Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 13:57:06 (9182)

2004-05-27 13:57:06# 130. lþ. 128.2 fundur 341. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (tryggingaráð, skipulag TR o.fl.) frv. 91/2004, ÞBack (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[13:57]

Þuríður Backman (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með frv. var verið að bregðast við breyttu hlutverki tryggingaráðs og nýju skipulagi Tryggingastofnunar. Gert var ráð fyrir að Alþingi kysi áfram tryggingaráð og það starfaði áfram sem eftirlits- og ráðgjafarráð. Tryggingastofnun ríkisins gegnir mjög mikilvægu hlutverki í velferðarþjónustunni og hefur mikla sérstöðu sem stofnun.

Í meðferð hv. heilbr.- og trn. var tryggingaráði breytt í ráðherraskipaða rekstrarstjórn sem á að vera yfir forstöðumanni. Að mati Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs þarf að fara fram gagnger umræða um stjórnsýslulega stöðu stofnunarinnar, þ.e. hvort styrkja eigi sjálfstæði hennar eða hafa hana sem framlengdan arm heilbrrn., eins og gert er ráð fyrir í brtt. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs styðja þann þátt frv. sem lýtur að óbreyttu kjöri fulltrúa í tryggingaráð, þ.e. að Alþingi kjósi fulltrúa. Við teljum að öll pólitísk, jafnt og fagleg, sjónarmið eigi að koma fram í stjórn Tryggingastofnunar ríkisins.