Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 16:21:25 (9229)

2004-05-27 16:21:25# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[16:21]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Forsætisráðherrar hafa nokkrum sinnum verið spurðir þvílíkra spurninga þegar þingið hefur farið í jólafrí. Ég minnist þess aldrei að spurt hafi verið slíkra spurninga við lok þingsins. Spurningarnar hafa jafnan verið á þá lund --- ég hef a.m.k. nokkrum sinnum svarað þess háttar spurningum --- hvort viðkomandi forsrh. hafi í hyggju á því augnabliki að setja einhver bráðabirgðalög eða standa fyrir því að bráðabirgðalög yrðu sett meðan á jólaleyfi þingmanna stæði. Þá hefur því verið svarað efnislega að engin slík ráðagerð væri í höfði forsrh. á þeim tíma. En það hefur aldrei verið sagt eða lýst yfir að forsrh. afsalaði sér eða ríkisstjórn sinni bráðabirgðalagavaldinu. Það er ekki aðeins réttur, það er einnig skylda, þannig að það hefur aldrei komið til þess svo ég muni til að menn hafi verið með þess háttar spurningar í lok þings eftir vetrarstarf, aldrei komið til þess.

Ég segi aftur að ég tel að þetta séu óeðlilegar getgátur í garð forsetans vegna þess að enginn forseti lýðveldisins hefur ákveðið slíkt. Ég vitna sérstaklega í orð frú Vigdísar Finnbogadóttur sem sagði að þannig hefði forsetavaldið þróast að forsetarnir hefðu jafnan ákveðið að ganga ekki gegn þinginu. Þannig orðaði hún það efnislega. Enginn forseti hefur gert þetta og ég geri ekki ráð fyrir því fyrir fram að einhver forseti sé nú uppi í starfi eða verði það í framtíðinni sem hafi slíkar ráðagerðir í hyggju, ég tala nú ekki um þegar svo lítið mál er að vöxtum miðað við önnur stærri mál þjóðfélagsins eins og hér hefur verið um rætt.