Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 14:27:25 (9195)

2004-05-27 14:27:25# 130. lþ. 128.8 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, MÞH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[14:27]

Magnús Þór Hafsteinsson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta vonda mál sem virðist vera að fara í gegnum hið háa Alþingi er ekkert annað en gerræðisleg atlaga gegn fólki í sjávarbyggðum hér á landi. Það mun leiða til eignarýrnunar og eignamissis hjá fjölda fólks á sama tíma og það mun leiða til þess að örfáum útvöldum einstaklingum verða færð verðmæti fyrir tugi ef ekki hundruð milljóna króna, verðmæti sem þeir eiga alls ekki skilið að fá.

Ég vil fyrir hönd þingflokks Frjálsl. mótmæla harðlega þeirri málsmeðferð sem hefur átt sér stað. Hún er gersamlega makalaus. Öll vinnubrögð í kringum þetta mál eru forkastanleg og það kom greinilega fram í umræðum hér á hinu háa Alþingi í nótt hversu illa málið er undirbúið, hversu vanreifað það er. Stjórnarliðar ætla að fara í þessa kvótasetningu án þess að hafa nein gögn í höndunum sem sýna fram á að þetta sé nauðsynlegt. Það er ekkert sem bendir til þess að það sé einhver þörf á að gera þetta. Það eru miklu fleiri rök og líka athugasemdir og ábendingar frá fólki sem vinnur í þessari grein, frá fólki sem á allt undir því að dagakerfið fái að halda áfram, en þau veiku rök sem stjórnarliðar reyna nú að færa fram fyrir tilstilli lítillar klíku manna sem hefur vaðið hér uppi á göngum Alþingis og á fundum sjútvn. og fengið óheftan aðgang að stjórnarliðum og þingmönnum, beitt hér blekkingum, fölsunum og ósannindum. Ég mótmæli þessu.

(Forseti (SP): Forseti vill minna hv. þingmann á að gæta að sér í orðum sínum á hinu háa Alþingi.)