Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 16:05:14 (9221)

2004-05-27 16:05:14# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Atkvæðaskýring mín sneri ekki að neinu leyti að synjunarvaldi forseta Íslands. Í atkvæðaskýringu minni vitnaði ég í orð þáverandi hv. alþingismanns, Ólafs Ragnars Grímssonar, sem taldi afar þýðingarmikið af efnislegum ástæðum að setja lög sem hindruðu samþjöppun fjölmiðla. Ég minntist ekki einu orði í atkvæðaskýringu minni á synjunarvald eða slíka hluti.

Ég vitnaði í þennan fyrrverandi forustumann, þáverandi forustumann hv. þingmanns ef ég man rétt. Ég held að þeir hafi verið þá í sama flokki og sennilega hafa þeir verið sömu skoðunar en ég man ekki hvort þeir voru sprungnir þá þegar milli sín. Ég vitnaði í það efni og ég býst við því að hv. þingmaður hafi verið sama sinnis.

Nú fær hann reyndar ráð frá samþingmanni sínum, við skulum sjá hvað hann segir.