Synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:05:54 (9136)

2004-05-27 10:05:54# 130. lþ. 128.91 fundur 601#B synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Það er lakara að hæstv. forsrh. skuli ekki svara skýrt einfaldri spurningu um það hvenær forseti Íslands fær hin umdeildu lög til undirritunar. Hæstv. forsrh. veit vel hvað hér hangir á spýtunni og veit við hvað fyrst og fremst er átt. Hvenær ætlar hæstv. forsrh. að senda til forseta lögin sem hann hefur fengið úr prentun og undirrituð hafa verið af skrifstofustjóra og forseta þingsins? Er þess að vænta að það verði gert áður en Alþingi fer heim? Svari hæstv. forsrh. ekki hér og nú hljótum við að ræða það ítarlegar við hann þegar þingfrestunartillagan kemur til umræðu á eftir.

Ég verð líka að segja að mig undra a.m.k. tvenn ummæli hæstv. forsrh. í þessu sambandi. Það er í fyrra lagi það, í viðtali við Ríkisútvarpið, að mikil og illleysanleg vandamál komi til kasta stjórnvalda ef forsetinn synji staðfestingar laga. Hið síðara er að forsrh. sjálfur ætli sér sérstakt úrskurðarvald í því hvað þá beri að gera. Ætlar forsrh. að fara að taka sér einhvers konar hæstaréttarvald? Ætlar hann að gerast einhver háyfirdómari í landinu, einhver iudex optimus maximus, eða hvað? Ef einhver á að koma að því máli hlýtur Alþingi að gera það. Fordæmin eru til staðar. Ég skil ekkert í þeim verkkvíða að halda að það vefjist fyrir mönnum að framkvæma einfalda þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem svarið er já eða nei. Fordæmið er m.a. lýðveldisstofnunin. Þegar lýðveldið var stofnað samþykkti Alþingi þáltill. í febrúar 1944 og setti í framhaldinu lög um hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram. Meira að segja atkvæðaseðillinn var í þeim lögum þannig að við getum farið beint í það fordæmi, farið í Stjórnartíðindin frá 1944. Það ætti ekki að þurfa að vefjast fyrir okkur að setja lög um framkvæmd þessarar einföldu þjóðaratkvæðagreiðslu, vísa í kosningalög sem auðvitað geta gilt að miklu leyti, nota sömu kjörstjórnir og annað í þeim dúr. Þetta er ekkert vandamál. Hvaða óskaplegur verkkvíði er að halda að það vefjist fyrir manni? Eða á að reyna að hræða menn frá því að virkja lýðræðið?