Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 15:35:59 (9213)

2004-05-27 15:35:59# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Það er vísast rétt hjá hæstv. forsrh. að í 60 ár hafi enginn þingmaður lagt fram frv. um hvernig eigi að haga þjóðaratkvæðagreiðslum af því tagi sem áðan voru nefndar. En þjóðin hefur heldur aldrei haft forsrh., í 60 ár, sem túlkar stjórnarskrána með þessum hætti. Það hefur aldrei komið fram stjórnmálamaður sem hefur sagt með viðlíka hætti og hæstv. forsrh. Davíð Oddsson að forseti Íslands hafi ekki hinn ótvíræða málskotsrétt sem næstum því allir fræðimenn á sviði lagavísinda, sem hafa tekið til máls undanfarnar vikur, hafa staðfest að þeir telji að hann hafi, að undanteknum lögvitringnum, hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni.

Síðast í gær tóku tveir prófessorar af allan vafa um að svona bæri að túlka þetta. Ég ætla ekki í rökræður við hæstv. forsrh. um það sem Bjarni Benediktsson hefur sagt en vísa þó til þess sem haft var eftir honum í Morgunblaðinu í dag, úr gömlu viðtali Matthíasar Johannessens, fyrrverandi ritstjóra, við hann. Hann segir, eftir að hafa bent á ákveðnar takmarkanir, að það verði að treysta forsetanum til að fara með þann rétt af ábyrgð. Ég held að hæstv. forsrh. ætti að láta sér þetta að áhrínsorðum verða.

Hæstv. forsrh. ætti að leyfa forseta lýðveldisins að komast sjálfum að eigin niðurstöðu en standa ekki stöðugt eins og nautabani með rauða dulu að ögra öllum í kringum sig í þessu máli. Ég mótmæli því líka þegar hæstv. forsrh. talar með þeim hætti sem hann gerir í dag um vilja tuga þúsunda Íslendinga. Er það virkilega þannig að hæstv. forsrh. haldi því fram að tugir þúsunda landsmanna sem hafa tjáð vilja sinn varðandi þessi lög skipti ekki máli? Er það þannig að hæstv. forsrh. haldi því fram að obbi þessara undirskrifta sé falsaður? Það er með ólíkindum þegar menn, sem í reynd hafa tapað máli gagnvart þjóðinni, haga sér með þessum hætti. Menn eiga að vera stórir í sigrum en menn þurfa að vera enn stærri í töpum. Þannig er það, frú forseti.

Mér finnst undarlegt svo ekki sé meira sagt að heyra hæstv. forsrh. tala um að það eigi ekki að ræða þessi mál og menn séu með getgátur. Ja, heyr á endemi, frú forseti. Hver hefur verið með getgáturnar? Hver hefur farið um fjölmiðlana eins og foli á góðum vordegi og spænt upp þessi mál eins og hæstv. forsrh.? Er það svo að ég sé farinn að reskjast svo illa að mig bresti minni eða var það ekki hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sem skrifaði einmitt opnugrein í Morgunblaðið um það hvað mundi gerast ef forsetinn beitti þessum málskotsrétti? Var það ekki hæstv. forsrh. og ýmsir kumpánar hans, víðs vegar um samfélagið, sem voru með tiltölulega nöktum hætti að hóta langvinnri og illvígri stjórnskipunarkreppu ef forseti lýðveldisins notfærði sér ákvæði stjórnarskrárinnar til þess að beina til þjóðarinnar umdeildu máli? Var það ekki hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem í tveimur ræðum á síðustu vikum gerði þennan möguleika að umræðuefni? Var ekki fyrra skiptið fyrsta skiptið sem nokkur þingmaður tók það hér upp? Var það ekki líka hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde sem vakti mikla athygli í annars ágætri eldhúsdagsræðu á mánudagskvöldið þegar hann fór líka í föt hæstv. forsrh. og var enn með hótanir, gagnvart forseta lýðveldisins? Hvað sagði hæstv. fjmrh.? Hann sagði að ef forseti lýðveldisins mundi notfæra sér það sem við hefðum einhvern tíma sagt að væri helgur réttur, helgur vegna þess að hann er vafinn í klæði stjórnarskrárinnar, þá yrði íslenska þjóðin að athlægi. Hvað þýða svona ummæli?

Frú forseti. Einhver hefði kallað þetta annað og meira en getgátur. Þannig er með engu móti hægt að koma, eins og hæstv. forsrh. gerir, og láta eins og menn hafi með ósæmilegum hætti dregið þetta inn í umræðu um þingfrestun.

Nú skal ég segja mína skoðun í þessu máli, frú forseti, og það sem ég hefði gjarnan viljað fá hvíslað í eyra hæstv. forsrh. fyrr í vikunni. Fyrr í þessari viku samþykktum við þessi lög. Þá lá fyrir að þingið yrði hér að öllum líkindum alla þessa viku. Það hefði verið í anda lýðræðislegra starfshátta að hæstv. forsrh. hefði þá lagt allt kapp á að koma þessum lögum til forseta í þeirri von að forseti tæki ákvörðun tiltölulega fljótt um þetta mál vegna þess að mér finnst það lýðræðislegur réttur minn sem alþingismanns að fá í kjölfar slíks atburðar, ef til synjunar kæmi, að ræða við hæstv. forsrh. um það sem mér finnst vera algerlega fráleit túlkun hans á hans eigin hlutverki í þeirri atburðarás sem þá kynni að vinda fram. Mér finnst að hæstv. forsrh. hefði átt að fara svona að. En ég skynja það á öllu að hæstv. forsrh. vill ekki svara til um þetta. Hann vill greinilega losna við þingið úr þessum sölum, fá þingmenn heim, áður en sú atburðarás hefst. Þá telur hann kannski að hann hafi sviðið betur undir til að geta komið sínum vonda málstað á framfæri.

Oft hefur mér fundist hæstv. forsrh. hafa góðan málstað og stundum hefur mér fundist hann hafa vondan málstað. En aldrei hef ég heyrt jafnafleitan málstað hjá hæstv. forsrh. og í þessu máli. Hver var sá eini sem hægt var að draga fram til að verja túlkun hæstv. forsrh.? Jú, það var prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson, ekki giska fjarskyldur pólitískur ættingi hæstv. forsrh. Hver voru rökin sem prófessorinn var látinn prófa á samfélaginu? Rökin voru þau að það hlyti að vera forsrh. sem mundi í reynd úrskurða um það hvort forseti gæti beitt ákvæði stjórnarskrárinnar til málskots vegna þess að samkvæmt reglugerð um verkaskiptingu Stjórnarráðsins væri forsetaembættið undir forsrn. Frú forseti. Þetta þýðir í reynd að ef upp kæmu alvarleg álitamál um Hæstarétt þá mundi hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason taka sig til og úrskurða um það. Nei, frú forseti, svona gengur lífið ekki í lýðræðissamfélaginu á Íslandi. Svo einfaldir eru hlutirnir ekki.

Mér finnst það lýðræðislegur réttur alþingismanna, ef atburðarásin verður með þeim hætti sem tveir ráðherrar hafa vakið máls á í opinberri umræðu, að við alþingismenn fáum að ræða framvinduna. Þá ættum við að fá að ræða með hvaða hætti hæstv. forsrh. er að ásælast hluta af lagasetningarvaldi forsetans samkvæmt stjórnarskránni.

Að lokum, frú forseti. Það liggur fyrir að hæstv. forsrh. ætlar ekki að segja frá því hvenær hann hyggst senda forsetanum þessi lög. Í öðru lagi er það niðurstaða mín að hæstv. forsrh. vilji tefja það þangað til þingið er horfið heim. Mér finnst allar líkur á því að við ljúkum störfum á morgun eða annað kvöld. Ég tel að það væri mannsbragð að því hjá hæstv. forsrh. að gera reka að því að ljúka þessu máli af hans hálfu fyrir þann tíma.

Í þriðja lagi vil ég ítreka spurningu sem kom fram áðan: Getur ekki hæstv. forsrh. lýst því afdráttarlaust yfir að ef atburðarásin færi á þann veg, að forseti synjaði samþykkt laganna, þá mundi þing verða kallað saman hið fyrsta að því loknu?