Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 15:22:24 (9207)

2004-05-27 15:22:24# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, SJS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Nú standa mál þannig af sér að þing hefur staðið um 20 dögum lengur en starfsáætlun gerði ráð fyrir af alkunnum ástæðum. Engu að síður er svo komið að ástæða er til að ætla að þinghaldinu gæti lokið með nokkuð eðlilegum hætti á næstu 1--2 sólarhringum eða svo, enda sé þá til staðar vilji af hálfu allra aðila að leggja til hliðar erfiðustu ágreiningsmál og ljúka þinghaldinu með þeim hætti sem venja er, menn sem sagt fresti því sem ekki þarf nauðsynlega að afgreiðast og nái saman um þinglokin. Það er því í sjálfu sér ekki óeðlilegt að till. til þál. um þingfrestun komi fram á þessum tímapunkti.

Hitt er annað og lakara að hæstv. forsrh. treysti sér ekki í morgun til að gefa nein svör við beinum spurningum sem fram voru bornar af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og mér um það hverju það sætti að hæstv. forsrh. hefði ekki sent forseta Íslands til afgreiðslu hin umdeildu fjölmiðlalög. Þegar eru vaknaðar grunsemdir um að af einhverjum undarlegum ástæðum sé hæstv. forsrh. að draga það og eðlilega velta menn því þá fyrir sér hvort það sé til þess að þingið verði farið heim áður en á það reynir eða í ljós koma viðbrögð forseta lýðveldisins.

Það væri óskynsamlegt og er mjög óheppilegt að ljúka þinghaldinu í óvissu um hvað kunni að vera fram undan í þeim efnum 1--3 sólarhringum áður en á það reynir og það kemur í ljós. Það er alveg ljóst að gerðist það að forseti nýtti málskotsréttinn kæmi væntanlega til þeirra kasta Alþingis í beinu framhaldi að gera lagalegar ráðstafanir til að kosningin færi fram. Ég vísa aftur í því sambandi í fordæmið frá 1944 þegar ályktun Alþingis um að segja upp sambandslagasamningnum frá 1918 var fylgt eftir mánuði síðar með lagasetningu um hvernig sú kosning færi fram, hvernig sú þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram. Það var reyndar kosið um tvennt í einu, þ.e. uppsögn samningsins og nýja stjórnarskrá á tvískiptum atkvæðaseðli.

Hvernig sem því yrði háttað að þessu sinni er held ég alveg ljóst að þetta væri hinn eðlilegasti gangur mála.

Ég ítreka nú spurningarnar til hæstv. forsrh. og treysti því að hæstv. forsrh. gefi hér skýr svör. Það er alveg augljóst mál að það ber honum að gera og Alþingi á heimtingu á því að vera upplýst um stöðuna í þessum efnum. Úr því að menn hafa það við að rökræða við fjölmiðla dögum oftar og skrifa langar blaðagreinar um álitamálin sem þarna eru uppi hljóta menn að virða Alþingi svars þegar túlkun á sjálfri stjórnskipun lýðveldisins er undir, túlkun sem ég reyndar botna ekkert í. Jafnvel þó svo að menn væru á fræðilegum forsendum eitthvað ósammála um hvort málskotsrétturinn væri ótvíræður og skýr hefur það aldrei hvarflað að mér fyrr en á síðustu dögum að til greina kæmi að láta þá ekki lýðræðið og þjóðina njóta vafans í því tilviki. Ég bíð alveg eftir að heyra röksemdirnar fyrir því að gera það ekki. Ef einhver á að eyða óvissunni í þeim efnum er það hv. Alþingi sem auðvitað hlýtur að komast að þeirri niðurstöðu að standa beri við orð stjórnarskrárinnar samkvæmt þeirra hljóðan og láta þjóðina, lýðræðið, njóta vafans og óvissunnar ef einhver er.

Fari engu að síður svo að ekki verði kominn botn í þetta mál í gegnum svör hæstv. forsrh. hér, og þá viðbrögð forsetans sem auðvitað væri heppilegast að kalla strax fram með því að senda málið í dag eða í fyrramálið þannig að það væri a.m.k. orðið ljóst áður en þing fer að tygja sig heim annað kvöld eða á laugardaginn eða hvenær sem það verður, hvort viðbrögð forsetans verða einhver önnur en þau að undirrita lögin strax, vil ég beina viðbótarspurningu til hæstv. forsrh. og hún er á þessa leið: Er ekki algjörlega ótvírætt og ljóst að dragi til óvæntra tíðinda af því tagi sem ég hef verið að reifa og hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. og fleiri menn hafa gert að umtalsefni, bæði í þingræðum og blaðagreinum, verði eitt fyrsta verk forsrh. að kalla Alþingi saman á nýjan leik hafi það lokið störfum á þessu vori?