Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 16:08:28 (9223)

2004-05-27 16:08:28# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, LB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það hefur verið fróðlegt að hlýða á þessar umræður sem hér hafa farið fram, í reynd merkilegar. Það er mikilvægt að þingið taki þessi mál til umræðu því að um er að ræða stjórnskipun þjóðarinnar og miklu skiptir að menn séu með það á hreinu hvernig henni er háttað.

Það sem vekur kannski sérstaka athygli í þessari umræðu er hinn undirliggjandi ótti við það að þjóðin fái að segja skoðun sína. Hann birtist hér í ræðum. Það er kannski það skrýtna í þessu því að við þingmenn höfum umboðið frá þjóðinni. Það er ekkert óeðlilegt að þjóðin taki annað slagið afstöðu til mála sem afgreidd eru á Alþingi, einkanlega ef menn telja að gjá hafi orðið milli þings og þjóðar.

Hugmyndir um að forsetinn hafi ekki þennan málskotsrétt eru algerlega nýjar af nálinni. Í reynd hafa verið færð mjög hæpin rök, a.m.k. að mínu mati, fyrir því. Það var samt ekki tilefni þess að ég óskaði eftir því að fá að taka til máls heldur fyrst og fremst það að hæstv. forsrh. er spurður um hvað gerist ef forseti Íslands undirritar ekki lögin. Hann segir í viðtali í Viðskiptablaðinu, með leyfi forseta:

,,Geri hann það ekki kæmi það líklega í minn hlut að kanna hvort hann hefði heimild til slíks.``

Það er þessi skoðun sem stjórnarandstaðan er ósammála, a.m.k. þeir sem hér hafa tjáð sig og sjálfsagt í heild sinni. Ég hef trú á því að það sé einnig hjá meirihlutaþingmönnum. Við teljum að þing eigi að kalla saman ef þessi staða kemur upp. Getgáturnar hafa kannski orðið til vegna þess að hæstv. forsrh. hefur varpað þessu á loft. Hæstv. forsrh. hefur varpað því á loft að komi til þess að forseti Íslands undirriti ekki lögin komi til hans kasta að fjalla um það hvort slík heimild sé til staðar eða ekki. Þessari skoðun hafa hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson mótmælt hér harðlega, og því eðlilega lagt fram þá eðlilegu spurningu til hæstv. forsrh. hvort þing verði ekki kallað saman strax ef svo fer að forseti nýti sér málskotsréttinn. Það eru hin eðlilegu viðbrögð að þingið komi saman, setji lög um það hvernig þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram.

Við köllum eftir þessu, einkanlega í ljósi þess að ef svo gengur eftir, sem menn telja, að þinginu ljúki fljótlega gæti svo farið að þingið sæti ekki þegar ákvörðun væri tekin og almennir þingmenn hefðu þess vegna ekki tök á því að tjá sig, a.m.k. ekki hér í þingsölum, um þessi mál eða leggja fram tillögur eða hugmyndir um það hvernig þetta eigi að líta út.

Það er þetta, virðulegi forseti, sem ég vildi vekja athygli á og er algerlega ósammála því að þetta komi til skoðunar hjá hæstv. forsrh. að öðru leyti en því að kalla saman þing. Mér finnst þetta vera skýr afstaða stjórnarandstöðunnar í þessari umræðu.