Synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:12:14 (9139)

2004-05-27 10:12:14# 130. lþ. 128.91 fundur 601#B synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:12]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Hæstv. forsrh. spyr hvort mér finnist sem það gegni einhverju öðru máli um fjölmiðlalögin en önnur lög. Já. Mér finnst gegna öðru máli um þau. Það eru lög sem mikil óvissa hefur skapast um, ekki síst vegna endurtekinna yfirlýsinga hæstv. forsrh. um þau. Hæstv. forsrh. hefur hreinlega efast um að forseti lýðveldisins hafi það vald sem stjórnarskráin gefur honum þó ótvírætt. Það eitt hefur leitt til óvissu í kringum þessi mál og það eitt hefur leitt til þess að þjóðin vill að þetta mál verði afgreitt og það komist á hreint hvað gerist í framvindunni, ekki síst vegna þess sem ég kalla ögranir af hálfu hæstv. forsrh. sem stöðugt talar um að hér muni skapast mikil óvissa og mjög illleysanleg mál. Það eru þau ummæli hæstv. forsrh. sem gera það að verkum að mér finnst nauðsynlegt að þetta liggi fyrir.

Hins vegar sýnist mér á öllu að hæstv. forsrh. vilji vera laus við þingið áður en þetta mál kemur til kasta forseta lýðveldisins. Það ber hins vegar að skoða í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hæstv. ráðherra hefur síðan sett fram, þ.e. að hann ætli sér hugsanlega að taka það vald að úrskurða um það hvort forsetinn geti nýtt sér þann rétt sem stjórnarskráin með ótvíræðum hætti færir honum. Það kom fram í fjölmiðlum í gær að hæstv. forsrh. telur að það muni koma í sinn hlut að úrskurða hvort forsetinn hafi heimild til synjunar. Ég held að hæstv. forsrh. verði að hreinsa loftið aðeins. Er rétt eftir honum haft? Ef svo er, hvaða rök í ósköpunum hefur hæstv. forsrh. í höndunum til þess að reyna að réttlæta þessa fráleitu staðhæfingu? Ég lít svo á að hér sé hæstv. forsrh. enn einu sinni að ögra forseta lýðveldisins.