Loftferðir

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:41:47 (9147)

2004-05-27 10:41:47# 130. lþ. 128.17 fundur 945. mál: #A loftferðir# (Montreal-samningurinn, EES-reglur o.fl.) frv. 88/2004, EMS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:41]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Mér finnst ástæða til að koma hingað og taka sérstaklega undir með hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni þar sem hann vekur athygli á, eins og ég hef gert áður, þessari tvískiptingu á flugmálastjórnum hér á landi. Það er auðvitað einstakt í hinum vestræna heimi í dag að það sé tvöfalt kerfi. Mér finnst ástæða til að vekja sérstaka athygli á þessu vegna þess að það sýnir að þetta mál er alveg þverpólitískt, það fer ekki eftir flokkslínum heldur er þetta sameiginlegt áhugamál þeirra sem leita eftir því að stjórnsýslan sé einfölduð og leitað sé sparnaðar á öllum sviðum.

Málið er býsna mikilvægt og það er mikið gleðiefni að ekki skuli vera flokkadrættir í því. Það er sérstakt fagnaðarefni að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, formaður samgn., skuli taka með jafneindregnum hætti undir þessi sjónarmið þannig að ég trúi því og treysti að nefndin muni skoða þetta alveg sérstaklega á næstu mánuðum og vona að helst á næsta þingi, á vetri komanda, verði lagðar fram tillögur um það að þetta verði samræmt undir eina flugmálastjórn sem eðlilegt er að sé Flugmálastjórn Íslands. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni er afar sérstakt að Flugmálastjórn Íslands hafi með að gera flugvelli víðar en á Íslandi en undanskilinn er einn flugvöllur sem starfræktur er á Íslandi. Það hlýtur að vera eðlilegt að við horfum til þess að samræma þessa hluti og ég trúi því og treysti að það sé samstaða um það í samgn. --- enda hefur ekki annað komið fram --- að yfir þessi mál verði farið af gaumgæfni og vonandi verða lyktir máls þannig að við getum lagt hér fyrir þingið frv. um að þessir hlutir verði samræmdir þannig að allir flugvellir á Íslandi heyri undir Flugmálastjórn Íslands.