Synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:16:49 (9141)

2004-05-27 10:16:49# 130. lþ. 128.91 fundur 601#B synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:16]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Virðulegi forseti. Það er reyndar ekki rétt hjá hv. þingmanni að ekki séu nein önnur ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er reyndar í stjórnarskránni um þjóðaratkvæðagreiðslu í öðrum tilvikum. (SJS: Það er stjórnarskrárbundið.) Já, það eru sem sagt aðrir möguleikar, þetta var rangt hjá hv. þingmanni.

Af hverju þessi umræða um þetta efni? Hefur forseti Íslands gefið einhverjum til kynna að hann sé að velta fyrir sér að skrifa ekki undir þessi lög? Ég hef hvergi heyrt það. Ég hef ekki heyrt það frá honum. Hafa hv. þm. heyrt það frá honum? (Gripið fram í: ... ykkur.) Hafa hv. þm. heyrt það frá honum, fyrrverandi aðstoðarmenn forseta, hafa þeir heyrt það frá forseta? (Gripið fram í.) (Gripið fram í: ... upplýsingar ...) Það hefur sem sagt enginn heyrt það frá forseta samkvæmt þessu, meira að segja gjammið hérna breytir því ekki. Það hefur sem sagt enginn heyrt frá forseta að hann sé að velta því fyrir sér. Þess vegna verðum við að líta á þessi lög nákvæmlega sem önnur lög sem til forseta fara. Það er ekki um neitt annað að ræða í því efni.

Nú er það hins vegar þannig varðandi neitunarvaldið, fræðilega, að um það deila lögspekingar, jafnvel meiri lögspekingar en hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, jafnvel meiri, þó að hann telji sig vera mjög færan í þessari grein, sýnist mér, jafnvel meiri. Jafnvel meiri en hv. þm. Össur Skarphéðinsson, meiri lögspekingar en hann deila um það hvort (MÁ: Meiri en Davíð Oddsson?) rétturinn sé fyrir hendi. Þá er það svo, ef þetta kæmi einhvern tíma til, nú eða síðar, verður framkvæmdarvaldið að velta fyrir sér hvað það eigi að gera.

Vísustu fræðimenn halda því sumir fram að þessi réttur sé ekki fyrir hendi. Aðrir fræðimenn halda því fram að hann sé fyrir hendi. Þá verður framkvæmdarvaldið að leggja eitthvert mat á það með einhverjum hætti. Það er ekki að úrskurða um eitt eða neitt. (Gripið fram í: Hannes Hólmsteinn?) Þetta liggur í augum uppi, það er ekki að úrskurða um eitt eða neitt. Það liggur bara í augum uppi. Þetta er bara venjulegt frv. sem lýtur venjulegum lögmálum og fer á venjulegum hraða í sína meðferð, alveg eins og öll önnur frv. Það er ekki flóknara en það. (SJS: Löggjafinn lætur rétt þjóðarinnar njóta vafans.)