Loftferðir

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:26:26 (9143)

2004-05-27 10:26:26# 130. lþ. 128.17 fundur 945. mál: #A loftferðir# (Montreal-samningurinn, EES-reglur o.fl.) frv. 88/2004, EMS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:26]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar er í raun samstaða um þetta mál í samgn. eins og svo sem um flest mál sem þar hafa verið til umfjöllunar í vetur. Er rétt að nota tækifærið til að þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir býsna góða stjórn á þeirri nefnd og hversu mikið hann hefur leitað eftir því að ná samstöðu í nefndinni um mörg stór og mikilvæg mál.

Það er aðeins eitt mál sem ég tel rétt að vekja sérstaka athygli á. Það kemur fram í nefndarálitinu og varðar flugmálastjórnarákvæði á Keflavíkurflugvelli og öðrum flugvöllum landsins. Það er afar sérstakt að Keflavíkurflugvöllur nýtur sérstakrar stjórnar og það kemur fram í umsögnum ýmissa aðila að þarna beri að leita sparnaðar og aðhalds. Ég vil taka sérstaklega undir það að þetta mál er afskaplega mikilvægt til skoðunar, þ.e. að reyna að samræma yfirstjórn með flugvöllum landsins. Það vekur athygli að Keflavíkurflugvöllur skuli vera með sérstaka flugmálastjórn vegna þess að þrátt fyrir að við höfum nú tekið að okkur rekstur flugvalla utan Íslands í nokkrum löndum heyra þeir flugvellir undir samgrn. meðan Keflavíkurflugvöllur heyrir undir utanrrn. Þetta er mál sem við þurfum að taka til athugunar og það kemur fram í nefndarálitinu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin telur þó fulla ástæðu til að taka þessar athugasemdir til frekari skoðunar og mun hún gera það á næstu mánuðum.``

Ég tek sérstaklega undir þessa setningu vegna þess að það er afar mikilvægt að samgn. skoði málið vandlega. Ég vek aðallega athygli á því að við leitum hagkvæmninnar og þess hvernig má spara í þessum málum. Það hlýtur að vera eðlilegt að við horfum til þess að þetta heyri undir Flugmálastjórn Íslands en að ekki sé sérstök Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem hugsar um þennan eina flugvöll. Það hlýtur að vera eðlilegt að við veltum því fyrir okkur hvort ekki megi spara og samræma hluti þrátt fyrir að það hafi að vísu komið fram hjá ýmsum gestum nefndarinnar að þarna væri býsna gott samstarf. Ég lít engu að síður svo á að þetta góða samstarf segi okkur að engin ástæða sé til að aðskilja þessa þætti og við hljótum að velta því mjög alvarlega fyrir okkur á næstu mánuðum, eins og segir í nefndarálitinu, að þetta verði samræmt á þann hátt sem hlýtur að vera einfaldastur og skila sparnaði, þ.e. þetta heyri allt saman undir Flugmálastjórn Íslands.