Synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:03:43 (9135)

2004-05-27 10:03:43# 130. lþ. 128.91 fundur 601#B synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:03]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Virðulegi forseti. Þetta var skrýtin ræða, undarleg, sérstaklega þessi kenning um að forsetinn geti sett bráðabirgðalög. Meira að segja Svanur Kristjánsson prófessor mundi ekki halda því fram að forsetinn geti sett bráðabirgðalög. Þetta er alveg nýtt fyrir mér en þetta sjálfsagt kemur inn í kennsluna einhvern tíma. (Gripið fram í.) Þetta er tóm vitleysa, hv. þingmaður, þú átt ekki að láta svona út úr þér.

Varðandi frv. sem er orðið að lögum frá Alþingi fer það bara með venjulegum hætti eins og með önnur lög til forseta til staðfestingar. Þetta frv. lýtur engum öðrum lögmálum. Þó að menn hafi gert meiri hávaða í þinginu og tilteknum fjölmiðlum lýtur það engum öðrum lögmálum. Hvaða öðrum lögmálum lýtur það? Ekki nokkrum öðrum. Það eru núna 60--70 lög sem forseti þarf að staðfesta. Þau fara öll með venjulegum hætti til hans. Við hljótum að gera ráð fyrir því að forsetinn skoði öll þessi lög með sama hugarfari, ekki bara eftir því hvort það er hávaði í þjóðfélaginu eða tilteknir aðilar séu með læti. Forsetinn hlýtur að skoða öll þessi lög með sama hugarfari. Ég geri ráð fyrir því. Gerir hv. þm. ráð fyrir því að forseti skoði þessi tilteknu lög með öðru hugarfari? Vegna hvers? Hvað er hann að gefa til kynna?

Ég hef sagt að það hljóti að koma til minna kasta eða virðist koma til minna kasta ef forseti mundi fara þá leið að synja staðfestingar þeim tilteknu lögum sem hv. þm. nefndi, að fara yfir það hvað af þessum rökum fræðimannanna gilda. Það liggur bara í augum uppi. Það er enginn úrskurður. Framkvæmdarvaldið þarf þá væntanlega eitthvað að aðhafast, eða aðhafast ekki, og það getur ekki gert það nema taka ákvörðun. Það er enginn úrskurður. Þessi ummæli í gær í fréttunum voru tóm endaleysa og viðtalið við þennan ágæta prófessor tóm endaleysa, allt saman, eins og reyndar oft í því tilviki.

Þetta mál er í fullkomlega eðlilegum farvegi og ekkert öðruvísi en önnur mál. Ég skil ekki þessi læti.