betur en þeir sem fyrir hafa verið í kerfinu og eru margir hverjir við aldur. Það hefur ekki verið jafndýrt og kaupa sig inn í dagakerfið eins og inn í kvótakerfið. Þar í liggur geysilegur munur og í því liggur auðvitað endurnýjun.

Í kerfinu felst einnig að með sóknardagakerfi smábátanna fáum við ákveðna mælingu á aflamagn á miðunum við landið, með dreifingunni á fiskimiðunum á grunnslóðinni. Við notum aðferðir eins og togararall og netarall sem hvor tveggja eru sóknartengdar útfærslur. Við reynum með því að mæla ástand þorskstofnsins. Það má halda því fram með fullum rökum að sóknardagakerfi smábátanna hafi verið sjálfvirk mæling á aflamagni á grunnslóð og dreifingu aflans við landið.

Enn einn kostur sem fylgir sóknardagakerfi er sá að afli sem kemur á króka, þar sem ekki er skammtaður tonnafjöldi, sýnir árganga í veiðinni. Sá afli sem á krókana fæst kemur að landi.

Því miður er það fylgifiskur kvótakerfanna að þar velja menn úr aflanum. Það er staðreynd að ef svo fer að þetta kerfi verður samþykkt, kvótakerfi yfir handfærabátana, þá mun aflasamsetning þeirra breytast. Það verður óvenjugóður fiskur á handfæramiðunum á næstu árum og samsetning handfæraafla verður önnur en verið hefur.

Ég spyr auðvitað, eins og ég spurði í sjútvn.: Hvernig ætlar Hafrannsóknastofnun að bregðast við því að hafa ekki lengur sóknarmælinguna, þessa árgangamælingu á grunnslóðinni? Hvaða aðferðir á að taka upp? Ég varpa þessu til hæstv. sjútvrh. Mun hæstv. sjútvrh. beita sér fyrir því að tekið verði upp sérstakt sóknarrall á grunnslóðinni? Hvernig hyggst hann útfæra það til að mæta og bæta í þann gagnagrunn sem ella hverfur með því að aflasamsetningin verður önnur og breytist?

Útgerðarmynstrið á handfærabátum mun breytast. Það liggur alveg ljóst fyrir. Þeir sem hafa minni heimildir og ekki burði til að ná sér í meira munu breyta útgerðarmynstri sínu og ekki endilega fylgja fiskigöngunum eins og verið hefur. Það hefur hins vegar verið kappsmál manna í sóknardagakerfinu að fylgja fiskigöngunum, hvort sem þær hafa verið á Breiðafirði, út af Vestfjörðum, á Húnaflóa, við Grímsey eða austur undir Langanesi. Menn róa á þeim árstímum sem fiskurinn er þéttastur og best að ná í hann, sem er auðvitað björt sumarnóttin. Það er einfaldlega þannig að menn fiska ákaflega lítið á handfæri í svartasta myrkri þótt hv. þm. Hjálmar Árnason hafi haldið því fram í sjónvarpsviðtali fyrir þjóðina að það væri mikill akkur í því að geta stundað þetta hvenær sem er á árinu. Reyndin er sú, hæstv. ráðherra, að menn fiska frekar lítið á handfæri í svartasta skammdeginu meðan myrkur er mestan hluta sólarhringsins.

Það er ein fisktegund sem veiðist ágætlega í myrkri, þ.e. smokkfiskur. Hann hefur ekki komið lengi enda er hann utan kvóta. Það væri kannski ráð að setja hann í kvóta. Þá gæti e.t.v. farið að veiðast einhver smokkfiskur, hæstv. ráðherra. Það er vandræðagangur að hafa svona tegundir utan kvóta sem geta farið að veiðast allt í einu og segja ekki ráðherranum einu sinni frá því. (LB: Munaðarlausar tegundir.)

Mig langar til að leggja aðra spurningu fyrir hæstv. ráðherra: Hefur einhvers staðar verið gefið undir fótinn með að innan skamms tíma eftir að kvótakerfið er sett á muni kerfin sameinuð, þ.e. krókaaflamarkskerfið og aflamarkskerfið? Ég verð að segja að maður verður hugsi við að hlusta á viðbrögð forustumanna LÍÚ, þegar þeir segja: Það er þó skárra að ljúka þessu svona og ætli við verðum ekki að reyna að kyngja þessu. --- Ef ég þekki forustu LÍÚ rétt þá býst ég við að á bak við þau orð séu loforð um að stórgreifarnir geti fengið að kaupa smágreifana, nákvæmlega eins og gerðist eftir 1990 þegar 10 tonna bátarnir voru kvótasettir og afli þeirra keyptur upp. Sá floti minnkaði um meira en helming á örfáum árum.

Hið sama gerist í þessu kerfi. Þeir sem telja sig vel að því komna nú að hætta, eftir að kvótasetningin kemur á, munu selja og taka peningana sína. Það er verið að hengja upp gulrót fyrir menn í þessu kerfi. Því miður tók sjútvrh. það óheillaspor að hafa ekki gulræturnar jafnstórar beggja vegna, annars vegar í kvótakerfinu og hins vegar í sóknardagakerfinu. Hann hengdi upp ofvaxna gulrót kvótamegin en kettling hinum megin. (Sjútvrh.: Er þetta ekki bara rófa?) Ég veit ekki hvort ráðherrann þekkir mun á gulrót og rófu. Ég veit að hann er vel menntaður í líffræði en mér er ekki alveg kunnugt um garðyrkjuhæfileika hæstv. ráðherra.

Ég vona að hæstv. ráðherra svari mér hreinskilnislega. Er það svo að stefnt sé að því að innan eins til tveggja ára verði kerfin sameinuð? Er það þess vegna sem forustumenn LÍÚ eru svo hógværir núna að þeir vilja kaupa sér þann frið, enda telja þeir að auðvelt verði að kaupa upp þá kalla sem fara að selja 30--50 tonn af þorski. Það var auðvelt þegar smábátaflotinn var kvótasettur á sínum tíma, fyrir hina stærri að kaupa upp þá aðila. Ég vonast til að hæstv. ráðherra, þótt hann hafi ekki verið orðinn sjávarútvegsráðherra í þá tíð, þekki þá sögu og hafi kynnt sér hana. Hvað varð um þann aflamarksflota sem þá var kvótasettur? Honum var nánast eytt.

Hæstv. ráðherra hlýtur að sjá að við erum annars vegar að setja upp valkost með brtt. okkar í stjórnarandstöðunni. Menn geta tekið afstöðu til þess hvort þeir vilji sóknardagaútfærslu sem eðlilegan valkost. Í desember felldu stjórnarþingmenn tillögu um 23 daga. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur sagt í ræðustól að hann gæti vel hugsað sér að styðja sóknarútfærslu enda hefði hún einhver slík markmið að litið yrði til takmarkandi aðgerða. Hann taldi að menn yrðu að horfa til raunveruleikans, ef ég man rétt efnistökin í ræðu hans um það.

Ég minni líka á að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði fyrir nokkru, þegar við vorum að ræða þessi mál, að að sjálfsögðu vildi hann viðhalda sóknarstýringarkerfi en þá yrði að vera til staðar takmörkun sem byggi til grunn að því að hafa nokkra stjórn á heildarveiðinni.

Það er rétt að ég þakki ráðherra aftur fyrir það, eins og ég gerði í upphafi máls míns við 1. umr., að hann hefur ákveðið að taka upp nýtt viðmið fyrir þennan flota sem gerir það miklu betra og auðveldara að útfæra kerfið. Við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til að þessir dagar verði 22 og að notuð verði sú viðmiðun sem ráðherrann stakk upp á en síðan verði notuð viðmiðun upp á fimm handfærarúllur og ákveðin takmörk sett fyrir hestaflastækkun umfram 200 hestöfl.

Ég tel að tillagan sem við leggjum nú fram --- sem er öðruvísi en brtt. sem við lögðum fram í desember --- sé þannig orðuð að þeir hv. þingmenn sem hafa sagt að þeir vildu viðhalda sóknardagakerfi geti vart sagt annað en að þau nálgist markmið þeirra, samkvæmt ræðum þeirra og yfirlýsingum. Ég þarf vonandi ekki að minna hv. þingmenn á fundinn 13. september á Ísafirði, undir yfirskriftinni Orð skulu standa. Þar sögðu þingmenn að þeir vildu viðhalda sóknarstýrikerfinu. Ég hef farið yfir þá kosti sem ég tel að sóknarstýrikerfi hafi yfir aflamarkskerfi.

Þá kem ég að hlut byggðanna og áhrifum þessa á byggðir landsins. Sóknarkerfið hefur einfaldlega stuðlað að því að menn færu eftir fiskinum þar sem hann er að fá þegar sumarnóttin er björtust. Að langmestu leyti hefur veiðin farið fram á Vestfjarða- og norðvesturmiðum hin síðari ár. Staðir eins og Bolungarvík, Suðureyri, Flateyri, Hólmavík, Drangsnes, Skagaströnd, svo að einhverjir séu nefndir á Vestfjörðum og norðvesturhluta landsins, hafa notið góðs af þessu kerfi. Það hefur verið mikil umsetning þar í löndun og þjónustu við slíka báta. Nú hagar svo til á Skagaströnd að þar hafa menn lagt niður rækjuvinnslu og stofnað til saltfiskvinnslu. Þeir hafa örugglega horft til þess að mikil útgerð hefur undanfarin ár hefur verið frá Skagaströnd á sóknardagabátum, að þar væri tækifæri til að nálgast afla yfir sumartímann á eðlilegu verði til þess að vinna í saltfiskvinnslunni. Þetta skiptir miklu máli fyrir þessa staði.

Ég nefni Norðurfjörð á Ströndum þar sem miklum handfæraafla hefur verið landað á undanförnum árum. Sá staður liggur vel við fiskimiðum fyrir handfæraveiðarnar. Það hefur haft mikil áhrif á tekjur hafnarinnar og tekjur þess fólks sem tekið hefur þátt í löndun og þjónustu við flotann og öðru slíku, þótt það sé ekki fiskvinnsla þannig að aflinn sé flakaður eða flattur. En það felst í því ákveðin fiskvinnsla að gera fiskinn hæfan til flutnings þannig að úr honum megi vinna vöru þar sem hann er tekinn til vinnslu. Fiskafli af handfærabátum hefur dreifst víða um landið og komið mörgum byggðum til góða.

Það er ljóst, hæstv. forseti, að kvótakerfi hefur ýmsa ókosti. Ég hef talið nokkra þeirra upp. Einn versti ókostur kvótakerfisins í frjálsu framsalskerfi er að menn geta ákveðið að selja eða leigja frá sér aflaheimildir. Ég er viss um að ef svo fer að menn ákveða að fara þessa leið með handfærabátana, að kvótasetja þá, verður þess ekki lengi að bíða að sjómönnum verði boðið upp á að fiska á þessum bátum fyrir þá sem eiga þá gegn því að verðið sem fæst fyrir aflann sé ekki hluti af viðmiðuninni. Þannig hefur það verið í aflamarkskerfinu, hæstv. forseti. Sjómennirnir eru leiguliðar þeirra sem aflaheimildirnar eiga.

Þegar fiskurinn er seldur á fiskmörkuðum, þorskurinn kannski á meðalverði upp á 130--140 kr. á kílóið þá er gert upp við sjómennina samkvæmt allt öðru verði. Það er allt önnur tala og þetta veit ég að hæstv. sjútvrh. veit mjög vel. Samtök sjómanna og einnig útverðarmanna hafa verið að ræða þessa stöðu við hæstv. ráðherra. Það liggur fyrir að sjómenn á skipum sem leigja til sín aflaheimildir eru því miður í allt of miklum mæli þátttakendur í að leigja til sín aflann. Þetta er mikið vandamál, hæstv. forseti, og hefur ýmsar afleiðingar, að nota kvótakerfi með framseljanlegum kvóta.

[23:30]

Áhrifin af kvótakerfinu eru mikil. Aflasamsetningin verður önnur en ella kæmi að landi í dagakerfinu. Því hefur verið reynt að mæta með aðferðum eins og t.d. þeim að landa fram hjá vigt, svokölluðum Hafró-afla. Vafalaust hefur það bætt eitthvað úr á undanförnum árum og minna verið hent. En það að velja úr aflanum er þekkt meðal sjómanna og þykir ekki lengur tiltökumál. Sjómenn kannast mjög vel við þá stöðu.

Hæstv. forseti. Mig langar til að vitna í grein eftir Einar K. Guðfinnsson alþingismann. Hún birtist í Ægi, tímariti um sjávarútveg, 2. tölublaði 2004. Þar er hv. þm. að skrifa um kvótakerfið. Ég vitna í greinina, með leyfi hæstv. forseta:

,,Við vitum því miður að það eru mýmörg ljót dæmi úr fortíðinni um að uppstokkun og eignabreytingar hafa leitt til þess að kvóti hefur flust úr byggð. Atvinnustarfsemin hefur veikst í kjölfarið með tilheyrandi byggðaflótta og vandræðum. Það er því eðlilegt að sú óvissa sem hefur verið í kringum þessar eignabreytingar hafi valdið kvíða. Við eigum hins vegar ekki að ætla annað en að menn ætli að standa við fyrirætlanir sínar og áfram verði haldið uppi öflugri atvinnustarfsemi með sem líkustum hætti á þessum stöðum líkt og gefið hefur verið fyrirheit um.``

Virðulegi forseti, síðan segir, með yðar leyfi:

,,Þetta leiðir hins vegar í ljós að það er beint samband á milli kvótaþróunar, atvinnutekna og byggðaþróunar í byggðum landsins. Það þýðir ekkert að reyna að halda öðru fram.`` --- Segir þingmaðurinn. --- ,,Menn eru víðs vegar um landið að reyna að verja burðarfyrirtækin í sjávarútveginum til að treysta stöðu byggðanna sinna. Jafnvel staðir sem eiga að mörgu öðru að hverfa gera sér það ljóst að veikari sjávarútvegur veikir byggðirnar. Hér eftir dettur vonandi engum í hug að afneita sambandi byggðaþróunar og sjávarútvegs.``

Svo mörg voru þau orð, hæstv. forseti, en þessi hv. þm. ætlar nú að kvótasetja smábátana. Hann stóð einnig að því að kvótasetja allar aukategundirnar í aflamarkskerfinu þótt fyrirséð væri að ýsuaflinn mundi tvöfaldast eða jafnvel þrefaldast. Allir sem stunduðu sjó vissu að óhemjumikið var af smáýsu á miðunum og því algjör óþarfi hjá hæstv. ráðherra að setja sérstaka kvótatakmörkun á ýsuveiðar. Hvað ýsuna varðar var ekkert annað í gangi en uppbygging stofnsins. Ég vek athygli á því, hæstv. ráðherra, að uppbygging ýsustofnsins átti sér stað undir veiðiálagi smábátanna í frjálsri sókn. Við erum ekki að tala um skjaldbökur sem verða 100 ára, hæstv. forseti. Við erum að tala um ýsu.

Ég verð að segja að oft hef ég orðið fyrir vonbrigðum. Maður hefur látið ýmislegt yfir sig ganga án þess að skammast mikið út í aðra þingmenn í Norðvest. En ég verð að segja að ég hef sjaldan orðið fyrir meiri vonbrigðum og þegar hv. þm. Einar K. Guðfinnsson tók að styðja það að kvótasetja aukategundirnar í smábátakerfinu. Þá gekk algjörlega fram af mér. Þessi hv. þm. skrifar grein á því herrans ári 2004 og bendir á að beint samband sé milli kvótasetningar, byggðaþróunar og atvinnutekna á landsbyggðinni. Guð láti gott á vita, en hvers vegna tekur hv. þm. þá afstöðu nú að eðlilegt sé að kvótasetja handfærabátana, þvert á hagsmuni eigin byggðar? Ég verð að segja, hæstv. forseti, að það er ótrúlegt að velja sér slíkt hlutskipti.

Í sama blaði eru greinar eftir fleiri þingmenn. Þar eru ágætar greinar eftir hv. þm. Jón Gunnarsson, hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson og einnig grein eftir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson. Hv. þm. Kristinn Gunnarsson segir á einum stað, með leyfi forseta, þegar hann talar um að hagkvæmnin sé umdeilanleg í kvótakerfinu:

,,Margt má segja um kvótakerfið bæði gott og vont. Eitt er það sem oftast hefur verið talið því til tekna er að það leiði til aukinnar hagkvæmni. Það er umdeilanlegt svo ekki sé meira sagt. Ekki það að hagkvæmni hafi ekki aukist í greininni undanfarna tvo áratugi. Það hefur greinilega gerst. Heldur hitt að fleiri þættir koma til sem hver og einn stuðlar að aukinni hagkvæmni og án þess að kvótakerfið hafi endilega áhrif þar á. Færa má rök fyrir því að hagkvæmnin hefði þróast með svipuðum hætti þótt ekkert kvótakerfi hefði verið við lýði eða eitthvert allt annað kerfi til að stjórna veiðunum. Tæknivæðing í veiðum og vinnslu sem hefur átt sér stað hefði orðið hvort sem er.``

Hæstv. forseti. Ég undrast að menn sem hafa slíkar efasemdir um kvótakerfið og hafa séð afleiðingar þess á mörgum sviðum, m.a. fyrir byggðir eigin kjördæmis, skuli ætla að fara þá leið sem nú á að leggja í, með kvótasetningu í handfærakerfinu. Ég held að það sé mjög varasamt og muni til lengri tíma veikja byggðirnar.

Formaður Framsfl., hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, sagði eitthvað á þá leið fyrir ekki svo löngu að huga þyrfti sérstaklega að atvinnumálum í Norðvest. Hann taldi komið að því að styðja þar við og efla atvinnustigið. Þetta sagði hann af því tilefni að gert var mikið atvinnuátak á Austfjörðum. Mér sýnist allt ætla að stefna til þess sem menn vonuðu, að þar mundi fólki fjölga og verða uppbygging, að þar yrðu byggð hús og mannlíf og atvinnulíf eflast, að þangað vildi fólk flytja sem atvinnutekjurnar væru til staðar. Mér sýnist allt stefna til þess.

Það stefnir því miður ekki í þá átt í Norðvest. og enn síður með þeim breytingum sem hér eru til umræðu. Ef það ógæfuspor verður stigið, að kvótasetja smábátana í dagakerfinu, munu aflaheimildir halda áfram að minnka á Vestfjörðum og draga úr atvinnu í þessum byggðum. Hv. þm. Hjálmar Árnason sagði í sjónvarpinu að það væri ekki nóg að horfa bara á 300 kalla sem verið er að bera á milljónir, sem múta á til að velja. Það er ekki nóg. Fjöldi fólks hefur atvinnu af því að veita bátunum þjónustu. Þessir bátar gera út frá þorpunum og aflinn kemur þar á land. Í óbreyttu kerfi er líklegra að menn veldu sér frekar búsetu á stöðum þar sem gott væri að gera bátana út.

Hæstv. forseti. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða tók saman skýrslu árið 2001 um um aflaheimildir á Vestfjörðum og hvernig eignarhald á þeim hefði þróast. Í þeirri skýrslu kemur fram að fiskveiðiárið 1997/1998 voru þorskígildi tæplega 28 þús. á Vestfjörðum. Fiskveiðiárið 2000/2001 voru þessi þorskígildi á Vestfjörðum komin niður í 13 þús. tonn. Aflaheimildirnar og skipin höfðu verið seld í burtu.

Það er ljóst, hæstv. forseti, að þróunin í mörgum minni sjávarbyggðunum á Vestfjörðum, t.d. Bolungarvík, eftir að aukategundirnar voru kvótasettar, ýsan og steinbíturinn, hefur orðið til þess að íbúum hefur enn fækkað. Nú er verið að selja þrjár íbúðir í pakka í Bolungarvík á eina milljón, 300 þúsund stykkið. Halda menn að menn séu að gera það af því að ástandið þar sé svo gott? Það er ekki verið að setja 500 millj. kr. frá Íbúðalánasjóði vestur á firði til að byggja upp húsnæði eins og verið er að gera á Austfjörðum. (JBjarn: Fimm milljarðar þar.) Það er ekki verið að því.

Það er ekki nóg hjá hæstv. utanrrh. að segja: Nú er komið að Norðvest., og gera svo allt annað. Það er ekki nóg hjá hv. þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna að fara um landið fyrir kosningar, lofa öllu fögru og einnig eftir kosningar, síðast 13. september á Ísafirði, á fundi undir yfirskriftinni Orð skulu standa. En í raun gera þeir allt annað og vega að byggðunum og taka burt atvinnuréttinn frá fólkinu.

Fólkið er skilið eftir. Það er verið að úthluta þeim sem kvótaréttinn hafa verðmætum, auknum verðmætum. Það er algjörlega ljóst. Það er ekki verið að horfa á hagsmuni fólksins sem vinnur við þessa báta. Það er ekki verið að horfa á hagsmuni byggðanna. Hvar er byggðastefnan, hæstv. ráðherra? Hvaða byggðastefnu ætla menn að reka í þessu sjávarútvegs- og landbúnaðarkjördæmi, Norðvest.? Það þýðir ekki að reyna að halda því fram að þessar breytingar muni ekki hafa áhrif. Þær munu hafa veruleg áhrif, því miður. Það fé sem nú er borið á smábátaeigendur mun ekki gagnast fólki sem býr í þessum byggðum, venjulegu fólki sem hefur haft atvinnu við að þjóna bátum eða komið að fiskvinnslu. Það mun ekki þjóna hagsmunum þeirra, og það mun ekki hækka húsnæðisverð á þessum svæðum.

Það er yfirleitt þannig, hæstv. forseti, að megnið af ævisparnaði venjulegs manns liggur í íbúðarhúsnæði hans. Þegar búið er að taka af honum atvinnuna, gera svæðið sem hann býr á að láglaunasvæði þar sem menn þurfa að treysta á atvinnuleysisbætur eða hafa enga aðra möguleika, þá lækkar íbúðarverðið. Bolungarvík er dæmi um það. Hvar er þá ævisparnaðurinn?

Telji menn réttlætanlegt að gefa smábátaeigendum valið um milljónir í vasann þá spyr ég hæstv. sjútvrh., sem er í ríkisstjórninni ásamt hæstv. utanrrh. Halldóri Ásgrímssyni: Hvað hyggjast menn taka sér fyrir hendur til að ekki gangi allt á skakk og skjön í Norðvest.? Það er ekki nóg að byggja upp á Austurlandi og á Norðausturlandi. Það er ekki nóg að við höfum aðeins uppbyggingu í Reykjavík. Það dugir ekki ef menn meina eitthvað með að byggðastefna sé við lýði í landinu. Er það raunverulegur vilji ríkisstjórnarinnar að halda byggð á landsbyggðinni?

Það er ekki eftirsóknarvert, virðulegi forseti, að sú þróun aflaheimilda verði sem varð á Vestfjörðum á árabilinu 1997--2001. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann engar áhyggjur af því að þannig fari þegar búið er að setja söluréttinn á aflaheimildirnar enn á ný niður í smæstu bátana?

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri, ekki mikið lengri a.m.k. Til gamans vil ég þó að minna á að stundum hafa menn fengið bætur ef þeir hafa orðið fyrir skaða.

[23:45]

Í íslenska lagasafninu eru lítil lög frá 1937, um útrýmingu sels í Húnaósi. Þau eru svohljóðandi:

,,1. gr. Veiðifélag Vatnsdalsár skal hafa einkarétt til að útrýma sel úr Húnaósi. Ræður stjórn félagsins mann eða menn til starfans.

2. gr. Presturinn í Steinnesi fái bætur fyrir missi heimatekna vegna selveiði í Húnaósi. Ríkissjóður greiðir bæturnar eins og þær eru metnar.``

Þetta er í lagasafninu, hæstv. ráðherra. Hvaða bætur hyggst ráðherrann bera á borð fyrir fólkið sem sitja mun eftir réttindalaust við þær aðgerðir sem hér er efnt til? Hvaða bætur á að bera á borð? (Gripið fram í: Selveiði.) Ættum við að minnast Búðardalsræðu forsrh. fyrir mörgum árum, um að stofna verði sjóð til að kaupa upp húseignir fólks? Þannig er það, hæstv. forseti.

Ég tók þetta litla dæmi úr lagasafninu til að sýna að það þótti meira en sjálfsagt að bæta prestinum í Steinanesi þann skaða sem hann varð fyrir af því að fá ekki að drepa sel í Húnaósi. En það þykir ekki sjálfsagt að bæta fólkinu á Skagaströnd þann skaða sem það verður fyrir þegar útgerð smábáta þar minnkar um 30--70%, sem ég hygg að muni því miður gerast, hæstv. ráðherra, á næstu 2--3 árum.

Að lokum ætla ég að lesa upp ágæta grein sem mér áskotnaðist, með leyfi forseta, eftir Friðrik Á. Hermannsson lögmann. Hún heitir ,,Þrælsótti`` og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Enn á ný halda sjómenn upp á daginn sem kenndur er við þá og þeirra störf í þágu samfélagsins; að draga að landi þjóðarverðmætin sjálf, fiskinn og viðhalda þar með velmegun landans. Vissulega hefur öryggi og aðbúnaður sjófarenda batnað til mikilla muna í áranna rás og sjóslysum fækkað verulega. Hið sama verður þó ekki sagt um starfsöryggi þeirra og tjáningarfrelsi. Hetjuímynd sjómannsins hefur því miður horfið og í stað hennar hefur þrælsótti fest sig í sessi hjá fjölmörgum sjómönnum víða um land.

Eins og ég hef ítarlega og ítrekað reifað í Vélfræðingnum og í fjölmiðlum nýverið, hafa sífellt fleiri mál skotið upp kollinum þar sem sjómönnum hefur verið sagt upp störfum eða hótað starfsmissi, sökum afstöðu þeirra eða afskipta af stéttarfélögum og þar með túlkun þeirra á ákvæðum kjarasamninga. Þá hefur komið upp tilvik þar sem vélstjóra var sagt upp störfum þar sem fjölskylda hans vildi ekki búa á útgerðarstað skipsins. Misbeiting valds af þessum toga þrífst á Íslandi í skjóli einokunar örfárra útgerðarjöfra á þjóðarauðæfunum; veiðiheimildunum.

Sífellt færri sjómenn þora að andmæla gjörðum herra sinna sem verða stærri og stærri eftir því sem árin líða. Útgerðareiningarnar verða æ ópersónulegri og mannaflinn þýðingarminni í augum útgerðarmannsins, með réttu réttu eða röngu og öll skoðanaskipti háskaleg. Hetjur hafsins finnast nánast einungis fyrir í orði kveðnu enda búið að segja mörgum sjómönnum upp störfum sem hafa neitað að beygja sig fyrir óréttmætum og ómálefnalegum kröfum útgerðarmannsins. Þessi fullyrðing á sér sem betur fer undantekningar en þeim fækkar stöðugt.

Satt að segja er ég orðinn þreyttur á því, eftir sjö ára samfellt starf í þágu sjómanna, að gefin séu eftir lög- og kjarasamningsbundin réttindi af ótta við uppsögn. Á fundum sem ég hef átt við sjómenn hafa komið fram fyrirspurnir um tiltekin réttindamál; rétt til launa í veikindaforföllum, til greiðslna vegna vinnu í hafnar- og helgarfríum, um rétt þeirra til að neita þátttöku í að landa afla o.s.frv. Þrátt fyrir að ég hafi afdráttarlaust getað svarað spurningum þeirra um skilyrðislausan rétt þeirra í þessum efnum, hafa þeir ekki fengist til að sækja rétt sinn, sem oft og tíðum varðar hundruðum þúsunda eða milljónum króna. Þeir meta það meira að halda vinnu sinni og aflahæfi en að sækja rétt sinn. Þar að baki liggja ástæður og rök sem ég get ekki metið þeim til lasts.

Skýrustu og nýjustu dæmin um hræðslu sjómanna við að sækja rétt sinn um leiðréttingu mála, við greiðslu kjarasamningsbundinna launa, er að finna á Vestfjörðum. Á þeim slóðum hefur hvert tilfellið rekið annað þar sem komið hefur upp úr kafinu að útvegsmenn hafa haft milljónir af sjómönnum sínum með tilgreiningu rangrar skiptaprósentu á launaseðlum eða ranglega uppgefnu aflaverðmæti. Þrátt fyrir að opinberar upplýsingar liggi fyrir um slíkt misferli, frá þeirri skeleggu stofnun Verðlagsstofu skiptaverðs, hefur einungis brot af brotaþolunum sóst eftir leiðréttingu sinna mála. Vafalaust koma þar byggðarsjónarmið við sögu og er hér að finna enn eina afsökun sjómannsins fyrir því að gera ekki neitt. Óttast margir um atvinnuöryggi sitt í kjölfar málshöfðunar, ekki einungis hjá hinni brotlegu útgerð heldur á heilu landsvæðunum.

Það er hjákátlegt að hlýða á ,,sannfærandi`` rökstuðning ráðamanna þjóðarinnar um gildi alþjóðasamninga á túlkun og framkvæmd íslenskra réttarreglna þegar það hentar markmiðum ríkisstjórnarinnar. Má hér benda á óhjákvæmilegar skyldur ríkisvaldsins, annars vegar þegar kemur að breyttu fjölmiðlaumhverfi, lagasetningu á Norðurljós með vísan til alþjóðasamþykkta, og hins vegar setningu laga um fækkun vél- og skipstjórnarmanna á íslenskum fiskiskipum, með tilheyrandi minnkun öryggiskrafna á sjó. Síðargreinda samþykktin er að vísu ekki alþjóðasamþykkt þar sem einungis tvær þjóðir hafa samþykkt hana, Danmörk og Rússland, en fjórtán þjóðir þurfa að lágmarki að samþykkja hana eigi hún að teljast alþjóðasamþykkt.

Alþjóðasamþykktir eða ekki; nauðsyn þeirra ræðst einvörðungu af duttlungum ráðamanna. Ef efni þeirra er valdhöfunum þóknanlegt öðlast þær gildi hér á landi; annars ekki. Tilvitnun til ákvæða þeirra er tilviljunarkennd og ber óneitanlega merki um hentistefnu og ómerkilegan málflutning sem einungis er til þess fallinn að kasta ryki í augu almennings. Málflutningur af þessum toga stenst í það minnsta ekki lágmarkskröfur rökhyggjunnar; þeir sem falla fyrir honum eru annaðhvort sér í lagi ,,pólitískt`` trúaðir eða ,,afskiptalausir``.``

Í niðurlagi greinarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Staða sjómannsins á hinum íslenska vinnumarkaði er sérstök og um mjög margt ólík stöðu annarra launþega. Samkeppni í sjávarútvegi er takmörkuð þar sem einungis er til að dreifa ákveðnu magni veiðiheimilda á hverju fiskveiðiári sem tilteknum hópi manna er falið óskorað vald yfir. Réttur útvegsmanna til uppsagna á skiprúmssamningum sjómanna er aftur á móti takmarkalaus. Óskorað vald fárra aðila yfir þjóðarauðæfunum og óskorað vald þessara sömu aðila til að ráða og reka starfsmenn sína kann aldrei góðri lukku að stýra. Einræðið er algjört en slíku stjórnarfari, hvort sem um er að ræða hægri eða vinstri menn, gefur mannkynssagan ekki háa einkunn.

Á sjómannadaginn 2004 er það mitt mat að staða sjómanna hafi versnað til muna enda vegur atvinnuöryggi launþega að mínu mati þyngst þegar réttindi þeirra í heild eru vegin og metin. Sjómenn þora einfaldlega ekki að fara fram á kaup og kjör í samræmi við gildandi rétt hverju sinni af ótta við starfsmissi. Sjómenn bera ekki frelsið og sanngirnina á borð fyrir maka sinn og börn sín; þú étur ekki réttlætið. Við núverandi aðstæður eru því ákvæði sjómannalaga og þeirra kjarasamninga sem í gildi eru á milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og sjómannasamtakanna að mestu gagnslaus. Meira þarf til að koma.``

Ég læt þessa tilvitnun nægja, hæstv. forseti. Af þessum lestri má sjá að upp er komin ný réttarstaða með því að færa útgerðarmanninum einokun á því að ráðstafa aflaheimildum. Það hefur haft áhrif á kjör sjómanna. Sú aðgerð sem hér er um að ræða mun hafa áhrif á kjör sjómanna. Hún mun víða hafa áhrif á stöðu landsbyggðarfólks og hún mun vega að atvinnuréttindum og atvinnumöguleikum þeirra.

Hæstv. forseti. Ég tel að við fáumst hér við mál sem er einstakt. Við erum í lokaferli þess að kvótasetja alla fiskeigendur á Íslandi, niður í smæstu trillur. Við erum að loka kerfinu og ég er viss um að innan fárra ára, ef svo heldur fram sem horfir og núverandi stjórnarflokkar halda velli, sem ég vona sannarlega að verði ekki framtíð þessa lands, munu þessi kerfi renna saman. Hinir stærri munu kaupa þá smærri. Smærri byggðirnar munu enn veikjast, landsbyggðin mun veikjast. Atvinnulíf og fjölbreytni í þessu landi mun minnka. Byggðastefnan sem hampað er í orði á tyllidögum sem baráttu- og stefnumáli núverandi ríkisstjórnar er úlfur í sauðargæru. Það er ekkert að marka hana.