Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 16:03:19 (9220)

2004-05-27 16:03:19# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Því miður heldur forsrh. hér áfram uppteknum hætti, svarar ekki beinum og hreinum efnisspurningum sem fyrir hann eru lagðar og fer reyndar með útúrsnúninga.

Auðvitað er hæstv. forsrh. vel ljóst að við erum ekki að tala hér um þegar afgreitt lagafrv. sem slíkt efnislega. Við erum að tala um það hvað gæti gerst ef til óvæntra tíðinda drægi og forseti Íslands staðfesti lögin ekki með undirritun sinni heldur ákvæði að grípa til málskotsréttarheimildar stjórnarskrárinnar og vísa því til þjóðarinnar.

Síðan segist hæstv. forsrh. ekki ætla að fara að taka hér þátt í getgátum og vangaveltum sem séu ósæmilegar um það hvað forsetinn kunni að gera. Af hverju var þá hæstv. forsrh. að spandera heilli blaðagrein í opnu Morgunblaðsins? Á hverju byggði hæstv. forsrh. það? Hvert var þá tilefni þeirrar blaðagreinar? Af hverju var þá atkvæðaskýring hæstv. forsrh. við atkvæðagreiðslu um fjölmiðlafrumvarpið eins og raun bar vitni? Það sneri eingöngu að þessum þætti. Af hverju réðist þá hæstv. fjmrh. á forsetann og hafði nánast í hótunum við hann ef hann skyldi dirfast að grípa til þessa valds? Og af hverju kom hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson inn á sama stef í sinni ræðu?

Ekki höfum við, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, verið með vangaveltur um þetta í Morgunblaðinu né í atkvæðaskýringum okkar. Við höfum eingöngu spurt hér efnisspurninga sem ætti að vera einfalt fyrir hæstv. forsrh. að svara. Hvað er svona erfitt við það að svara t.d. einni spurningunni með einföldu jái, að það sé alveg á hreinu að fyrsta verk forsrh. verði að kveðja þingið saman dragi til óvæntra tíðinda af því tagi sem ég hélt að ég hefði útskýrt nógu rækilega fyrir forsrh. hver væru?