Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 15:30:01 (9209)

2004-05-27 15:30:01# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki þannig að hæstv. forsrh. ákveði fyrir hönd okkar allra hvað eigi erindi í þessa umræðu og hvað ekki. Hæstv. forsrh. ákveður það a.m.k. ekki fyrir mig hvað á erindi í þessa umræðu um tillögu til þingsályktunar um frestun þinghaldsins.

Ég bar fram réttmætar, rökstuddar og gildar spurningar. Ég harma það að hæstv. forsrh. skuli ekki virða þær viðlits og ekki sýna lit í að svara þeim. Það eykur mjög á þær grunsemdir sem uppi eru, um að hér sé einhver annarlegur skollaleikur í gangi.

Í öðru lagi er rangt hjá hæstv. forsrh., a.m.k. ekki rétt munað, að því hafi aldrei verið hreyft hvort ekki ætti að botna þetta mál með málskotsréttinn og setja um það lög hvernig kosningar færu fram ef gripið væri til hans. Fyrir ekki meira en 2--3 árum síðan spurði ég einmitt hæstv. forsrh. í formi fyrirspurnar að nákvæmlega þessu. Það var ekki í fyrsta sinn sem ég hreyfði því máli. Ég hef nefnt það við endurskoðun stjórnarskrárinnar á umliðnum árum og oftar, að ég hygg. Ég spurði hæstv. forsrh. hvort hann sæi ástæðu til að setja lög til að þau lægju fyrir tilbúin til að grípa til þeirra ef á þyrfti að halda. Ég gerði það í framhaldi af vangaveltum sem þá voru uppi og áskorunum á forseta lýðveldisins um að beita málskotsréttinum. Mig minnir að hæstv. forsrh. hafi að vísu svarað þannig að hann sæi ekki ástæðu til þess, og þá það.

Síðan vil ég í þriðja lagi mótmæla því að látið sé að því liggja að við séum upphafsmenn vangaveltna um það að forsetinn kunni að grípa til málskotsréttarins. 32 þúsund Íslendinga hafa skorað á forsetann að gera það. Hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fjölluðu allir um þetta í ræðum sínum á sama deginum, í formi ögrana að vísu í garð forsetans ef hann skyldi grípa til réttarins. Fræðimenn hafa rætt um þetta o.s.frv. Ég vísa því til föðurhúsanna að þar sé við okkur að sakast.