Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 11:44:19 (9161)

2004-05-27 11:44:19# 130. lþ. 128.24 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[11:44]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er í sjálfu sér ákaflega glaður yfir því að þetta mál skuli vera komið á lokastig afgreiðslu í þinginu. Ég hef beðið eftir því árum saman og innan Þingvallanefndar þrýst ákaflega á um það að hæstv. forsrh. legði að lokum þetta mál fram í þeim búningi sem við höfum það fyrir okkur til samþykktar.

Mér eru Þingvellir ákaflega kærir og ég hef alltaf verið mjög hrifinn af þessari sérstöku tengingu þjóðgarðsins og Alþingis. Í hinum upphaflegu lögum frá 1928 segir að hið friðlýsta land skuli vera undir vernd Alþingis. Þeirri málsgrein, því orðalagi er haldið í frv. með þeim breytingum sem hv. þm. Bjarni Benediktsson lýsti hér áðan. Ég rifja það upp að í 1. umr. um málið nefndi ég t.d. að Alþingi þyrfti með einhverjum hætti að koma enn frekar að þjóðgarðinum og hafa þar táknræna sveitfesti ef svo má að orði komast. Ég lagði þá til að Alþingi ætti í framtíðinni að eignast þar með einhverjum hætti bústað sem alþingismenn og forsn. þingsins hefðu til umráða. Mér finnst það sjálfsagt. Það hefði líka enn frekar lagt áherslu á þessi tengsl.

Nú langar mig, herra forseti, að spyrja hv. þingmann og framsögumann nál. allshn. hvernig hann sjái tenginguna við Alþingi. Þjóðgarðurinn á að vera undir vernd Alþingis en er það ekki hortittur og skavanki að svo sé lagt til í brtt. að forsrh. skuli skipa formann og varaformann? Mér finnst það mjög umhendis. Ég hefði miklu frekar viljað sjá að það væri forseti sem gerði þetta. Ég spyr hv. þingmann hvort honum finnist þetta ekki vera þverstæða og hvers vegna ekki hefði mátt hafa þetta með þessum hætti þó að ég hafi ekkert á móti því stjórnsýsluhlutverki sem forsrn. gegnir gagnvart þjóðgarðinum, eins og kom líka fram hjá þingmanninum.