Synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:14:34 (9140)

2004-05-27 10:14:34# 130. lþ. 128.91 fundur 601#B synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Það er athyglisvert að hlýða á hv. þm. Pétur Blöndal upplýsa að hann hafi verið að svindla með kennitölu sína til þess að reyna að draga úr gildi þeirra upplýsinga sem forseti Íslands hefur fengið. Ég held að forseti sé alveg fullfær um að meta gildi þeirra upplýsinga sem hann hefur fengið, sumpart með bréflegum undirskriftum, sumpart í tölvupósti. Það er öllum ljóst að það kann að þurfa að hafa í huga að þarna sé þá ekki um eins nákvæma tölu að ræða og ella eða ástæða sé til að fara yfir það og skoða hvort menn séu tvískráðir o.s.frv.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. forsrh. Mér finnst að hæstv. forsrh. skuldi okkur hér á þingi upplýsingar um það: Hvenær verða lögin send forseta? Er verið að bíða eftir ferjumanni yfir Skerjafjörð? Hverju sætir töfin?

Forseti lýðveldisins fer með málskotsréttinn fyrir hönd þjóðarinnar. Það er þjóðin sem auðvitað á hann og ég veit ekki hvar í veröldinni menn væru staddir á einu löggjafarþingi ef virkja ætti eina ákvæðið sem stjórnskipun okkar geymir beint um milliliðalaust lýðræði, um þjóðaratkvæði, öðruvísi en til að greiða götu þess og drífa í því í hvelli að gera nauðsynlegar ráðstafanir að lögum og í framkvæmd til þess að slík kosning færi fram og heiðraður væri þessi réttur þjóðarinnar. Hér háttar svo til hjá okkur að stjórnarskráin geymir ekki önnur úrræði í þessum efnum. Við höfum ekki í stjórnskipun okkar eða lögum t.d. möguleika á að kalla fram þjóðaratkvæði með undirskriftum eða áskorunum kjósenda eins og víða er annars staðar. Þetta er hinn eini réttur af þessu tagi sem til staðar er og aldrei hefur það hvarflað að mér fyrr en nú síðustu sólarhringa að annað gæti nokkurn tíma komið til greina en að virða hann skyldi á þetta reyna.