Umferðarlög

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 11:21:17 (9153)

2004-05-27 11:21:17# 130. lþ. 128.19 fundur 464. mál: #A umferðarlög# (öryggi barna, gjöld, EES-reglur o.fl.) frv. 84/2004, Frsm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[11:21]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Frú forseti. Bara í örstuttu máli vil ég bregðast við því sem kom fram hjá þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Í fyrsta lagi ætla ég að víkja að því sem hv. þm. Þuríður Backman kom að í sambandi við 4. gr. Það er rétt að það er viðurkennt að því miður héldu Íslendingar ekki vöku sinni þegar stóri bróðir í Brussel setti þessi lög um hvíldarákvæði. Það hefði eflaust haft töluverð áhrif á allt ef fulltrúar okkar hefðu þar haldið vöku sinni og náttúrlega þeir aðilar sem hér eiga hagsmuna að gæta.

Hins vegar benti hv. þm. líka á að þessi hvíldarákvæði eru í skoðun og náttúrlega er það alveg rétt líka sem kom fram hjá hv. þingmanni að þetta er miðað við hin stóru lönd þar sem bílstjórar eru jafnvel akandi sólarhringum saman á milli landa. Hér eru allt aðrar aðstæður.

Varðandi athugasemdir lögreglunnar um rétt þann sem hér er verið að færa vegagerðarmönnum eftir nánari reglum og starfsþjálfun sem dómsmrh. mun gera kröfu til er það nú svo að Vegagerðin borgar í dag á annað hundrað milljónir til lögreglunnar vegna þessa eftirlits. Vegagerðin hefur sinnt þessu mjög vel í samstarfi við lögregluna en það er ekki ástæða talin til að hafa lögreglumann með vegagerðarmanni vegna þess sérstaklega, eins og tekið er hér fram, þar sem vegagerðarmenn eiga að skoða upplýsingar sem varðveittar eru í ökurita ökutækis, á ökuritakorti eða með öðrum hætti. Eftirlitið verður þá auðvitað einskorðað við þetta. Auðvitað skiptir líka þungi bifreiðar og fleira slíkt máli.

Varðandi það sem var rætt um áðan og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á í sambandi við þessi mótordrifnu hlaupahjól og þá líka hjól með skellinöðrumótorum sé ég það fyrir mér að þá muni gerast það sama og þegar fyrsti bíllinn var fluttur til landsins. Það var ekki fyrr en þá eiginlega að vegagerð hófst af einhverjum krafti. Ég sé fyrir mér varðandi þessi hlaupa- eða stighjól með hjálparmótorum, rafknúnum, að það muni eflaust leiða til þess að margir muni skilja bílinn sinn eftir heima á sumardögum og fara heldur í vinnuna á þessum hjólum. Ég tel að alveg öndvert við það sem hv. þm. talar um, að þetta verði mengunarvaldandi, þ.e. þessir skellinöðrumótorar þar sem þeir verða notaðir á t.d. reiðhjól, muni þetta leiða til þess að bíllinn verði minna notaður og jafnvel þessi hjól þá í ríkari mæli notuð í staðinn.

Alltaf kemur upp það sama. Nú miðum við við hraða frá 8--15 km og það er strax farið að segja: Hvað með þá sem eiga hjól sem geta keyrt á 20 km hraða og þá sem eiga þá næstu fimm km þar fyrir ofan o.s.frv.? Ég tel að auðvitað eigi að skoða þetta allt saman en það var rétt hjá þingmanninum að við eigum að stíga varlega til jarðar í þessu máli, eins og líka kom fram hjá hv. þm. Þuríði Backman. Ég held að við gerum það með því að samþykkja þetta lagafrv. með þessum hraðamörkum þar sem við förum hæst upp í 15 km og sjáum hvernig þetta reynist á hjólastígunum sem við eigum nú orðið allmikið af. Hægt er t.d. núna í Reykjavík að fara á þessum hjólastígum alveg frá Seltjarnarnesi og nánast upp í Rjúpnahæð. Svo mjög hefur þessum samgönguþáttum fleygt fram.

Varðandi þann hraða sem verið er að tala um núna og hávaða í skellinöðrum hefur tækninni fleygt það fram að það er orðin gjörbylting á þessum mótorum. Það er varla að þeir standi undir nafninu skellinöðrur því að þetta eru í raun og veru það þýðir mótorar sem lítið heyrist í.

En allt um það, hér er um mikla nýjung og framfaraspor í samgöngumálum að ræða sem ég hef trú á að muni breyta nokkru, a.m.k. yfir sumarmánuðina, hér á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel leiða til þess að eitthvað muni umferð minnka. Það var a.m.k. von okkar þegar málið var rætt í samgn.