Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 14:29:11 (9196)

2004-05-27 14:29:11# 130. lþ. 128.8 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, HjÁ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[14:29]

Hjálmar Árnason (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eftir þá lýðræðislegu og málefnalegu atkvæðaskýringu sem hér fór fram er rétt að leggja áherslu á það að með því frv. sem nú er til afgreiðslu og umfjöllunar ásamt þeim brtt. sem gerðar hafa verið af meiri hluta hv. sjútvn. er verið að koma til móts við vilja yfirgnæfandi meiri hluta þeirra sem eru í dagakerfi. Með þessu er verið að auka stöðugleika í rekstri á þessum bátum sem hafa verið í dagakerfinu. Með þessu er verið að leggja grunninn að því að þeir sem hafa verið í dagakerfinu geti farið að stunda sjósókn sína með betra skipulagi, meiri yfirvegun, geti átt betri samverustundir með fjölskyldum sínum og þar fram eftir götunum. Með þessu er verið að festa og tryggja betur afla í einstökum byggðarlögum og verið að festa í sessi þann útgerðarflokk sem er kallaður trillur. (Gripið fram í.)

Síðast en ekki síst, virðulegur forseti, er með þessu verið að einfalda fiskveiðistjórnarkerfið og þar með leggja grunn að aukinni sátt innan þeirrar greinar sem er löngu tímabært.