Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 16:16:06 (9226)

2004-05-27 16:16:06# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[16:16]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. forsrh. hefur yfirgefið salinn. Ég óska eftir því að hann verði viðstaddur þessa umræðu um þá þáltill. sem hér er borin fram um frestun á fundum Alþingis. Ég hef spurningar fram að færa við hæstv. ráðherra þannig að ég get ekki haldið áfram máli mínu nema hæstv. ráðherra sé hér viðstaddur.

(Forseti (SP): Ég geri ráð fyrir því, hv. þingmaður, að hæstv. forsrh. fylgist með þessari umræðu. Raunar gengur hann nú í salinn en ég vek jafnframt athygli á því að hann hefur verið viðstaddur þessa umræðu núna í allnokkurn tíma og tekið þátt í henni.)

Já, ég kem hér í ræðustólinn til þess að vekja athygli á því að við erum hér að ræða fyrsta málið, frestun á fundum Alþingis. Um það er ein umræða og væntanlega á að ganga hér fljótlega til atkvæða.

Ég treysti mér ekki til þess að greiða þessari tillögu atkvæði mitt nema hæstv. forsrh. svari þeim ítrekuðu spurningum sem hér hafa komið fram bæði frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Spurningin gekk út á það hvort hæstv. forsrh. mundi kalla þing saman strax ef svo færi að forseti þjóðarinnar undirritaði ekki fjölmiðlalögin. Þetta þarf að liggja fyrir áður en við göngum til atkvæða vegna þess að á því hefur t.d. verið vakin athygli að bráðabirgðalagavaldið vaknar og varla ætlar hæstv. forsrh. að setja bráðabirgðalög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu ef svo fer að forseti undirriti ekki lögin.

Ég treysti mér ekki til þess, virðulegi forseti, að greiða um þessa tillögu atkvæði nema fá skýr svör við þessu. Ég óska eftir því að hæstv. forsrh. láti af þeim hætti sínum að svara ekki ítrekuðum spurningum um þetta efni. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon bar hana a.m.k. þrisvar upp og hv. þm. Össur Skarphéðinsson tvisvar.

Þess vegna óska ég þess, virðulegi forseti, að ef hæstv. ráðherra kýs að halda áfram uppteknum hætti og svara ekki spurningunni verði umræðunni frestað og a.m.k. fari atkvæðagreiðslan á þessu fyrsta dagskrármáli ekki fram fyrr en þetta liggur skýrt fyrir og við sjáum þá frekar fyrir endann á þingstörfunum.