Umferðarlög

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 11:26:25 (9154)

2004-05-27 11:26:25# 130. lþ. 128.19 fundur 464. mál: #A umferðarlög# (öryggi barna, gjöld, EES-reglur o.fl.) frv. 84/2004, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[11:26]

Þuríður Backman (andsvar):

Frú forseti. Það skyldi þó aldrei vera að um leið og farartækin mótorvæðast verði orðið við tilmælum þrýstihópa. Þeir sem stunda hjólreiðar í dag eru kannski hljóðlátari þrýstihópur en þeir sem verða komnir mótorvæddir í framtíðinni. Það er mikilvægt að halda áfram að byggja upp reiðhjólastíga sem tengingu jafnhliða vegakerfinu.

Það var samt ekki þess vegna sem ég kom upp, frú forseti, heldur vegna þessa ákvæðis um að Vegagerðin megi stöðva bifreiðar. Auðvitað lesa starfsmenn Vegagerðarinnar af mælunum og athuga með þungaflutningabílana og allt slíkt en það er það að stöðva bifreið, að hafa heimild til að stöðva bifreið og vísa henni út í kant svo að hægt sé að lesa af mælunum, sem ég tel að geti verið nokkur áhætta. Segjum sem svo að vörubílstjóri viti að hann standist ekki skoðun Vegagerðareftirlitsins og gefi í í staðinn fyrir að stöðva, þá er þarna ákveðin slysahætta sem ég tel að væri síður ef það væri óyggjandi lögreglan sem stöðvaði bílinn en Vegagerðin sinnti svo sínum störfum. Það er verið að spara hjá Vegagerðinni með því að kaupa ekki þessa þjónustu lögreglunnar en allt kemur þetta jú úr sama sjóði. Þarna finnst mér að við eigum ekki síður að horfa á öryggisþáttinn en akkúrat það hvort það er Vegagerðin eða lögreglan sem greiðir.