Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 16:12:22 (9224)

2004-05-27 16:12:22# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[16:12]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. nefndi að það virtist vera einhver ótti eða eitthvað þess háttar við þjóðaratkvæðagreiðslu sem réði einhverju um málatilbúnað minn. Nokkrum sinnum áður hefur komið upp umræða um að það ætti að skjóta málum með þessum hætti, þ.e. með því að beita synjun og fara gegn þinginu. Það hefur komið upp áður, sennilega heyrðist það hæst þegar EES-samningurinn var til umræðu. Þá fór fram í margar vikur alvöruundirskriftasöfnun þar sem menn skrifuðu sjálfir undir en ekki aðrir fyrir þá, meira að segja án þess að spyrja þá eins og maður hefur heyrt mörg dæmi um núna. (LB: Skrifa aðrir fyrir þá?) Aðrir fyrir þá, já, já, það var gert þannig. (MÁ: ... Pétur Blöndal? ... Hann gerði það sjálfur.) Það er sem sagt gert þannig.

Það var sem sagt alvöruundirskriftasöfnun þar sem menn skrifuðu sjálfir undir. Og þá man ég það, af því að ég var þá í ríkisstjórn, að Alþýðuflokkurinn, með hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Jóhönnu Sigurðardóttur innan borðs, var harður á móti því að slík þjóðaratkvæðagreiðsla eða synjun ætti að eiga sér stað. Nýverið var vitnað í leiðara Morgunblaðsins í orð formanns Alþýðuflokksins, Jóns Baldvins Hannibalssonar, um það efni sem voru mjög afdráttarlaus um það að forsetinn sem þá var væri að efna til stórstyrjaldar ef hann gerði það. Enginn hv. þm. Alþýðuflokksins mótmælti þeim sjónarmiðum þáverandi formanns Alþýðuflokksins sem voru mjög afgerandi og miklu meira afgerandi en ég hef nokkru sinni látið mér um munn fara í þessum efnum.