2004-05-27 04:24:35# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, Frsm. meiri hluta GHj
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[28:24]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson):

Virðulegi forseti. Komið er að lokum 2. umr. um frv. hæstv. sjútvrh. um breytingu á lögum nr. 38/1990, með síðari breytingum. Þær breytingar sem hafa orðið á frv. frá því að það var lagt fram eru nokkuð afgerandi þar sem segir að útgerðir báta með dagatakmörkun, þ.e. sóknarbátar, skuli stunda veiðar með krókaaflamarki frá og með næsta fiskveiðiári. Við erum að ræða um 9.500 tonn í þorski ásamt 300 lestum í þorski vegna sértækra aðgerða en það byggir á viðbótarhlutdeild sem svarar allt að 20 lestum í krókaaflamarki til að bæta stöðu þeirra útgerða sem nýlega hafa endurnýjað báta sína þar sem sóknargetan hefur ekki nýst, til að mynda aflareynsla. Ráðherrann mun setja nánari reglur um þetta ákvæði.

Í breytingum við frv. er gert ráð fyrir að til reiknigrunnsins reiknist 90% af upp að 50 lesta viðmiðunarreynslu á óslægðan fisk og 40% af því sem umfram er. Það kemur fram í nefndaráliti að þessar prósentutölur geta tekið breytingum og nú liggur það fyrir að hver bátur fær reiknigrunninn 91% af fyrstu 42,5 lestunum og umfram það 45%. Búið er að setja upp reiknilíkan miðað við þessar prósentur. Ég hef trú á að þetta verði lokaprósentur sem verða kynntar og lagðar fram á milli umræðna. Þá kemur í ljós að 35 skip lækka við útreikninginn, 206 skip hækka. Hjá þessum 35 minnkar aflinn um 58 tonn miðað við fyrstu tölur sem komu á vef Fiskistofu. Hækkunin er 696 tonn en engin breyting varð hjá 51 skipi.

Ég tel ánægjulegt að hafa náð samkomulagi við fulltrúa Landssambands smábátaeigenda miðað við þær forsendur sem lágu fyrir. (Gripið fram í: Þetta samkomulag?) Forsendur lágu fyrir og við skiptumst á skoðunum. Það voru ákveðnir valkostir í stöðunni og það kom niðurstaða út úr því. Okkur var kynnt þetta í nefndinni og það kom niðurstaða úr því. Það var ekkert samkomulag, við vorum ekkert að ræða um einhverja daga eða gólf. Það var ekki inni í stöðunni. Við náðum samkomulagi á öðrum forsendum.

Margir aðilar komu á fund sjútvn. Flestir sem komu á fundinn voru sammála um að loka þyrfti þessu kerfi. Þar má nefna fulltrúa Sjómannasambands Íslands, Vélstjórafélagsins, Farmanna- og fiskimannafélags Íslands og fulltrúa þess áhugahóps sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefur rætt töluvert um í kvöld. Þessir aðilar létu gera skoðanakönnun meðal félagsmanna sinna og þeir hringdu út. (Gripið fram í: Áhugamannahópurinn.) Áhugamannahópurinn og fleiri, já. (Gripið fram í: Nú?) Það kom listi (Gripið fram í: Hvar er hann?) sem var afhentur sjútvn. Hann er hjá ritara nefndarinnar og fulltrúar sjútvn. máttu skoða eins og þeir vildu og hann gekk á fundinum og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson var með listann því ég sótti hann til hans. (Gripið fram í: Ég er búinn að lesa hann.) Þú varst að skoða hann og lesa hann. Þetta eru 10--15 nöfn. (Gripið fram í.) 10--15 nöfn og það er merkt við númer hvað báturinn er, hvað hann heitir, hver er eigandi og hver talaði við hann. Svarið er já eða nei. Þetta er allt flokkað og mjög vel gert. Niðurstaðan er mjög afgerandi. Það eru 249 eða 85,27% af 292 sem svara, 183 segja já, 44 segja nei, 5 ætla ekki að svara og óvissir eru 17. Það náðist ekki í 43. Ef við tökum prósentuna bara hjá þeim sem svöruðu þá eru það 80,6% sem sögðu já og 19,4% sem sögðu nei. Sumir sem sögðu nei ætluðu að athuga hvort kæmi 23 daga gólf. (Gripið fram í: Hver var spurningin?) Spurningin var um frv. Hvað á að spyrja um annað en frv. þegar verið er að gera slíka skoðanakönnun? (Gripið fram í: Kjöt eða skít.) Það er ykkar mat. En þetta er mjög bara afgerandi og eins og fulltrúi ...

(Forseti (GÁS): Forseti vill vekja athygli þingmanna á því að hér er ekki spurt og svarað heldur er hv. ræðumaður að halda ræðu.)

Fulltrúi Landssambands smábátaeigenda sagði að svörin gætu verið meira en 80% að hans mati, gætu alveg eins verið 90. Það var hans mat og það er kannski skýringin á því að þeir áttuðu sig á því að þorri þessara aðila taldi þetta vera gott fiskveiðistjórnarkerfi og vildi fara í það. Það er niðurstaðan og þess vegna var hægt að loka þessu. Það er mjög einfalt. Það er mjög athyglisvert hve margir vilja þetta. Það eru mörg rök að baki og ég er búinn að skoða þau. Það er meira atvinnuöryggi. Við erum að ræða um 400--500 manns sem starfa í þessu. Við erum að ræða um atvinnuöryggi 400--500 fjölskyldna. Við vitum líka að lausafjárstaða margra aðila er slæm. Og það voru ekki einhverjir fjórir aðilar sem voru að hringja í mig. Það voru tugir aðila, það eru yfir 100 aðilar búnir að hringa í mig þannig að það komi fram hér. Það er því vegið mjög að einstaklingum sem hafa áhuga á að hitta þingmenn. Hvað koma margir hópar í Alþingishúsið og vilja ræða við okkur? Allt í einu er einn hópur tekinn út úr og hann er bara að gambla og leika sér. Hvað erum við búnir að eiga marga fundi, við hv. þingmenn Suðurk.? Við erum búnir að eiga 20--30 fundi með hópum. Er einhver einn hópur eitthvað vafasamari en annar? (Gripið fram í: 20--30?) Mega menn ekki ræða við okkur? Ég er a.m.k. búinn að því, búinn að hitta fólk sem kemur hingað.

[28:30]

Það er staðreynd að það er orðið langtum erfiðara að eiga við bankakerfið í dag. Það eru gerðar kröfur í dag og menn þurfa að hafa eigið fé líka hvort sem þeir eru á sóknardögum eða í kvóta. Ég var búinn að nefna aðilann sem fékk fjögur tilboð en fékk ekki fjármögnun. Þetta er bara að gerast. Það er erfitt að selja í þessu kerfi. Það er staðreynd.

Menn mega róa í sóknardagakerfinu frá 1. apríl til 31. október. En þessir aðilar geta sjálfir ráðið því með því að fara í aflamarkskerfið hvenær þeir róa og þá eru þeir náttúrlega farnir að stjórna sjósókn sinni sjálfir. Þeir geta valið stærri og betri fisk með því að veiða á öðrum árstíma, fengið meira og betra verð. (Gripið fram í: Fara í brottkast.) Menn töldu og rökstuddu það að hægt væri að stjórna betri rekstri á 45 tonnum en óvissunni sem er 70 tonn eitt árið og 30 tonn og 40 tonn hitt árið. Síðustu daga í þessu gæftaleysi hafa dagabátar verið úti. Menn eru búnir að eyða 30, 40, 50 tímum síðustu þrjá daga, menn sem eru með 18 daga og hafa varla fengið þann gula upp úr sjó. Haldið þið að þetta telji ekki hjá aðilum sem eru í rekstri. Í þessu felst ákveðin óvissa. Það er ekki alltaf fullur sjór af þorski. Þarna geta menn nýtt tímann betur og farið á hentugri tíma. Kannski er lengra að fara á miðin til að sækja meiri aflaverðmæti. Þeir eru ekki í kapp við tímann. Það eru bara margir möguleikar í þessu.

Við vitum líka, það er engin launung á því, að með þessari breytingu verða miklar breytingar. Helsta breytingin sem menn verða varir við er að minni afla verður landað á sumrin. Það verður veitt þegar verðið er hæst. Um það held ég að allir séu sammála. Þetta mun dreifast betur yfir árið. Ég tel líka að þessum bátum fækki, að þarna verði hagræðing. Við sjáum það alveg ef við skoðum þennan lista að sumir eiga tvo báta og þeir kannski ákveða að veiða allt á einn bát. Eitthvað fer á hreyfingu. Eitthvað verður selt. Það gerist alltaf. Svo fara einhverjir yfir á línu og það skapar kannski fleiri atvinnutækifæri. Þeir sem eru með tvo báta eru kannski að hugsa um heils árs störf og þá losna störf á móti. Margt spilar inn í þetta. Ég er alveg harður á því að möguleikinn er meiri í aflamarkskerfinu og ég fer aftur inn á þetta með bankakerfið og allt sem snýr að því. Hv. þm. Gunnar Örlygsson spurði mig einmitt um nýliðun, um kaup og sölu og hvert mitt mat væri á því. Mat mitt er mjög einfalt. Það er markaðurinn sem stjórnar þessu. Það eru 500 bátar í krókaaflamarkskerfinu. Það koma 292 bátar í viðbót. Það er hreyfing á þessu. Það verða kaup og sala. Þetta blandast þessu kerfi. Ef menn eru síðan að tala um 100 þúsund kall til eða frá þá getur það breyst. Það fer eftir ásókn. En meðan hreyfingin er og menn eru að selja og kaupa báta fara þeir inn í þennan pott. Þetta er ekkert öðruvísi.

Virðulegi forseti. Í gegnum tíðina hefur verið mikill ágreiningur um sóknardagabáta og fiskifræðingum fjölgar mikið og ekki síst á kosningaári. Það hafa verið uppboð hjá stjórnmálaflokkum á dögum í þessu kerfi en það hefur aldrei verið um annan valkost að ræða. Með breytingu á frv. sem meiri hluti sjútvn. leggur fram mun sóknardagakerfið verða lagt niður í núverandi mynd og allir aðilar færðir yfir í aflamark að undanskildum þeim er falla undir sértæk tilfelli en þeir fara í aflamarkskerfi á næstu tveimur árum. Einhverjir munu sennilega fara strax í aflamark. Samkvæmt frv. eru tæp 9.800 tonn af þorski færð í aflamark sem er 90% af næstbesta ári sóknardagabáta. Takið eftir, 90%. Fyrir þremur árum síðan voru veidd 8.400 tonn og við erum að tala um langtum meiri aflaverðmæti á land. Ég get fullvissað ykkur um að 9.800 tonnin sem veidd eru í aflamarki á þeim tíma sem betra verð fæst fyrir fiskinn eru verðmeiri en 11 þúsund tonnin sem eru veidd á sóknardögum á sumrin.

Virðulegi forseti. Ég fékk töluvert af spurningum frá hv. þingmönnum Jóni Gunnarssyni, Gunnari Örlygssyni og Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Ég ætla aðeins að reyna að svara þeim.

Hv. þm. Jón Gunnarsson spurði hvort mér dytti í hug að nokkrir veldu sóknardaga. Mér datt það í hug því að menn voru að hringja í mig. Gerð var könnun í einu sveitarfélagi þar sem voru sex bátar. Fjórir vildu fara og tveir ekki. Þetta var því valkostur. Menn sem voru óánægðir hafa hringt í mig og látið í ljós óánægju sína ef þetta á að breytast. Það eru líka hugsjónamenn í þessu. 80, 20, ég átta mig ekki á því hvort það hafi verið einhver niðurstaða sem lá í þessu. Ég hélt að hún væri ekki svona afgerandi þegar þetta fór af stað.

Ég fékk líka töluvert af hringingum af því að það var munur á þeim aðilum sem voru með t.d. veiðireynslu upp á 50 tonn á sitt hvoru árinu. Ástæðan var sú að annað árið var 12.400 tonna afli og hitt árið 11.009 tonna afli. Þá voru 50 tonn reiknuð sem vægi af heildinni og sett inn í staðinn fyrir að hagstæðara hefði verið að leggja árin saman og búa til eina einingu þannig að 50 tonnin væru með sama vægi. Því munaði í fyrstu útreikningum að annar aðilinn var með 62% og hinn 68% þannig að það vantaði þarna mismun. Menn vita töluvert um hvað hinn er að veiða þannig að þetta kom strax í ljós.

,,Var samkomulag við LS um hvað var rætt? Hvenær hittust þið eftir að frv. var vísað til sjútvn.?`` Það gerðist á mánudagskvöldið að meiri hluti sjútvn. fundaði og mér var falið ásamt ráðuneytisstjóra í sjútvrn. að ræða við fulltrúa LS. Ég hafði samband við Örn Pálsson um 11-leytið að kvöldi til. Þá var hann í vinnu við að semja álit. Hann var akkúrat að senda okkur í nefndinni álit sitt. Hann var tilbúinn að mæta og við sátum til klukkan eitt um nóttina og fórum yfir stöðu málsins og alla þá þætti og söguna af þeirra hálfu. Það var ákveðið að hittast daginn eftir. Þá var Arthur Bogason að koma erlendis frá og við ræddum við þá. Þetta þróaðist upp í það að við náðum samkomulagi miðað við þær forsendur sem voru gefnar. (JÁ: Náðuð þið samkomulagi?) (Gripið fram í: Samkomulagi eða er nauðung?) (Gripið fram í: Afarkostum.) Nei, nei, það var bara ákveðið í stöðunni og þeir töldu betra að loka þessu en vera með frv. eins og það var. Það er staðreynd.

,,Að meta áhrif löndunar og afla og hvaða áhrif það hefur á sveitarfélög.`` Þessi skýrsla eða tafla er alveg ótrúleg. Það er rosalega misjafnt hvað er að gerast sums staðar á landinu. Við sjáum að Reykjavík og Hafnarfjörður vinna 20% af þeim afla sem smábátar landa. Það er varla landað fiski þar. Í Bolungarvík er landað 1.614 tonnum en unnin 560 tonn. Flateyringar standa sig mjög vel. Þeir vinna 928 tonn, landa 318 tonnum. Svona má fara yfir þetta allt saman. Grímseyingar landa 1.211 tonnum, vinna 240. Ég held því að vinnsluþátturinn sé eitt af því sem menn eiga að skoða. Við þurfum að styrkja hann. Það er kannski svar við þessari spurningu. Ég held að hægt sé að skapa langtum meiri verðmæti. Ég hugsa bara að gera þurfi ákveðna úttekt hjá sumum sveitarfélögunum á því hvað hægt sé að gera í atvinnuuppbyggingu.

Varðandi þann hóp sem átti að hafa komið að þessu máli, þ.e. hvort hann hafi komið með hugmyndina um sértæku aðgerðirnar, þá kom sú hugmynd frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. Hann kom með þá hugmynd upphaflega og sagði að margir væru á gráu svæði sem ekki mundi falla inn í þetta út af ástæðum sem við höfum rætt hér áður þannig að meðlimir í félögum þeirra aðila sem sendu bréfið hafa líka verið í sambandi. Þetta eru náttúrlega dæmigerðir hlutir sem gerast þegar menn eru að gera veigamiklar breytingar.

Varðandi reiknigrunninn sem hv. þm. Jón Gunnarsson ræddi um þá sýnist mér það gerast miðað við þessa útreikninga --- og hann er örugglega búinn að skoða það --- að minni aðilarnir sem eru með 20--35 tonnin koma betur út úr þessu og það var kannski sú hætta sem LS taldi geta komið upp varðandi rekstur á bát með þennan kvóta. Ég er mjög sáttur við þá breytingu, þá jöfnun sem hefur orðið miðað við þetta reiknilíkan og ég hef ekki trú á að það verði neinar breytingar. Ég er búinn að skoða þetta aðeins í dag og er mjög sáttur við það.

Hv. þm. Gunnar Örlygsson spurði mig hvað ég mundi gera ef ég væri þingmaður Norðvest. og væri búinn að segja það sem þeir áttu að hafa sagt og stendur á vefsíðu X-F, er það ekki? Ég var að lesa það um daginn að fundur var í Norðaust. og sagt var hvað þingmenn hefðu sagt. Mér finnst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vera búinn að gera skilmerkilega grein fyrir ákvörðun sinni, þ.e. í hvaða stöðu hann var og hvaða valkostir voru í stöðunni. Hann gerði grein fyrir því. Einar K. Guðfinnsson gerði líka grein fyrir því og las hér úr ræðustól það sem hann sagði. Ef ég hefði verið á þessum fundi og menn hefðu haft eitthvað eftir mér þá hefði ég þurft að standa fyrir því. En mér finnst þeir þingmenn sem voru á fundinum vera búnir að gera alveg grein fyrir því hvað þeir sögðu þar. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði aðeins minna en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson en Kristinn fór mjög vel í gegnum þetta. Hann sagði bara hér á hinu háa Alþingi að hann teldi að ekki væri meiri hluti fyrir því að setja gólf og þess vegna voru valkostir aðrir. Hann sagði það hér í umræðunni.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði að aukningin væri svo lítil og spurði hvort það væri einhver hætta að hafa þessa stýringu og stoppa þetta. Það er engin launung á því að á síðustu þremur árum hefur veiðin aukist um 50%, úr 8 þúsund tonnum árið 2000 í 12.400 árið 2002 sem er mjög mikið. Það eru að koma mjög stórir og sterkir bátar og á meðan kerfið er svona opið vilja menn náttúrlega fara í sóknina og veiða alveg eins og hægt er á meðan boðið er upp á þetta. Einhvers staðar verðum við að stoppa þetta. Mér finnst þetta bara mjög góður endir. Mér finnst mjög sanngjarnt að bjóða upp á 9.900 tonn í varanlegu í þorski, 650 tonn í varanlegu í ufsa og svo verða einhver 150 tonn í ýsu, karfa og öðrum tegundum. Mér finnst þetta mjög gott miðað við veiðar síðustu ára. Ef við tækjum meðalafla á þorski síðustu þriggja ára þá eru það 10.600 tonn sem er sama magn og við erum að tala um í varanlegu ef við tökum þessar tegundir með. Þetta er nákvæmlega sama tala upp á kíló.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson vildi að ég ræddi um þessa menn. Hann spurði hvort ég hefði kíkt á pappíra og annað frá þeim. Ég er ekki að koma til að ræða um einstaklinga á þessum stað. Tugir manna, ef ekki fleiri en hundrað manns --- yfir hundrað manns hafa haft samband við mig sem eru í þessu kerfi. Skoðanir eru skiptar og menn hafa tjáð sig um þetta. En að ræða um einstaklinga og stöðu þeirra ... (Gripið fram í.) Það gengur ekki einu sinni að maður fari fram á það á hinu háa Alþingi. Svona gera menn ekki hér. Það er bara misskilningur að það séu einhverjir fjórir aðilar. Óskað var eftir því á fundi sjútvn. að þessir fjórir aðilar mundu mæta. Þá sagði ég: ,,Þetta eru áhugamenn um aflamark. Viljið þið fá einhverja aðra í viðtal.`` Ég spurði að því en ekki kom ósk um það. Ég ætla ekki að sitja undir því að ég hafi verið að velja. Þetta gekk svona fyrir sig. Það var beðið um þetta og við ætlum að gefa okkur nægan tíma. Það var jafnvel rætt um að fara ekki í umsagnir en það gerðist líka. En mér finnst mikil ávirðing að ráðast hér á einstaklinga og ætla svo að ræða persónuleg mál þeirra sem eru í þessu kerfi.

Virðulegi forseti. Breytingar á frv. um stjórn fiskveiða sem nú er lagt fram byggja á framtíðarsýn og meira öryggi fyrir eigendur, starfsmenn og fjölskyldur þeirra sem hafa verið á sóknardagabátum sem fara yfir í aflamark næsta haust og því er mikilvægt að frv. verði afgreitt á þessu þingi.

Að lokum þakka ég góðar og í flestum tilvikum mjög málefnalegar umræður um frv. sem að mínu mati á eftir að styrkja enn frekar fiskveiðistjórnarkerfi okkar og skjóta sterkari stoðum undir smábátaútgerð á Íslandi.